10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil segja hér örfá orð um þetta tekjuöflunarfrv., áður en það fer til n., og þá einnig í tilefni af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í sínum ræðum.

Það hefur gengið mjög erfiðlega á þinginu að afgr. fjárl. Einnig þekkja allir, sem fylgzt hafa með málum, að það hlaut að fara svo, að erfiðlega gengi að ganga frá fjárl. og jafnvel óviðráðanlegt og eins og hér hefur áður verið tekið fram, meðal annars af hæstv. fjmrh. í sambandi við 2. umr. fjárl., að það væri í raun og veru ekki nema um 2 kosti að velja. Annar kosturinn var sá að gerbreyta þeirri löggjöf, sem sett var á síðasta sumri og hækkað hefur fjárl. um milljónatugi. og jafnframt að gera ráðstafanir til þess að lækka verðbólguna, og þannig með þessu tvennu móti var um gerbreytingu á þessari löggjöf að ræða, þ.e. lækkun á verðbólgunni til þess að fjárl. yrðu viðráðanleg án nýrrar tekjuöflunar. Um þessa leið hafa ekki orðið samtök í þinginu. En mér er óhætt að segja, að Framsfl. hefði viljað fara þessa leið, en um það fékkst ekki samkomulag.

Hin leiðin, sem þá lá næst að fara, var að afla tekna til viðhalds þeirri löggjöf, sem sett hafði verið, og til þess að stöðva dýrtíðina þannig, að dýrtíðin eða vísitalan hækkaði ekki frá því, sem hún var orðin. Það er þessi leið, sem valin hefur verið, af því að ekki fékkst samkomulag um hina leiðina.

Þriðja leiðin var að sjálfsögðu til, hún var að láta allt dankast um vísitöluna, en afleiðingarnar hefðu orðið þær, að vísitalan hefði komizt upp í 320 eða 330 stig. Framundan hefði þá ekki verið annað en að framleiðslan hefði stöðvazt, ef hún hefði þá ekki verið það áður, þrátt fyrir ríkisábyrgð frá Alþ. Og mér þykir líklegt, að ef núverandi stjórnarmyndun hefði ekki tekizt, þá hefði það orðið hlutskipti manna að fara þessa þriðju og verstu leið.

En miðleiðina erum við að reyna að þræða til þess að afla tekna til þess að standa undir löggjöf síðustu missira til viðbótar þeim styrkjum, sem áður voru á fjárl., og til þess að halda vísitölunni fastri. Hitt er svo augljóst mál og verður að undirstrika í hvert skipti, sem um þetta er fjallað, að þessi leið, að afla ríkissjóði tekna til þess að halda vísitölunni fastri og til þess að komast hjá alvarlegri ráðstöfunum. Og það ætti hverju mannsbarni að vera ljóst, þó að enn þá skorti samtök um að viðurkenna það, að það verður að gera miklu meiri breytingar á fyrri stefnu, en nú hefur verið gert frá því, sem verið hefur. Og því fyrr sem breytingarnar eru gerðar, því betra.

Það þarf ekki annað en að líta á, hvað hér er að gerast, til þess að sjá, að þetta eru aðeins bráðabirgðaráðstafanir og gripa verður til annarra ráðstafana, heldur fyrr en seinna. Og það má benda á, að sú tekjuöflun, sem núv. ríkisstj. beitir sér fyrir til þess að koma jafnvægi á fjárl. og festa vísitöluna til bráðabirgða, nemur hvorki meira né minna en 55 millj. kr. aðeins fyrir eitt ár, og það viðbótartekjur. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi. Og þessum 55 millj. kr. er reynt að ná til þess að halda ríkisrekstrinum gangandi eins og hann var þegar þessi ríkisstj. tók við, og til þess að geta haldið uppi þeirri löggjöf, sem búið var að setja þegar þessi ríkisstj. tók við, og til þess að halda niðri þeim dýrtíðarkúf, sem búið var að setja áður en stj. tók við. Og gert er ráð fyrir, að reksturshallinn verði á 3. hundrað millj. kr.

Ég ætla svo ekki að fara meira út í það hér, hvernig ástatt er í öðrum efnum, en fjárlagaafgreiðslunni og afkomu ríkissjóðs.

Nú er búið að ráðstafa gersamlega öllum gjaldeyrisinneignum landsmanna og bankarnir hafa neyðzt til þess að stöðva verulega yfirfærslu, svo að nú má heita, að engin innflutningsleyfi séu gefin út nema fyrir matvælum og til þess nauðsynlegasta, til þess að framleiðslan stöðvist ekki. Og þegar litið er á peningamarkaðinn og hvernig útlitið er með fjáröflun til framkvæmda, þá er það ekki gott.

Þetta sýnir allt, að þetta eru bráðabirgðaráðstafanir til þess að koma í veg fyrir enn þá stórkostlegri öfugþróun en þá, sem þegar hefur orðið, ef þess væri kostur.

