10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef fram að þessu ekki rætt mikið um þau tekjuöflunarfrv., sem ríkisstj. hefur lagt hér fram, því að mér hefur þótt rétt að bíða eftir því, að stefna hennar yrði ljós, hvað hún ætlaði sér í sambandi við tekjuöflun, hvar hún ætlaði að ráðast á garðinn, hvaða heildarráðstafanir hún ætlaði að gera, og ég hef beðið þess með óþreyju að sjá, hvað þessi fyrsta ríkisstj. Alþfl. á Íslandi mundi leggja til, að gert yrði til þess að ráða fram úr þeim fjárhagsmálum, sem liggur fyrir okkur að leysa. Og með þessu frv., sem við ræðum hér, virðist það skýrt komið í ljós, hver þessi stefna er. Það er gerð grein fyrir því í grg. og í ræðu hæstv. ráðh., sem talaði fyrir hönd ríkisstj., og býst ég við, að stjórnarflokkarnir séu sammála um þetta og að þetta 30 millj. álag, sem lagt er til, sé framkvæmd á þeirri stefnu, sem Alþfl. hafi beðið eftir að geta tekið upp með forustu í ríkisstj. á Íslandi, til þess að sýna, hvaða blessun þjóðin mundi af því hljóta. Mér þykir því rétt að athuga, hvert stefnt er með þessari till.

Í fyrsta lagi er sagt, að hér vaki fyrir að halda vísitölunni niðri í landinu, en hins vegar er það svo talin eðlileg afleiðing, að vísitalan hækki. Sem sagt, með þessum ráðstöfunum er beinlínis verið að vinna á móti sjálfum tilgangi l., sem ríkisstj. lýsir yfir, að hún hafi fyrir augum. Það er gefið, að með þessari álagningu er verið að hækka vísitöluna í landinu, og þá koma nýjar álögur, eins og t.d. um daginn, er tóbakið var hækkað, sem þýðir vísitöluhækkun um 2 stig, og þá verður að leggja á nýja skatta, og hvar endar svo þetta? Þetta eru því engin úrræði. — Hvað þýðir þetta þá að því leyti, sem það verður til þess að hækka verð á afurðum almennt, að svo miklu leyti sem almenningur fær þetta ekki upp bætt? Að svo miklu leyti sem þetta er hækkun á vörum, sem kemur ekki fram í vísitölunni. er þetta skipulagning á hækkun á dýrtíðinni í landinu, sem fólkið án nokkurra uppbóta verður að borga. Það er því bein árás á þau lífskjör, sem almenningur á við að búa í landinu. Og ef reikna á með, að þessar 30 millj. komi t.d. að 1/10 eða 1/15 fram í vísitölunni, en að hinu leytinu í rýrnun á lífskjörum almennings, þýðir þetta árás á þau lífskjör, sem almenningur hefur átt við að búa. Nú er rétt að athuga, hvernig lífskjörum nú er háttað með hliðsjón af vísitöluútreikningi frá 1939. Vísitalan byggist á útreikningi á launum svo að segja eingöngu manna, sem höfðu þurftartekjur eins og þær voru áætlaðar 1939. Nú vitum við, að það, sem ein verkamannafjölskylda getur haft hér 1939, er ekki sérstaklega mikið af þeim lífsnauðsynjum, sem fjölda manns í þjóðfélaginu nú finnst sjálfsagt að geta notið. Lífskjörin eru þá mjög slæm. Ég veit, að margur verkamaðurinn gat ekki veitt sér það að kaupa ver utan um sængurfötin sín, fyrr en atvinnuleysið var afnumið. Þá vita allir, hvernig ástandið hefur verið með húsbúnað hjá verkamönnum 1939, fatnað o.s.frv. Lífskjörin hafa breytzt á þessum tíma. Kröfurnar, sem þjóðin gerir til lífsins, eru meiri, en vísitölunni er haldið þennan tíma niður við þessi lágu lífskjör, sem þá voru. Það þýðir, að ef t.d. verkamaðurinn gerir meiri kröfur til þess að kaupa betri kjól handa konu sinni, sem nú mundi kosta fjór- til fimmfalt á við það, sem áður var, kemur þessi hækkun ekki fram í vísitölunni. því að vísitalan er reiknuð út frá allra brýnustu lífsnauðsynjum. Þetta þýðir þess vegna það, að fyrir bóndann eða verkamanninn, sem nú búa við betri kjör og gera meiri kröfur til lífsins en áður, fyrir þá alla er hækkun á þeim vörum, sem koma ekki inn í vísitöluna nú, beinlínis skipulagning á því að lækka þeirra lífsstandard. Þetta veit ég, að öllum þm. er ljóst. — En við þetta bætist þar að auki, að mikill fjöldi viðkomandi aðila býr við húsaleigu, sem er margfalt hærri en 1939. Allir þekkja, hvað menn verða að borga mikinn hluta af launum sínum til þess að komast í nýjar íbúðir í Reykjavík. Þetta hefur ekki komið fram í vísitölunni. Mikill fjöldi hefur orðið að sætta sig við að greiða aukalega af launum sínum án þess að fá það upp bætt með vísitölu. Vísitalan hefur því hvað þetta snertir beinlínis verið fölsuð. Þegar því það sýnir sig, að vísitalan tekur ekki til þeirra krafna til lífsins, sem nú eru gerðar á Íslandi, og hefur þar að auki beinlínis verið fölsuð, þá er greinilegt, að hin nýja tollahækkun þýðir beina lækkun á lífskjörum almennings, beina lækkun á gildi hverrar krónu, sem verkamaðurinn fær greidda. Ráðstafanir í svona stórum stíl þýða raunverulega lækkun hjá launþegum í landinu, og ekki aðeins launþegum, heldur líka lækkun á lífskjörum þeirra, sem taka ekki laun sín í peningum, bændum og fleiri, sem þurfa að kaupa vörur til sinna nauðsynja.

