22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (3390)

159. mál, óskilgetin börn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og er sá fyrirvari miðaður við það, sem nú skal greina :

Í 11. gr. eru ákvæði um það, að ef meðlagsskyldur faðir óskilgetins barns deyr, þá skuli greiða úr dánarbúinu meðlag með barninu til 16 ára aldurs. Það meðlag má ekki vera lægra en barnalífeyrirsamkv. l. um almannatryggingar og ekki hærra en barnið fengi, ef það væri arftækt. Þó má gera undantekningu frá þessu, ef ekkja barnsföður situr í óskiptu búi og valdsmaður ákveður annað með rökstuddum úrskurði. Þess utan er einnig sagt í þessari grein, að deyi óskilgetið barn, áður en eytt er fé því, sem greitt hefur verið með því úrdánarbúi föður þess, komi það fé, sem óeytt er, til skipta milli erfingja hans. Ég tel, að þessi gr. sé algerlega óþörf og röng, og legg ég til, að hún. verði felld. Samkv. 27. gr. tryggingalaganna fær barnsmóðir barnalífeyri, er þannig stendur á, frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt úrskurði, og það jafnt þótt þessi gr. verði felld. Þó að barnsfaðir deyi áður en barnið er 16 ára, er hægt að gera kröfu í dánarbúið samkvæmt l. frá 1921, sem nú á að afnema. Það er því aðeins verið að tryggja tryggingastofnuninni féð, en ekki barninu. Það fær aldrei þetta fé til uppeldis, heldur tryggingastofnunin. Ég skal koma með dæmi. Hugsum okkur, að maður félli frá konu og fjórum börnum þeirra og ætti hússkrokk, sem metinn væri á 100 þús. kr., og ekki aðrar eignir. Ekkjan yrði þá að borga út 10 þús. kr. eindagaskuld úr búinu, ef maður hennar hefði átt barn, sem væri ekki arftækt en meðlagsskylt. Þessar 10 þús. kr. gengju þá til Tryggingastofnunar ríkisins á kostnað ekkjunnar. Þetta vilja meðnm. mínir ekki taka með í reikninginn. Fulltrúar sósíalista og Alþfl. í n. virðast meta hér meira rétt tryggingastofnunarinnar en ekkjunnar. Ef faðirinn hefði átt 50 þús. kr. og eitt barn, þá hefði ekkjan orðið að borga út 8 þús. kr., og ef hann hefði látið eftir sig 50 þús. kr. og 4 börn, hefði ekkjan samt orðið að snara út 5000 kr. Þetta er ranglátt, og mun ég bera fram skriflega brtt. um, að gr. falli niður. Einnig mun ég bera fram aðra brtt. við 17. gr. Þar segir, að barnaverndarnefnd sé jafnan heimilt að úrskurða, að óskilgetið barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt hjá fósturforeldri, ef þar fari vel um það, enda þótt sá, sem foreldraráð hefur yfir barninu, kalli eftir því. Ég hef aldrei viljað viðurkenna vald neinna nefnda yfir foreldrunum í þessum lagabálkum, og skal ég ekki eyða tíma í að deila nú um það atriði hér, en þetta er aðeins í framhaldi af minni stefnu. Það verður svo að fara um það sem fara vill, en ég legg afar mikla áherzlu á, að 11. gr. verði felld. Ég mun þó ekki greiða atkv. á móti frv., þó að hún verði ekki felld, því að það er síðar hægt að taka upp baráttuna fyrir smælingjunum í þessu sambandi, en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að hv. dm. samþykki þessa grein.