22.05.1947
Neðri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

102. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Það eru örfá orð. Mér er áhugamál, að frv. nái fram að ganga, það er mikið í húfi, að það dagi ekki uppi á þessu þingi. Ég átti tal við form. allshn. Ed. og fékk hjá honum þær upplýsingar, að að þessu leyti hefði frv. verið afgr. frá Ed. eins og það kom frá Nd., og ég sé, að meiri hl. allshn. þessarar d. hefur lagt til, að nefndur maður öðlaðist ríkisborgararétt. Og þó að ég að vísu geti ekki séð, hvenær hann hefur lagt þá beiðni fram, þá hygg ég, að það hafi verið alllöngu eftir dagsetningu þessa bréfs. M. ö. o. allshn. þessarar d. hefur lagt til, að hann fengi ríkisborgararétt og það eftir að bréf það, er hér hefur verið um rætt, barst d., svo að ég hygg, að það hljóti að vera, að einhverjar aðstæður hafi breytzt í millitíðinni, sem ómerki þetta bréf, þó að ég vilji ekki fullyrða það, enda því ekki kunnugur. En það, sem ég vildi vekja athygli á, er það, að mér sýnast málavextir þannig, að þessi maður hljóti að hafa afturkallað bréf sitt, því að það er sannanlegt, að n. hefur lagt til, að hann hlyti ríkisborgararétt, eftir að það bréf barst Alþ., að hann óskaði eftir, að sér yrði ekki veittur þessi réttur að svo stöddu. Ég hygg því, að rétt sé að láta málið ganga fram eins og það er.