Hvert verður eðlilegt svar, þegar til lengdar lætur, við svona ráðstjórn? Búast menn almennt við því, að launþegar og aðrir aðilar í landinu láti bjóða sér það að rýra þannig lífskjör þeirra með ráðstöfunum þess opinbera, án þess að þeir reyni að knýja fram uppbætur fyrir þetta, og þær uppbætur mundu vera í því fólgnar að krefjast hækkunar? Mér sýnist því, að með till. eins og þessari sé beinlínis verið að skora á verkalýðsfélögin að athuga sinn gang og hækka grunnkaupið í landinu. Hvernig félögin taka undir slíka áskorun, veit ég ekki, en samkv. eðli málsins er þetta áskorun um að hækka grunnkaupið, og þessi áskorun er borin fram af því meiri þunga af ríkisstj. sem engar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að skerða þann gróða, sem auðmannastéttin í landinu hefur haft, og ekkert hefur komið fram frá hæstv. ríkisstj., sem bendir til að hún ráðist á garðinn þar. sem hann er hæstur. Hér er því um það að ræða að höggva í sama knérunn og tíðum hefur verið reynt að höggva áður fyrr, á kostnað launastéttanna og alþýðunnar, en auðmannastétt landsins hlíft. Þetta kemur greinilega í ljós, því að ríkisstj. leggur þessi frv. hér fyrir, eftir áður að hafa hækkað tóbak og brennivín án þess að hafa sýnt lit á því að koma með nokkur lagafrv., sem að nokkru leyti beinist gegn gróða auðmannastéttarinnar á Íslandi.

Það er skaðlegt að hafa of mikið af vinnuaflinu bundið í verzluninni. og slíkt verður alltaf baggi á framleiðslunni og þjóðfélaginu. En eins og nú er, hefði því verið heppilegra fyrir ríkissjóð að taka tekjur sínar með því að hagnýta sér verzlunargróðann. Það er nauðsynlegt til þess að skapa rétta stefnu í þjóðfélaginu að beina vinnuaflinu og fjármagninu frá verzluninni til framleiðslunnar og hinna ýmsu atvinnugreina, og þess vegna hefði verið hægt að búast við því, að þetta hefði verið eitt af fyrstu verkefnum hæstv. ríkisstj. Hins vegar er stefnt að því með þeim frv., sem fram koma nú frá hæstv. ríkisstj., að hlífa heildsalagróðanum og verzlunargróðanum, en tekna ríkissjóðs á að afla með beinum nefsköttum á almenning. Enn fremur hefði það getað komið til mála í tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs, að lagður væri skattur á ýmsa þá óhófsneyzlu og munað, sem hér á sér stað. Það er lýðum kunnugt, að sú hin nýríka stétt, sem hér hefur skapazt á undanförnum árum, hefur m.a. byggt sér heilar hallir, þar sem hver einstök fjölskylda hefur frá 6 upp í 12 herbergja íbúðir. Það mætti því leggja skatt á hinn háa lífsstandard þessarar stéttar, þannig að hann kæmi niður á því, sem þessi stétt veitir sér fram yfir það, sem almenningur hefur tök á. Væri t.d. hægt að skattleggja þær íbúðir, sem væru stærri en 4 til 5 herbergja, eða miðað væri við stærð hverrar fjölskyldu. Enn fremur mætti skattleggja sérstaklega þá lúxusbíla, sem eru í eign þessarar stéttar, og yfirleitt allt það, sem hún veitir sér, er gerir líf hennar frábrugðið lífi annarra stétta samanborið við það, sem þær hafa tök á að veita sér. Það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja, að þeir, sem eru ríkir, leyfi sér að hafa það gott, en það er ekki nema réttmætt, að þeir greiði hlutfallslega hærri skatta en almenningur, og meðan þetta er ekki gert, á ekki að skattleggja almenning. — Enn fremur er hér fjöldi af fyrirtækjum, sem vitað er að hafa einokunaraðstöðu hvað gróða snertir, bæði fyrirtæki, er reka innlendan iðnað, svo og kvikmyndahúsin, en það er vel hugsanlegur tekjustofn fyrir ríkið að taka þess háttar fyrirtæki til þjóðnýtingar og láta þann gróða renna beint til þjóðfélagsins, sem nú rennur í vasa einstaklingsins. Þetta eru allt hlutir, sem hefði átt að gera áður en hæstv. ríkisstj. hefði lagt fram frv. um að afla ríkissjóði um 30 millj. kr. tekna af tollum, er teknar væru af almenningi.