Og ástæðan til þess, að Framsfl. hefur tekið þátt í þessari ríkisstj., er ekki sú, að stefna stj. í þessu máli sé fullnægjandi, heldur vegna þess, að hann að yfirveguðu ráði komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri það skásta, sem hægt væri að gera, og í það minnsta væri gerandi tilraun til þess með þátttöku í ríkisstj., að ríkisstj. kæmi í veg fyrir frekari öfugþróun, en hafði átt sér stað.

Um leiðir, sem valdar eru til tekjuöflunar, þá er það að segja, að þær bera vott um það, að þar er um leiðir að ræða, sem enginn flokkur, sem að ríkisstj. stendur hefur ráðið einn um. Það eru þrír flokkar, sem standa að stj., og ég get sagt fyrir hönd Framsfl., sem hver ráðh. getur líklega sagt fyrir sinn flokk, að ef hann einn hefði ráðið, þá hefðu þessar till. ekki komið svona fyrir. Það hefðu þá verið lagðar fyrir kannske ekki eins till., en ýmsar aðrar till. En ég skal ekki fara út í það, heldur það, sem hv. 2. þm. Reykv. kom með í sinni ræðu.

Hv. þm. dvaldi mjög við það, að þessum till., sem í frv. felast, væri beint gegn alþýðu manna í landinu og til hefðu verið aðrar og heppilegri leiðir til þess að afla þeirra tekna, sem ætlað er að afla með þessu frv., þ.e. að taka fjármunina frá þeim, sem betur gætu borgað. Út frá þessu og því, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um verzlun, vil ég segja frá mínu sjónarmiði þetta: Hér liggur fyrir frv. um fjárhagsráð. Það er ætlazt til þess, að þetta nýja ráð taki að sér eins konar yfirstjórn í viðskipta- og verzlunarmálum og yfirstjórn á verðlagseftirliti. Og ég hef skilið stjórnarsáttmálann þannig. að með komu fjárhagsráðs ætti að verða stefnubreyting í þeim efnum frá því, sem verið hefur, og má í þessu efni vísa til, að í stjórnarsáttmálanum er það orðað svo hvað verzlunarmálin snertir, að stuðla skuli að því, að vörur séu keyptar á sem haganlegastan hátt. Og ég skal ekki vefengja, að það geti ekki orðið eðlileg samkeppni í verzlunarmálunum og af því geti leitt betri verzlun fyrir menn, en verið hefur áður og að menn muni njóta þess í framkvæmdinni. Og af þessu leiði svo aftur það, að ef þetta rættist, mundi ekki verða um jafnmikinn gróða verzlunarinnar að ræða og nú hefur verið undanfarið. Og ef þetta rættist, mundi þetta líka verða svo, að verulegur hluti af þeim aukatollum, sem nú eru lagðir á, þyrfti ekki að koma fram sem hækkað verðlag til neytenda og verzlunin gæti því batnað fyrir framkvæmdir fjárhagsráðs frá því, sem verið hefur, þá er nokkuð unnið.

Þegar þess vegna deilt er um þessar leiðir, sem nú er verið að fara, þá verður að dæma eftir þeim sjónarmiðum, sem skapast með frv. um fjárhagsráð, ef það verður að l. og það, sem liggur fyrir í stjórnarsáttmálanum í sambandi við þetta frv.

Viðvíkjandi því, sem snertir tekjuskattinn, er þess að gæta — og ég hygg, að flestir séu sammála um það, — að tekjuskattstiginn, þegar útsvörin koma til viðbótar, sé nokkurn veginn eins hár og mögulegt er að setja hann og það þyrfti að breyta og bæta framkvæmd skattal. hvað snertir beinu skattana til þess að tryggja þessar tekjuöflunarleiðir, frekar en að hækka skattstigann. Og ég hygg, að þessi skoðun sé alveg rétt. Enda er það meiningin að láta endurskoða gildandi skattal., og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess og til þess að tryggja framkvæmd þeirra betur, en verið hefur. Og þetta ber þá líka að hafa í huga þegar dæmt er um þessar leiðir, sem ríkisstj. stingur upp á til tekjuöflunar.

Þá er þriðja aðalleiðin, sem er tvímælalaust mjög skynsamleg leið. Og ég get sagt fyrir mitt leyti, að þó að gengið sé inn á þessa leið í frv., sem ríkisstj. leggur nú fram hér, taldi ég, að æskilegt hefði verið að fara lengra í því efni.

