10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Sigfús Sigurhjartarson:

Það er vissulega mikið gleðiefni, að nú skuli vera ljóst, hvaða leiðir hæstv. ríkisstj. virðist ætla að fara til þess að afla fjár til þess að efna þá yfirlýsingu sína að skila fjárl. í það minnsta hallalausum. Og það er enn fremur mikið ánægjuefni, þar sem svo má líta á, að með því að leggja fram þetta fjáraflafrv., þá hefur stj. gert mönnum ljóst, hvaða leið hún vilji fara í höfuðdráttum til þess að uppfylla þann stjórnarsamning, sem gerður var þegar hún brauzt til valda.

En ég verð að segja, að mér er það dálítið undrunarefni, að það hefur komið fram hjá 2 hæstv. ráðh., að þeir vilja, að því er virðist, koma ábyrgðinni af sér á þessu frv., af sínum breiðu herðum og yfir á annarra manna herðar. Þeir hafa sem sé staðhæft það þessir tveir hæstv. ráðh., að hér væri í einu og öllu farið eftir till. hinnar svo kölluðu hagfræðingan. Og þá hafa þeir ekki gleymt að geta þess, að einn maður í þeirri n. hafi verið fulltrúi Sósfl., og hefur mér næstum skilizt á hæstv. forsrh. og reyndar líka hæstv. fjmrh., að þessar till. mundi mega rekja fyrst og fremst til þessa fulltrúa Sósfl. og þá flokksins sem slíks. Og verður þá niðurstaðan eiginlega sú, eftir röksemdum hæstv. ráðh., að þetta frv. væri fengið að láni hjá Sósfl. Mér þykir ástæða til þess að ræða þessar röksemdir nánar.

Fyrst og fremst vildi ég benda á, að hagfræðingaálitið svo kallaða er álit fjögurra manna úr 4 mismunandi stjórnmálafl., sem fengu það verkefni að athuga möguleika á því, hvort hægt væri að koma saman till., sem gæti orðið grundvöllur að 4 flokka ríkisstj. Og það er svo, eins og hæstv. ráðh. tók fram áðan, að sú stefna, sem kemur fram í frv., er ekki stefna eins flokks út af fyrir sig, heldur árangur af samstarfi 3 flokka, en þá er hagfræðingaálitið líka vissulega árangur fjögurra hagfræðinga úr 4 ólíkum stjórnmálaflokkum, en ekki skoðun eins flokks, eins og greinilega er tekið fram í formála ritsins. En látum þetta allt vera gott og blessað, segjum, að þessi staðreynd væri staðfest af ríkisstj. En þá kemur í ljós, að þessi staðhæfing ríkisstj. um það, að frv. sé byggt á till. hagfræðingan., er miklu meira en vafasöm. Hvað er það, sem hagfræðingarnir leggja til í sínu áliti varðandi hækkun innflutningstolla? Og á hvern leggja þeir til, að þessir tollar séu lagðir? Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér nokkur orð, sem skýra málið að nokkru.