Það væri enn fremur ekkert undarlegt, þótt spurzt væri upplýsinga um það í sambandi við þessi mál, um leið og þessar 30 millj. kr. skattálögur á að leggja á almenning, hvað líði eignakönnuninni, sem hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir á stefnuskrá sinni, að hún ætli að láta fara fram, sem gera ætti í því skyni, að ríkissjóður gæti náð þeim óhóflega gróða af þeim mönnum, sem mestum auð hafa safnað á undanförnum árum og hægast hafa átt með að koma honum undan skatti. Eða er kannske útlit fyrir, að svo geysiháir skattar verði lagðir á auðmannastéttina og svo miskunnarlaust frá henni gengið, að engin smuga verði eftir fyrir gróðamennina og húsabraskarana, að ekki sé til of mikils mælzt, þótt alþýðan verði látin borga þessar 30 millj.? Það væri því ekki nema eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. gæfi hér nokkrar upplýsingar um, hvað undirbúningi þessa máls liði, til þess að alþýðan fengi einhverja vitneskju um það um leið og þessi baggi er lagður á hana, hvort svo miklu stærri baggi væri í vændum fyrir auðmannastéttina. Það hefði einhvern tíma verið hægt að búast við því, að ríkisstj. undir forsæti Alþfl. hefði látið slíka eignakönnun koma fram á undan tollálögum, sem lagðar eru á herðar almenningi, eins og hér er gert.

Ég held, að í þessu frv. felist tveir þættir; annars vegar sá, sem hækkar vísitöluna; hins vegar sá, sem eykur dýrtíðina, án þess að vísitalan hækki. Þetta frv. boðar því auðsjáanlega ekki sérstaklega mikið um réttláta úrlausn á þeim dýrtíðarvandamálum, sem fyrir liggja. Hækkunin á þeim vörum, sem almenningur kaupir, og hækkunin á t.d. benzíni, getur hæglega leitt til þess, að kaupgjaldið í landinu hækki, sem kemur niður á atvinnulífinu; þessi frv. hæstv. ríkisstj. setja m.ö.o. þann spíral af stað, sem einmitt hefur verið talað um í sambandi við dýrtíðarmálin, að reyna beri að stöðva. Hins vegar hefði mátt koma í veg fyrir þetta með því að leggja auknar skattálögur á auðmannastéttina og taka gróðann af henni, en með því að leggja þær á almenning er stefnt að beinni hækkun á kaupgjaldi launþega innanlands, sem þýðir eyðileggingu þeirra áhrifa, sem hæstv. ríkisstj. segist stefna að. — Ég held því, að þessar till. sem hér liggja fyrir, séu ýmist þýðingarlausar hvað dýrtíðina snertir eða bein árás á launakjör alþýðunnar í landinu.

Hæstv. fjmrh. minntist á hagfræðingaálitið í þessum umr., þar sem þeir koma inn á hækkanir á tollum. En ef ég man rétt, minnast hagfræðingarnir á tollhækkun aðeins sem einn lið í stóru samfelldu kerfi af ráðstöfunum, sem gera beri, þar sem þeir samtímis ganga út frá allróttækum ráðstöfunum gagnvart auðmannastéttinni og að öðru leyti til þess að minnka þann raunverulega kostnað, sem verið hefur á framleiðslunni í landinu, og skal ég ekki fara nánar út í það atriði.

Hins vegar verð ég að segja það, að mig furðar sérstaklega á framkomu Alþfl. í þessum málum og þætti vænt um að fá yfirlýsingu um það við þessa umr. af hans hálfu, aá hverju hann stefnir með þessum tollhækkunum. Hann hefur fram að þessu haldið því fram í yfirlýsingum sínum og stefnuskrám, að fyrst og fremst bæri að taka gróðann með því að svipta auðmannastéttina mjög miklu af þeim tekjum, sem hún hefur. Það væri því fróðlegt að fá vitneskju um það, hvernig á því stendur, ef Alþfl. hefur sett slíkt skilyrði, sem hann segist hafa verið svo duglegur að setja, þegar ríkisstj. var mynduð, að fram skuli koma hér á Alþ. með hans samþykki aðrar eins till. og þær, sem nú liggja hér fyrir. Enn fremur þætti mér vænt um að fá upplýsingar um það á þessu stigi málsins frá hæstv. ríkisstj., hvað hún sér framundan á þeirri braut. sem hún er komin inn á með þessu frv.