Ég vil benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að eins og þessir tollar eru upp byggðir, verða þeir að mjög verulegu leyti skattar á eyðslu, og í því sambandi má nefna hækkun á aðflutningsgjöldum, sem mest kemur á vörur, sem menn geta verið án eða þeir kaupa, sem mest peningaráðin hafa. Og hér er um mestan verðtoll að ræða á þeim vörum, sem þeir veita sér, sem mest peningaráðin hafa, en eru ekki nauðsynlegar. Þetta kemur því að verulegu leyti sem skattur á eyðslu, enda þótt þetta komi einnig á hinar. Það mun líka varla vera hægt að hugsa sér að afla 50–60 millj. kr. viðbótartekna á einu einasta ári, og ekki einu sinni það án þess að það komi að einhverju leyti almennt yfir.

Ég held að það megi þess vegna segja, að meginstefnan í þessari tekjuöflunarleið stj. sé einmitt sú að skattleggja eyðslu, þótt hitt sé þá um leið rétt, að það er ekki hægt að kalla það allt óþarfa eyðslu. Og það er vist, að þetta kemur mjög mikið fram á þeim, sem veita sér meira, en almennt gerist.

En vegna þess að hv. 2. þm. Reykv. — sem gerði það ekki sízt að verkum, að ég stóð upp — talaði svo mjög um nauðsyn þess að taka nú allan gróðann frá þeim ríku, sem er í raun og veru ákaflega skynsamlegt, og leggja á stóríbúðaskatt og þjóónýta kvikmyndagróðann og fleira, sem hv. þm. tók fram, en þá get ég ekki stillt mig um að benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að á meðan hans flokkur sat í ríkisstj. undanfarin rúmlega 2 ár, hefur aldrei verið meiri verzlunargróði, en einmitt á þeim 2 árum, og aldrei hefur tekjuskipting á Íslandi verið ójafnari, en á þessum 2 árum og aldrei hefur óhófseyðsla átt sér stað í sögu landsins eins og á þessum rúmum 2 árum. sem flokkur hv. 2. þm. Reykv. hefur verið í ríkisstj. Og hvernig var með stóribúðaskattinn og skattinn á þá ríku og á þá miklu eyðslu? slíkir skattar voru ekki nefndir þá. En í þess stað beitti hv. 2. þm. Reykv. og hans flokkur sér fyrir því, að lagður væri á skattur, sem nefndur var veltuskattur. Og það er öllum kunnugt, að hæstv. fyrrv. atvmrh. (ÁkJ) hafði vikið að því hvað eftir annað, að veituskatturinn væri mjög líkleg tekjuöflunarleið og enginn nauðungarkostur að gripa til hans. Það var því búið að gefa í skyn, á hverju mætti vera von, ef hans flokkur tæki þátt í ríkisstj., en það var veltuskatturinn, og þarf ekki að lýsa honum nánar.

Þessi eru heilindin í afstöðu hv. 2. þm. Reykv. og hans flokks. Það vantaði ekki í sambandi við undirbúning fyrrv. ríkisstj., að þeir lýstu yfir og lofuðu að leggja skatt á bæði biðin og stóríbúðirnar og ef á þyrfti að halda, yrði farið inn á róttækari leiðir til þess að afla tekna frá þeim ríku. En hvað var gert í þessu efni? Ekki neitt. Og það hefur ekki heyrzt meira um það frá þeim flokki í þá átt. Þeir létu sér aðeins nægja að tala um það og lofa því, en sviku það svo.

Nú er hins vegar óhætt að koma, þegar þeir eru búnir að eiga mestan þátt í þessari eyðslu og hafa hlaupið frá þessu örþrotaástandi, sem blasir við, og hrópa að þeim mönnum, sem nú verða að glíma við að finna leiðir til þess að leysa úr því. Nú þykir þeim gott að standa utan við og segja, að það sé hægt að gera þetta eða hitt, sem tínt er til.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vildi aðeins draga fram þessi atriði: Í fyrsta lagi, af hverju og hvað er farið fram á í ákvæðum þessa frv., sem hér liggur fyrir, og enn fremur benda á, að hér er um að ræða samkomulagsleiðir, en ekki þær leiðir, sem Framsfl. hefði farið, ef hann hefði ráðið einn. Og loks gat ég ekki stillt mig um að benda á þann tvískinnung, sem kemur fram hjá hv. 2. þm. Reykv. og hans flokki, að vera að tala um að skattleggja þá ríku, en leggja jafnframt á skatta eins og veltuskattinn, halda því svo fram, að þeir, sem standa að þessu frv., séu með því að leggja þunga skatta og tollabyrðar á almenning.

Ég skal að endingu taka fram, — sem ég hygg, að hæstv. fjmrh. hafi tekið fram, — að samkomulag er um það í ríkisstj., að verja verði fé því, sem aflast með þessum tollum, til þess að hafa áhrif á vísitöluhækkunina, er af þeirri hækkun leiðir, þar til aðrar leiðir eru upp teknar í dýrtíðarmálunum, en nú hafa verið farnar og eru meir til frambúðar.