Það, sem hagfræðingarnir komu sér saman um í sínu áliti og það, sem þessir fjórir hagfræðingar komu sér saman um að leggja til, var að draga úr gjaldeyrisnotkun, og þeir vilja leggja tolla á vissa vöruflokka til þess að draga úr gjaldeyriseyðslu. Og það kemur greinilega fram, að það er verið af þeim að undanskilja tolli þá vöruflokkana, sem nauðsynlegastir eru til lífsframfæris þjóðarinnar og til þess að standa undir eðlilegri þróun atvinnulífsins. Og hagfræðingarnir telja upp vörur, sem undanþegnar ættu að vera tollahækkuninni, svo sem „tæki og vörur, sem notaðar eru til uppbyggingar á framleiðsluatvinnuvegunum“ (bls. 67 í álitinu). Engar slíkar undanþágur eru í þessu frv. hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir. Tollhækkun ríkisstj. kemur á öll slík tæki og allar slíkar vörur, sem til landsins eru fluttar. Það er þess vegna svo fjarri því, að ríkisstj. sé þarna að byggja á till. hagfræðinganna fjögurra, sem skipaðir voru í þessa n., því að hún sleppir hinu fyrsta og stærsta atriði í þessari upptalningu á því, hvaða vörur skuli að till. hagfræðinganna undanþiggja tollhækkun. Í öðru lagi segja hagfræðingarnir, að undanþegnar tollhækkun ættu að vera „allar þýðingarmeiri rekstrarvörur til sjávarútvegs og landbúnaðar.“ Þessu er að nokkru leyti fylgt í frv., því að þar eru ýmsar vörur til sjávarútvegsins undanþegnar, svo sem salt og kol og olía. En engin undanþága er þar gerð vegna landbúnaðarins. Svo að, að þessu leyti er till. hagfræðinganefndarinnar heldur ekki fylgt. Í þriðja lagi vilja hagfræðingarnir undanþiggja byggingarefni tolli, sem er ákaflega stór og þýðingarmikill flokkur af innflutningsvörum þjóðarinnar og mjög þýðingarmikið fyrir þjóðina, að fáist keyptur við hagkvæmu verði. En þessar vörur eru ekki undanþegnar tolli eftir frv. ríkisstj. Loks er síðasti liðurinn, sem hagfræðingarnir vilja láta undanþiggja tolli, kornvara, kaffi, sykur og e.t.v. nokkrar aðrar nauðsynjavörur. Niðurstaðan er þá sú, að í því frv., sem tveir hæstv. ráðh. leyfa sér að halda fram, að byggt sé á till. hagfræðinganefndarinnar. er tekið tillit til eins liðar af fjórum, sem hagfræðingarnir telja, að beri að undanskilja frá hækkun á tolli, og að nokkru leyti tillit til annars liðar. Það er tekið tillit til 4. liðarins og að vísu nokkuð til 2. liðarins. Þegar svo athugað er nánar, hvað hagfræðingarnir leggja til, þá sýnist þeim rétt að tvöfalda tolla á vörum, sem yfirleitt rétt þykir að taka tolla af. Hér í frv. er lagt til, að vörumagnstollurinn verði innheimtur með 200% álagi og verðtollurinn verði hækkaður um 65%. — Loks segja hagfræðingarnir: „Ekki er hægt að gera sér neina hugmynd um tekjuaukningu ríkissjóðs vegna tollahækkunarinnar, m.a. vegna þess, að hún mundi hafa í för með sér ófyrirsjáanlegan samdrátt á innflutningsmagninu.“ Hins vegar getur hæstv. ríkisstj. mjög ljóslega gert sér grein fyrir því, hvað muni leiða af hennar hækkun, sem sé, að árshækkun á tollinum mundi nema um það bil 42 millj. kr.

Ég undirstrika það, að það, sem hagfræðingarnir leggja til annars vegar, og það, sem hæstv. ríkisstj. leggur til í þessu frv., er alveg sitt hvað. Hagfræðingarnir leggja til að hækka tolla á vissum vöruflokkum, sem ekki teljast til brýnustu nauðsynja atvinnulífsins né til hinna brýnustu lífsnauðsynja, til þess að draga úr innflutningnum, en ekki fyrst og fremst til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Og þeir vita, hvað skapast vegna minnkaðs innflutnings og hvað vinnst með hækkandi tollum. Og þjóðarbúið telja þeir betur statt vegna þessa hemils á gjaldeyrisnotkuninni. En það er ekki þetta, sem ríkisstj. fer fram á, heldur blátt áfram að leggja 42 millj. kr. tolla ofan á aðra tolla á innflutning, sem nemur á fjórða hundrað millj. kr. Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta. En mér finnst það ákaflega táknrænt, að ríkisstj. skuli velja sér þessa bardagaaðferð til þess að verja frv. sitt, að hún segir, að þetta séu tillögur hagfræðinganna gagnvart þessum tekjuöflunarmálum, sem snerta atvinnulífið, þar sem hafi verið einn af beztu mönnum Sósfl. og megi því lita á þetta frv. sem till. sósíalista. En álit hagfræðinganna er samkomulag fjögurra manna með ólíkar skoðanir, og till. ríkisstj. og till. hagfræðinganna eru sitt hvað, því að stj. hefur algerlega láðst að fella niður tollhækkunina á þeim vörum, sem hagfræðingarnir töldu í fyrsta flokki þeirra vara, sem þeir vildu ekki láta hana koma niður á, og stj. hefur að verulegu leyti láðst að taka tillit til tillagna þeirrar n. varðandi annan flokkinn og algerlega láðst að taka tillit til álits þeirra um þriðja flokkinn, sem þeir til taka. Tilgangur hagfræðinganna er og fyrst og fremst sá að setja hemil á gjaldeyrisnotkun þjóðarinnar.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að hæstv. fjmrh. Hann dregur ekki dul á það, að með þessari tekjuöflunarleið sé verið að velta byrðum á herðar alls almennings í landinu. En hann segir jafnframt blátt áfram þetta: Vilja ekki hv. þm. athuga, hvernig ástandið er í Englandi o.fl. o.fl. löndum? Jú. vissulega, hæstv. fjmrh. Það er erfitt ástand í Englandi. Það er enn erfiðara í Þýzkalandi. Það er yfirleitt erfitt í öllum þeim löndum, þar sem styrjöldin geisaði og þar sem eyðileggingarmáttur nútímatækninnar kom verulega til greina. En hvers vegna á að bera okkar kjör saman við þetta? Það var okkar mikla lán, að við komumst að mjög verulegu leyti hjá hörmungum styrjaldarinnar. Við færðum að vísu verulegar fórnir. Við misstum mörg mannslíf, og kannske hlutfallslega jafnmörg og sumar ófriðarþjóðirnar. En húseignir og önnur slík verðmæti voru ekki eyðilögð hjá okkur eins og hjá ófriðarþjóðunum. En annað var það, sem stríðið færði þjóðinni, sem hún hafði ekki átt við að búa lengi, yfirdrifna atvinnu, mikinn erlendan gjaldeyri og mikinn fjárhagslegan hagnað. Og það er vissa fyrir því, að fyrst á þessum tímum varð það, að íslenzk alþýða, bæði til sjávar og sveita, fékk lífskjör, sem sambærileg eru við það, sem var hjá nágrannaþjóðum okkar þeim, sem lengst voru komnar á efnahagsþróunarbrautinni. Og hvers vegna skyldi okkar fyrsta viðvik eiga að vera nú að rýra kjör þessarar alþýðu og réttlæta það með því, að það sé slæmt ástand úti í Englandi og Þýzkalandi, þar sem stórar borgir og borgarhlutar voru lagðir í rústir og margháttuð vandræði steðjuðu að vegna ófriðarins? Ætli okkur væri ekki sæmra og eðlilegra að vera sammála um að segja: Hér skal allt gert, sem auðið er, til þess að halda við þeim lífskjörum, sem verkamaðurinn, sjómaðurinn og bóndinn hafa getað fengið nú á stríðsárunum, og ef einhvers staðar þarf að kreppa að, þá skal í síðasta lagi að því snúið að rýra þessi lífskjör? En það er, því miður, ekki þessi stefna, sem kemur fram í tekjuöflunarfrv. ríkisstj., sem ég skal koma nokkru nánar að síðar.

