23.05.1947
Neðri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (3400)

159. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ed. hefur gert eina breyt. á þessu frv., fellt niður 11. gr., eins og það var afgr. frá Nd. Ég er þeirrar skoðunar og hef rætt um það við menn í heilbr.- og félmn., að það sé misráðið að fella þessa gr. niður. Hún fjallaði um afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins til dánarbúa feðra óskilgetinna barna. Í núgildandi l. er svo ákveðið, að deyi faðir óskilgetins barns, skuli tryggingastofnunin engu að síður halda áfram lífeyrisgreiðslunum o. s. frv., en eiga endurkröfurétt í dánarbúið. Þessi réttur er felldur niður með niðurfellingu þessarar gr. Við teljum þetta óeðlilegt, en engu að síður höfum við, sem erum í n., ekki talið rétt að gera tilraun til að breyta þessu aftur, því að við teljum, að með því væri málinu ef til vill stefnt í hættu, því að það mundi ekki vera tími til að afgreiða það, og því leggjum við í n. til, að frv. verði afgr. eins og það kom frá Ed.