22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

159. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Eins og hér hefur verið skýrt frá við 1. umr. og grg. þessa frv. ber með sér, er það samið og flutt að tilhlutan félmrn. Það er fyrst og fremst fram borið til þess að samræma lög um óskilgetin börn þeim ákvæðum, sem nú eru í l. um tryggingar, enn fremur um leið að taka til endurskoðunar nokkur atriði, sem ekki snerta tryggingar, og breyta sumum þessara eldri ákvæða eða fella niður. Í þriðja lagi eru í þessu frv. ákvæði, sem sérstaklega eru við það miðuð, að skapazt hefur ástand í landinu vegna veru herliðsins, sem nauðsynlegt er að setja lagaákvæði um.

Ég sé ekki ástæðu til að tefja hv. d. með því að ræða þessi atriði í löngu máli, en þó skal ég benda á örfá atriði, sem eru markverðustu nýjungarnar og skipta verulegu máli.

Það er þá fyrst viðvíkjandi 3. gr. Eins og síðari málsgr. hennar ber með sér, eru settar ákveðnar reglur barnsmóður til hagræðis til að bera fram sannanir fyrir faðerni, sem dómstólunum er skylt að taka til greina, en þau ákvæði eru, að ef foreldrar hafa búið saman tiltekinn tíma fyrir barnsburð, er það talin nægileg sönnun fyrir faðerni ef annað sannast ekki.

Í 10. gr. er breytt greiðslufyrirkomulagi barnsmeðlaga, og er það eðlilegt hagræði fyrir barnsmóðurina, og 12. gr. er einnig miðuð við það að samræmast lögum um almannatryggingar. Eins og dm. vita er það ákvæði nú í l., að barnsmóðir getur snúið sér til dvalarsveitar og fengið meðlagsgreiðslu þar, en nú er þessi skylda hér með lögð á almannatryggingarnar, og móðirin snýr sér til þeirra.

Enn fremur eru í 13. og 14. gr. ákvæði, sem snerta sérstaklega viðhorfið, sem skapazt hefur vegna dvalar erlends herliðs í landinu, óskilgetin börn hermannanna hér. Um þetta eru settar tvær meginreglur. Í fyrsta lagi (samkv. 13. gr.), að ef faðerni er sannað, eru ákvæði þar, sem veita móðurinni það hagræði að eiga kröfu á úrskurði íslenzks stjórnarvalds um meðlagið, og síðan getur hún notað þann úrskurð til að fá greitt samkvæmt honum, sem henni væri ella illkleift, þar sem hermennirnir eru ekki undir íslenzkri dómsögu. 14. gr. fjallar hins vegar um það, er vafi leikur á faðerninu, og eru þar ákvæði, sem eru allmikil nýjung í lögum hér, en nýjungin er sú, að ef móðir getur frammi fyrir dómara fært líkur fyrir faðerni barnsins, sem hann telur eða metur nægilega sterkar, þá er dómaranum heimilt að veita móðurinni rétt til að staðfesta framburð sinn með eiði, og ber að taka það gilt sem sönnun frá hennar hendi.

Nú, í 16. gr. eru einnig ákvæði varðandi tryggingar. Samkv. l. nr. 46 frá 1921 hvílir sú skylda á barnsföður að greiða kostnað við framfærslu barnsmóður tiltekinn tíma fyrir fæðingu. Nú á Tryggingastofnun ríkisins að greiða mæðrum tilteknar fjárupphæðir vegna fæðingar og meðgöngutíma, en vegna þess að þær bætur eru misjafnar eftir því, hvort mæðurnar stunda atvinnu innan heimila eða utan, er jafnframt ákveðið í þessari gr., að barnsfaðir á að greiða barnsmóður nokkra upphæð til viðbótar, ef hún fær lægri upphæðina frá tryggingastofnuninni, sem bætur fyrir meðgöngu-tíma og barnsburð, en það er í því tilfelli, að hún vinni á heimilinu samkvæmt ákvæðum í tryggingalöggjöfinni.

Þá er enn fremur smávægileg breyting í 19. gr., að barnaverndarnefnd kemur í stað valdsmanns í gömlu lögunum frá 1921.

Ég held, að þessi grg. fyrir þeim nýjungum, sem í frv. felast, verði að nægja af minni hendi. Eins og ég sagði í upphafi, eru þessar breyt. aðallega gerðar til að samræma þessi lög tryggingalöggjöfinni, en jafnframt að sníða annmarka af gömlu lögunum, og í þriðja lagi eru svo ákvæði í sambandi við það sérstaka tilfelli, að útlendir hermenn eiga hér allmikið af óskilgetnum börnum. Ég held, að frv. sé yfirleitt til bóta, og nm. eru sammála um að mæla með því. Þó hefur einn nm. áskilið sér rétt til að koma fram með brtt., ef ég man rétt.