Þá segir hæstv. fjmrh., að það megi náttúrlega klífa hátt á því, að verzlunargróði sé mikill. Og svo bætir hæstv. fjmrh. við, að það sé nú ekki um mikið að ræða í því sambandi, því að löglega gróðanum séu sæmilega skorður settar með skattal. Það er svo, hæstv. fjmrh. Löglega gróðanum kunna að vera sæmilega skorður settar með skattal. En það mátti á þessum orðum hæstv. ráðh. heyra, að honum væri ljóst, að ekki væri allt sagt með því að tala um löglega gróðann. Þessi hæstv. ráðh. veit vel, eins og ég og reyndar hvert mannsbarn í þessu landi, að það er ekki fyrst og fremst hinn löglegi gróði verzlunarstéttarinnar, — og þá fyrst og fremst heildsalanna, — sem er stórfelldur, heldur er það hinn ólöglegi gróði. Og ef hæstv. fjmrh. vantar dæmi, skal ég nefna honum eitt. Það spurðist, rétt áður en hann komst til valda í þennan stól, að eitt firma í þessum bæ, S. Árnason & Co, var að því staðið að hafa gefið fyrirmæli til viðskiptavina sinna erlendis um það að láta ekki afslátt af vöruverði, sem félagið fékk, koma fram á réttum reikningi, heldur leggja hann inn á reikning fyrirtækisins erlendis. Allir vita, að þetta er margfalt brot á íslenzkum l., að hér var um að ræða brot á verðlagsákvæðum og einnig brot á gjaldeyrisl. og að stela gjaldeyri. Ég skal bæta því við, að ég veit vel, að þetta firma er ekki eitt um þennan leik. Hitt er staðreynd, að meginþorri íslenzkra heildsala hefur leikið þennan leik og leikur hann vafalaust enn og hefur þannig komið fyrir erlendis ólöglegum gróða, svo að milljónum kr. nemur. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á þeirri staðreynd viðkomandi þessu firma, S. Árnason & Co, sem að þessu ólöglega atferli stóð, rétt áður en núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, að hæstv. fjmrh. er einn af aðilum í því firma. Ég vil ekki halda fram, að honum hafi verið persónulega kunnugt um þann pappír, sem þarna lá fyrir til sönnunar um sekt þessa firma. En hitt ætla ég þó. að nokkur skil hafi hann þó vitað á þeim rekstri, og það hafi því ekki verið alveg út í loftið sagt, þegar hann sagði það, sem ég vitnaði til, að gróði verzlunarstéttarinnar væri ekki aðeins löglegur, heldur einnig ólöglegur. — Ég get vissulega margt gott sagt um þennan hæstv. ráðh. En ég læt þó ekki hjá líða að benda á þessa staðreynd og benda á það. að það virðast firn og fádæmi, að maður sé hafinn upp í ráðherrastól tveim eða þrem dögum eftir að fyrirtæki, sem hann er eigandi i, er staðið að mjög svo freklegu broti á landslögum.