Mér heyrðist það á ræðu hæstv. fjmrh., að hann væri alls ekkert trúaður á það, að það, sem ríkisstj. legði til í þessum málum, væri nein lausn á þessu máli. Hann lagði sérstaka áherzlu á það í framsöguræðu sinni, að á meðan vísitalan væri borguð niður, væri ekki hægt að gera aðrar ráðstafanir en þær, sem ríkisstj. legði nú fram. Er ríkisstj. búin að koma vísitölunni svo hátt, og er hún nú að búa sig undir að hætta að borga vísitöluna niður og sleppa svo öllu lausu? Hvert einasta spor, sem stigið er í þá átt, sem gert er með þessum frv., þýðir það, að eftir 1 eða 2 mánuði verður helmingi erfiðara að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir, og að búið verður að festa dýrtíðina miklu meir, en nú er. Ég skil ekki í öðru, en að hæstv. ríkisstj. hafi hugsað um þetta, þegar hún ákvað að leggja þessi frv. fyrir þ., og að hún hafi hlotið sjálf að sjá, að hún væri með þessu að hækka vísitöluna, að framkalla ráðstafanir til enn meir aukinnar dýrtíðar og að með þessu er gert stórum erfiðara að beita nokkrum ráðstöfunum til þess að lækka vísitöluna aftur. Ég álít það vera nauðsynlegt þjóðarinnar vegna, að það komi fram af hálfu hæstv. ríkisstj. í sambandi við þær umr., sem nú fara hér fram, hvað hún sér fyrir í þessum efnum, og hvort það er stefnt vitandi vits út í þá ófæru, sem allar líkur benda til, að þessi mál lendi í.

Það er vitanlegt, að þær ráðstafanir, sem hér er ætlazt til að gera, bjarga ekki íslenzkum sjávarútvegi; þær koma til með að skella á honum að lokum, — þær verða til þess að hækka alla dýrtíð og hafa í för með sér kauphækkanir launþega hér. Hins vegar er leiðin, sem fara hefði átt í þessum efnum, fyrst og fremst sú að skera niður þann gróða í einstaklingseign, sem til er á Íslandi. En það er ekki hægt við því að búast, að alþýðan sætti sig við það að sjá launakjör sín skorin niður, áður en nokkur tilraun er gerð til þess að reka íslenzkan atvinnurekstur á meir skipulagðan hátt, en gert er og meðan ekki er skorið af þeim gífurlega gróða, sem auðmannastéttin á Íslandi hefur enn þá. Þess vegna verðum við að gera okkur það ljóst, að till. um að taka 30 millj. kr. í tollum af almenningi eru hnefahögg framan í hann, sem hann hlýtur að svara. Ég hygg, að alþýðan væri reiðubúin að taka á sig að einhverju leyti byrðar þjóðfélagsins, þegar hún sér, að allt er gert sem hægt er til þess að skipuleggja atvinnureksturinn og reka hann með gróða, og að skorið væri ofan af gróða auðmannastéttarinnar, en það er ekki von, að alþýðan taki því með þökkum, þegar byrjað er á að þyngja hennar byrðar, án þess að talað sé neitt um, hvernig eigi að fara að með hinar stéttirnar, sem betur eru settar.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur reynt að gera sér ljóst, hvert stefnir í þessum málum, en mér sýnist þetta stefna út í beina stöðvun, ef svona verður haldið áfram, og að eftir svo og svo langan tíma verði sagt: Nú getur sjávarútvegurinn ekki borið þessa hluti lengur, nú getur þjóðin ekki lengur staðið undir öllum þessum álögum — og nú verður að stöðva allan atvinnurekstur, ef verkamenn vilja ekki sætta sig við laun sín.

Ég held því, að tími sé kominn til fyrir hv. Alþ., að það fari að athuga sinn gang og að það geri sér ljóst, að þýðingarlaust er að halda áfram á þessari braut og hvert eigi að stefna í þessum málum. Það þýðir ekki að halda svona áfram ár eftir ár og segja: Við getum ekki gert annað í dag, við sjáum ekki önnur ráð.

Í þessu frv. felst tvenns konar yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj., annars vegar, að hún sjái engin úrræði fram úr þeim vandamálum, sem hún á við að glíma, og hins vegar, að hér sé um einhverjar tilraunir að ræða, sem lenda einvörðungu á alþýðunni. Hvorugt vil ég sætta mig við.