10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Já, hv. þm. sagði, að það yrði að fara aðrar leiðir og gera aðrar ráðstafanir. Ég sagði við 2. umr. fjárl., að við þyrftum að jafna metin, hætta að gera kröfur hvor til annars og reyna að klifra niður dýrtíðarstigann. En hverju væri nú verkalýðurinn bættari, ef þetta frv. væri ekki samþ. og þá um leið engir peningar tiltækir til þess að greiða niður dýrtíðina næstu mánuði? Hverju væri hann bættari, þó að dýrtíðin yxi svo, að engin leið væri að halda uppi atvinnuvegum landsins nema af þeim fáu auðkýfingum, sem til eru? Ég ber ekki á móti því, að örfáir slíkir menn séu til. En við getum ekki byggt allan þjóðarbúskapinn á þeim mönnum, sem hafa grætt á stríðsárunum, auk þess sem erfitt yrði, jafnvel fyrir hv. 2. þm. Reykv., að ná þeim gróða. Nei, hér verður að reyna að þrauka við, halda í horfinu, þangað til við erum búnir að öðlast þann skilning, að allir eru reiðubúnir að fórna einhverju til þess að leiðrétta þessi mál, öðlast þann skilning, að menn fjúki ekki upp við fyrsta. spor og segja:

Nei, þetta er ótækt, þetta er til skaða fyrir þennan eða hinn.

Það er svo sem ekkert skemmtiverk eða neitt, sem maður ætlast til að fá hrós fyrir, að leggja til að hækka álögurnar á þjóðinni. En hjá þessu verður ekki komizt, nema Alþ. vilji færa útgjöld fjárl. niður, og er þó hvimleitt, þegar svo langt er liðið á þetta ár. En afstaða hv. 2. þm. Reykv. lýsir sér bezt í því, að hann hefur viljað fara þveröfugt að. Hann hefur viljað hækka þau meir en nokkur annar þm. En hvað þýðir það? Það kallar á fé, það veit hv. þm. eins vel og ég, og miklu betur, og það vita allir.

Ég held því, að ekki verði hjá því komizt að gera annaðhvort, að samþ. þessar hækkanir, sem hér um ræðir, eða gera eitthvað annað, sem verkar eins vel, svo að vísitalan haldist niðri, en ég held, að erfitt verði að finna það svo, að gerlegt yrði og reyndist ekki fullerfitt að koma því í framkvæmd. En ég vildi stuðla að því með hv. 2. þm. Reykv. að finna hentugri leiðir á þann hátt, að ýmsir aðilar, t.d. stéttarsamtökin, beri ráð sín saman og fáist til að skilja það, að vaxandi dýrtíð er öllum til skaða, og fallast á leiðir, sem ofþyngdu ekki neinni stétt, en allir slökuðu til, verkalýðurinn og launþegar á launakröfum og framleiðendur á verðkröfum. Það er sú leið, sem færust verður út úr því ófremdarástandi, sem verið er að reyna að hamla gegn. Þetta frv. er einn þátturinn gegn því, að dýrtíðin vaxi mönnum yfir höfuð, og ekki fram borið til þess að ásækja neina stétt eða egna neina stétt til æsinga. Menn eru farnir að sjá það, að það er ekki alveg sama, hvað hluturinn kostar, ef menn hafa þetta margar krónur í kaup. Skilningur á verðbólgunni er að ryðja sér til rúms. Menn hafa of lengi litið á krónutöluna, en menn eru að skilja það, að vaxandi krónutala er lítils virði, ef henni fylgir vaxandi verð á nauðsynjum.

Nú er það svo, að í þessu frv. er ekki farið eins langt og flokksbróðir hv. þm. í hagfræðinganefndinni hefur lagt til. Flokkur hv. þm. stendur sig illa við að senda á vettvang einn af sínum lærðustu hagfræðingum og láta hann gera tillögur, og svo þegar ríkisstj. ber þetta fram, er það sá flokkurinn, sem leggst fastast á móti, enda veit ég, að svo vel gefinn maður og hv. 2. þm. Reykv. sér, að á þessu er nokkur brotalöm.