Í sambandi við þetta talaði svo hæstv. fjmrh. um það, að það sé einnig vert að gefa því nokkurn gaum, að ef snúizt væri að því ráði að taka verzlunina meira eða minna úr höndum þeirra aðila, sem nú hafa hana með höndum, og taka hana í hendur ríkisins, þá væri verið að svipta margar fjölskyldur atvinnu og koma þeim á vonarvöl, eins og hann orðaði það. Ég skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. hugsar. Ég held, að það geti engum dulizt, að þjóðhagslega er bezt, að eins fáir starfi að því að afla vara til landsins og dreifa þeim innanlands eins og mögulegt er til þess, að hlutverkið sé rækt. Og þó að við komum á landsverzlun og þótt meira væri keypt inn í heildsölu í einu, en nú er gert. þá er augljóst, að eftir sem áður þarf menn til þessara starfa. Hitt er ég sannfærður um, að það þarf færri menn og minni peninga og minna húsnæði til verzlunarinnar í heild með því að hafa landsverzlun en með því að láta heildsalana hafa með innflutninginn að gera eins og þeir nú gera og það með þeim hætti. sem ég hef nú að nokkru lýst. Og ég verð að segja, að mér finnst það nokkurt undrunarefni, að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta verið mér samdóma um það, að ef fleira fólk vinnur að verzluninni en þarf til þess að flytja inn vöruna og dreifa henni, þá er það fólk ómagar á þjóðarbúinu. Og ég tel, að rannsaka beri það til hlítar, hvort ekki megi draga þar saman og koma þar við verulegum sparnaði. En það var ekki þetta, sem hæstv. fjmrh. var inni á. Hann talaði um það fjálglega, að ekkert gaman væri til þess að vita, ef verzlunarstéttin ætti að verða launaþrælar hjá einhverju ríkisbákni. Það er nú svo. það er munur að taka laun hjá S. Árnason & Co og öðrum slíkum fyrirtækjum, sem leggja fyrir á ólöglegan hátt gjaldeyri erlendis, eða taka laun hjá ríkisfyrirtæki. Ætli þeir séu ekki dálitlu minni þrælar, sem vinna hjá S. Árnason & Co.? Að heyra svona fleipur úr ráðherrastóli, það er furðulegt. Hér er vissulega ekki um það að ræða, að ég eða nokkur annar vilji leggja það til, að verzlunarfólkið sé launaþrælar. Það fólk á vissulega rétt á góðum og sómasamlegum launum, eins og hvert annað fólk. sem rækir vel störf sín. En það á hins vegar ekki rétt á því, að í þessa stétt flykkist fleira fólk, en nauðsynlegt er til þjónustu fyrir þjóðfélagið.

Ég hafði þá ánægju að vera kvaddur á fund með kaupmönnum í vetur sem formaður í stjórn Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, þar sem kaupmenn fóru fram á það við mig, að ég færi fram á það við stjórn félagsins og beitti mér fyrir því, að við lokuðum búðum og hættum að höndla, ef þeir þyrftu að lækka álagningu á kaffi. Ég varð að segja þeim, að ég væri í stjórn félagsins sem þjónn félagsmanna og að það hlutverk, sem félagið hefði falið mér og stjórn félagsins fyrst og fremst, væri að halda vöruverði niðri og gera dreifingarkostnaðinn eins lítinn og auðið væri, og nú værum við þeirrar skoðunar, að við gætum lækkað álagningu á kaffi, og að við vildum því vinna með verðlagseftirlitinu að því að lækka kaffiverðið. Þetta sögðust kaupmenn skilja og létu sér lynda, og varð ekki meira af þeim viðræðum. En svo gerist ákaflega einkennilegur þáttur í málinu. Kaffið hafði sem sé fyrir þessa breyt. verið selt á kr. 2,10 pakkinn og eftir breyt. á að selja pakkann á kr. 2,20. Kaffið átti þannig að hækka, sem selt væri í pökkum, af því að hráefnið hafði hækkað. Þá sagði kaupmannastéttin: Við ætlum að berjast á móti þessu ákvæði Verðlagsráðs. Og þeir ætluðu að selja kaffipakkann á kr. 2,10, til þess að mótmæla því, að lækkuð yrði álagningin á kaffið. Þetta er táknrænt fyrir verzlunarstéttina, sem mér finnst hæstv. fjmrh. alveg sérstaklega vera fulltrúi fyrir. Þarna var hugsunin hjá kaupmönnunum þessi: Við ætlum að vera á móti því að lækka álagninguna, bara vegna þess, að gróðinn minnkar við það, en við erum ekki að hugsa um, hvort við getum það eða ekki. Og svo sanna þeir, að þeir hugsa svona, með því að selja vöruna á eftir við lægra verði, en þeim er heimilt. Og ég býst við, að ef neytendur hér í Rvík hefðu ekki haft þessi samtök, þá hefði kaupmannastéttin komið því fram, að álagning á kaffið hefði ekki lækkað, heldur hefði gilt sama álagning, sem áður var. — Það getur komið til greina síðar að lækka álagninguna á fleiri vörutegundir. Og ég verð að segja það, að það kaupfélag, sem ég hef með að gera. og önnur kaupfélög landsins munu hafa samtök með verðlagseftirlitinu í þessum efnum. því að það er sama hlutverk hjá báðum aðilum, að gera dreifingarkostnaðinn sem minnstan.

Og þá er ég kominn að háa C-inu hjá hæstv. fjmrh. Hann sagði sem sé, að flokkur minn hefði komið því til leiðar. að launastéttirnar hefðu krafizt launahækkunar í tíma og ótíma og oftast í ótíma. Og hann bætti því við, að sjaldan hefði verið gert meira óhappaverk hér á landi, en að fella gerðardómsl., með smáskæruhernaði. Og að sjálfsögðu mundi það þá vera óguðlegur og hættulegur flokkur, sem vann þetta hið mesta óhappaverk að fella gerðardómslögin! Hér þarf ekki frekar vitnanna við, því að hér sjá allir anda hinnar sáluðu þjóðstjórnar risinn upp af gröf sinni. Í sambandi við orð, sem féllu hér hjá öðrum hv. þm. um gerðardóminn í sambandi við annað mál, að hann hefði verið á þá leið, að deilumál launþeganna og vinnuveitendanna hefðu verið lögð undir ómildan dómstól, þá vildi ég. með leyfi hæstv. forseta, minna á, hvað gerðardómurinn raunverulega var, með því að lesa upp ákvæði úr þeim l., sem hæstv. fjmrh. harmar nú mest. Í 3. gr. þessara l., frá 8. jan. 1942, segir svo: „Allar breytingar á kaupi, kjörum, hlutaskiptum og þóknunum, sem greitt var eða gilti á árinu 1941, skal leggja undir úrskurð gerðardómsins. Í úrskurðum sínum skal gerðardómurinn fylgja þeirri meginreglu, að eigi má greiða hærra grunnkaup fyrir sams konar verk, en greitt var á árinu 1941, en þó má úrskurða breytingar til samræmingar og lagfæringar, ef sérstaklega stendur á.“ Þetta var gerðardómurinn, bann við kauphækkunum. Þeir, sem gerðardóminn skipuðu, höfðu ákveðin fyrirmælt. Þeir áttu að halda kaupinu óbreyttu að kalla frá 1941. Gerðardómurinn var þrælalög. Hann svipti verkalýðinn samningsrétti. Hann upphóf gerða samninga, sem verkalýðsfélög höfðu gert, og hann svipti þau verkfallsrétti. Árið 1941 mun grunnkaup Dagsbrúnarmanna hafa verið kr. 1,45, og það er þá þetta óhappaverkið mikla, sem unnið hefur verið að dómi hæstv. ráðh.. að Dagsbrúnarverkamenn munu hafa fengið hækkuð sín grunnlaun úr 1,45 upp í 2,65. Hið mikla óhappaverk er það, að síðan þá hafa verkamenn yfirleitt búið við betri lífskjör, en nokkurn tíma áður. Hins vegar er rétt að taka það fram, að í gerðardómsl. voru engin ákvæði um það, hvernig snúizt skyldi við heildsölunum, því að þótt S. Árnason & Co. hafi verið bannað með l. að brjóta verðlagsákvæðin, þá hefur það fyrirtæki samt gert það, og slíkt hefur heildsalastéttin yfirleitt gert, og nú kemur þessi hæstv. ráðh. fram sem málsvari þessarar stéttar. það vantaði ekki. að ríkisstj. gerði ráð fyrir því, er hún samdi um sína eigin tilveru, að snúizt skyldi að eignauppgerð. Það átti svo sem að koma við hjá þeim auðugu. En hvað liður eignauppgjörsfrv.? Ég veit, hvað er á ferðinni. Það er heildsalagróðinn, það er stj., þar sem hæstv. forsrh. er hluthafi í stóru heildsölufyrirtæki, og af því að hann er ekki hér viðstaddur, þá skal ég ekki rekja það að sinni, hvernig hann varð hluthafi. Það er saga, sem svo margir þekkja — og það er ríkisstj., þar sem fjmrh. er heildsali og gengur beint í ráðherrastólinn daginn eftir að fyrirtæki hans er staðið að ólöglegri álagningu. Hér er verið að verja hagsmuni hans. Það er ekki sýndur neinn litur á því að leita að auðnum þar, sem hann er, en það eru gerðar ráðstafanir til að velta á herðar almennings í landinu 42 millj. kr., ef miðað er við ár, og að þetta sé meiningin, kemur að mínum dómi eins glögglega fram og hægt er í því mikla harmakveini hæstv. fjmrh., sem hann laust upp út af því, að laun Dagsbrúnarmanna skyldu hafa hækkað úr 1,45 upp í 2,65 síðan 1944. Það kom fram í því, að hann kallar það mesta óhappaverk, að gerðardómsl. var hrint á sínum tíma. Hæstv. ráðh. endaði ræðu sína á því að segja, að fram til þessa hefði ástandið í landinu verið þannig, að allir hefðu í raun og veru grætt, og það mjög mikið. Launþegar hefðu búið við betri lífskjör en áður. bændur hefðu efnazt, margir væru bjargálna og sumir efnaðir menn frá því að eiga ekkert og minna en ekkert. Nú er það rétt að, að því þarf að hverfa að stöðva dýrtíðina og stöðva hana raunverulega. Og hvað þarf að gera til þess? Liggur nokkuð það fyrir, sem sannar okkur, að lífskjör almennings þurfi að versna? Það liggur fyrir, að tæknin fer mjög vaxandi hjá þjóðinni. Það liggur fyrir, að afköst hvers manns munu geta aukizt stórlega og munu aukast á næstu tímum. Er það meðal annars fyrir starf hæstv. fjmrh., og skal ekkert úr því dregið, sem hann hefur vel unnið með starfi sínu sem form. nýbyggingarráðs. það liggur einnig fyrir, að stórgróði hefur safnazt fyrir hjá vissum stéttum þjóðfélagsins, og það liggur fyrir, að vissar stéttir, og heildsalastéttin fyrst og fremst, hafa brotið landslög í stórum stíl til þess að koma erlendum gjaldeyri undan og þannig svikið þjóð sína. Er nú ekki líklegt, ef horfið yrði að því ráði að stöðva þennan straum fjármagnsins og fækka þar með afætustéttum þjóðfélagsins jafnhliða því, að tæknin eykst í landinu, að þá væri hægt að halda lífskjörunum hjá almenningi þeim sömu og verið hafa? Að sjálfsögðu þurftum við svo að hafa hyggna utanríkisþjónustu, sem vinnur dyggilega að því að afla markaða og leita samninga við erlend ríki, en á því ætla ég, að hafi orðið verulegur misbrestur hjá núv. ríkisstj.

Hæstv. menntmrh. hafði hér nokkur orð að segja. Hann kvað vera tvær leiðir fyrir hendi í hinu svo kallaða dýrtíðarmáli. og raunar þrjár. Og leiðirnar voru að hans dómi: Þessi, sem ríkisstjórnin hefur farið, nefnilega að borga dýrtíðina niður. Önnur leiðin var að láta allt reka á reiðanum og láta vísitöluna hækka, og svo loks sú leið að stöðva dýrtíðina raunverulega, og hæstv. ráðh. bar sig illa og sagði, að það væru þrír flokkar í ríkisstj. og þess vegna hefði orðið að fara millileiðina. En hvað er þessi millileið? Hér er verið að stöðva vöxt vísitölunnar með því að borga meira fé úr ríkissjóði. og ég veit ekki, hvaða lýsing er rétt á þessu tiltæki, ef ekki sú lýsing, sem hv. 2. þm. Reykv. gaf, að þetta væri hringavitleysa. Að leggja nýja og nýja skatta á þjóðina til þess að borga niður vísitöluna og láta svo hverja álagningu verða til þess að hækka vísitöluna raunverulega, — ef þetta er ekki hringavitleysa, þá veit ég ekki hvað hringavitleysa er. Hæstv. menntmrh. taldi ýmsar ráðstafanir ríkisstj., sem miðuðu að því að koma þessu í ögn betra horf, svo sem fjárhagsráð o.fl. o.fl. En hæstv. menntmrh. taldi, að það hefði verið æskilegt í þessu sambandi að skattleggja eyðsluna, og ég er alveg sammála honum um það, að það er æskilegt og rétt leið að skattleggja eyðsluna, og hann taldi stj. hér vera að fara inn á þessa leið. Jú, einhverjar af þeim vörum, sem tollar eru hækkaðir á, munu teljast til eyðslu, en byggingaefni og margar fleiri vörur, t.d. vörur til landbúnaðarins, það getur ekki talizt undir eyðslu.

En ég vil benda á annað frv. frá ríkisstj. sem hér er einnig fyrir Alþ., en það er frv. um benzín-, bíla- og gúmmískatt. Þar vænti ég, að hæstv. menntmrh. þykist vera að skattleggja eyðsluna, og það er gert þannig, að sami skatturinn skal yfir alla bíla ganga, vörubíla, fólksbíla, rútubíla, og yfirleitt er þar ekkert tillit tekið til þess, til hvers bílarnir eru notaðir. Hér er horfið frá því ráði að skattleggja í stórum stíl þá raunverulegu eyðslu, sem þarna er á ferðinni. En ég get sagt hæstv. ráðh. það, að í grannlandi okkar, Noregi, þar hefur verið horfið að því ráði að skattleggja eyðsluna í sambandi við bíla. Þar er settur stór skattur á sérhvern lúxusbíl, að ég ætla ekki minni en 2.000 kr. á ári á nýja bíla. Síðan lækkar skatturinn eftir því, sem bíllinn eldist. Hvernig væri nú fyrir hæstv. menntmrh. að athuga að breyta bílaskattinum í þetta horf og fara raunverulega að skattleggja eyðsluna?

Svo taldi hann upp nokkur atriði eyðslu, sem mætti skattleggja. Mér dettur í hug í sambandi við húsnæðismálin. hvort ekki væri hægt að skattleggja eyðsluna. Ég ætla að segja hv. þm. frá, litlu dæmi, sem mér er ákaflega ríkt í huga og mér finnst glæsilegur vottur um það, að rétt væri að skattleggja eyðsluna. — Það var fyrir nokkru síðan, að ég kom hér inn í kjallara í bænum. Þar var fyrst gengið inn í húsið eins og gengur og gerist, og var þar lágt undir loft, og er ekkert sérstakt við því að segja. Þegar inn var komið, var þarna þiljað innan með panel. Á einum stað gat að lita hurð úr sams konar efni, sem féll inn í vegginn, svo að aðgæzlu þurfti til að sjá, að þarna væri hurð, en slíkur umbúnaður mun hafa verið hafður í fjárhúsum í sveitum í gamla daga. Ég hafði hugmynd um, að þarna væri mannabústaður, svo að ég áræddi að knýja á þessa panelhurð, sem var á stærð við skáphurð. Jú. það var anzað. Ég kom þarna inn. Þarna inni var eitt herbergi. Lofthæðin var slík, að ég gat gengið þar uppréttur, en ég er ekki hár. Gluggi var þarna grafinn í jörð, og betrekk, sem þar var á veggjum, hékk alveg niður vegna raka. Fyrir skömmu síðan bjuggu í þessu herbergi hjón með 3 börn, og þau elduðu í þvottahúsinu. Þessi hjón fóru burt og fluttu í bragga. Það er betri íbúð, en kjallarinn, en þó er hann lekur, ekkert vatn og ekkert klósett er í honum, og svo er hann kaldur, að það verður að kynda daga og nætur, til þess að börnunum sé viðvært. En ekki skuluð þið halda, að íbúðin sé auð, það kom inn í hana ungur, einhleypur maður.

En nú víkur sögunni á annan vettvang. Sama dag leit ég inn í aðra íbúð, það var í nýju húsi. Sú íbúð var 165 fermetrar, 5 herbergi og eldhús. Þar var allt með ágætum útbúið og ánægjulegt, eins og er viðast í nýju húsunum. Í þessari íbúð bjuggu 4 manneskjur. Ekki harma ég það, að þessar manneskjur búa við svo góð kjör. Það er æskilegt, að sem flestir gætu gert það, en ég vildi benda hæstv. menntmrh. á það, að þarna er ástæða til að skattleggja eyðsluna, því að á meðan fjöldi manna býr í íbúðum eins og þeim, sem ég lýsti hið fyrra sinn, þá er okkur ekki leyfilegt að leggja okkur til svona eyðslu. Það er óumflýjanlegt að þrengja að þeim, sem rýmra búa, m.a. knýja þá til þess með sköttum á eyðsluna, svo að hægt sé að bæta úr vandræðum þeirra, sem verst búa, með það fyrir augum að fá fjármagn til þess að byggja sómasamlegar íbúðir fyrir þá, sem búa illa. — Ég held, að hæstv. ríkisstj. væri nær að reyna að snúa sér að einhverjum svona úrræðum, en að velta 42 millj. kr. ef miðað er við ár, yfir á herðar almennings með auknum tollum.

Hæstv. menntmrh. sagði. að minn flokkur hefði tekið þátt í ríkisstj. um tveggja ára skeið og engar slíkar ráðstafanir hefðu verið gerðar, sem ég hef nú nefnt. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh., þessar ráðstafanir voru ekki gerðar. En vafalaust gæti runnið upp eitthvert skilningsljós fyrir hæstv. ráðh. um það, að þetta hefði ekki verið gert af líkum ástæðum og hann talaði um áðan: Hann sagði, að stefna stj. og þetta frv. væri samkomulag þriggja flokka. Stefna fyrrv. stj. var líka samkomulag þriggja flokka. En einn er munur á því, sem þá gerðist, og því, sem nú gerist. Það voru þeir tímar í landinu þessi 2 ár, eins og ég lýsti áðan, að allir högnuðust og gátu hagnazt, hagur þjóðarbúsins var slíkur. Það hefur aldrei nokkur maður úr mínum flokki farið dult með þá skoðun sína, að hvenær sem breyt. yrði á þessu, þá yrði hver heiðarleg ríkisstj. að ganga inn á þær brautir — og þær brautir fyrst og fremst — að taka gróðann þar, sem hann er mestur, til þess að spyrna viðvaxandi verðþenslu í landinu og koma því til leiðar að stöðva hana, eins og ber að gera. Og þessum hæstv. ráðh. er fullkunnugt um það. að það mun ekki standa á mínum flokki að gera samkomulag við hann eða annan aðila um það að snúast gegn verðþenslunni með þeim hætti að taka verzlunina úr höndum heildsalanna og með þeim hætti að skattleggja eyðsluna, eins og hann orðaði það. En hitt veit hann líka, að við höfum ekki verið til samstarfs við hann eða aðra um það að velta byrðunum yfir á herðar alls almennings í landinu, rýra lífskjör vinnandi manna, hvorki við sjó né í sveit. Og ég skal segja það við þennan hæstv. ráðh., að ég og minn flokkur er tilbúinn strax í dag til þess að gera við hann samkomulag um það að skattleggja eyðsluna og taka verzlunargróðann af heildsalastéttinni, og ég vona, að það standi þá ekki á honum. En kannske er honum kærara samstarfið við heildsalana, sem sitja við hans hlið, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða meira um þetta. Ég hef í ræðu minni sýnt fram á það, í fyrsta lagi, að það eru falsrök, þegar ríkisstj. segist flytja þetta frv. í samræmi við álit hagfræðinganna. Það þarf ekki að taka það fram, að þó að þeir leggi til, að lagðir séu háir tollar á vissar vörutegundir, þá vilja þeir undanskilja mjög veigamikla vöruflokka, svo sem byggingarefni og vörur, sem notaðar eru í húsbyggingar, vörur til framleiðslu atvinnuveganna, svo sem landbúnaðar o.s.frv. Enn fremur hef ég sýnt fram á, að hér er tekinn upp í einu og öllu þráðurinn frá þjóðstjórnartímanum, ef marka má ræðu hæstv. fjmrh., sem ég hygg, að megi í alla staði taka mark á, því að ég hygg, að hann hafi gert grein fyrir stefnu stj., og þá er þessi þráður fyrir hendi. Kom það greinilega fram í orðum hans, þegar hann nefndi það óhappaverk, að gerðardómsl. voru rofin. Ég hef sýnt fram á það, að sú fjármálastefna, sem kemur fram í frv. þessarar stj., er öll við það miðuð að vernda hagsmuni stórgróðamannanna, en velta byrðunum yfir á bök alls almennings til þess að halda áfram þeirri hringavitleysu að borga niður vísitöluna úr ríkissjóði í stað þess að grípa til annarra skynsamlegri ráðstafana.

Ég vil svo að lokum segja það út af ummælum hæstv. menntmrh., að hvenær sem raunverulega verður vikið af þessari braut og farið að skattleggja gróðann og eyðsluna, þá skal ekki standa á mínum flokki til að standa að slíkum málum.