13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

8. mál, fiskimálasjóður

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Það er ástæða til þess þegar í upphafi að afsaka það, að n. hefur haft þetta mál miklu lengur til meðferðar en venja er um mál. En það stafar einkanlega af því, að n. þótti ástæða til að gera talsverðar breytingar á frv. N. hefur enn fremur reynt að fá till. frá þeim aðilum, sem mest hafa um þessi mál hugsað, og eins og tekið er fram hér í grg., hefur það verið sent ýmsum aðilum til athugunar, og hefur n. nokkuð stuðzt við þessi álit.

Niðurstaða n. var nú sú, að skipta upphaflega frv. og láta löggjöfina aðeins ná til fyrri hluta þess, þ. e. til fyrri hlutans eða fiskimálasjóðs og þeirrar starfsemi, sem sá sjóður hefur haft og mun hafa í framtíðinni. Af þessari ástæðu hefur verið sniðinn aftan af frv. 2. kaflinn og nokkuð af þeim þriðja, en það er sá kaflinn, sem fjallar um leyfi til útgerðar, verkunar, sölu og útflutnings á sjávarafurðum. En eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur nú fyrir 6–7 árum ríkið eða löggjafarvaldið tekið þetta úr höndum n. og lagt það í hendur ríkisstj., þannig að enginn maður hér á landi má bjóða né selja né heldur flytja út úr landinu neinar slíkar afurðir nema ríkisstj. ein og þeir, sem ríkisstj. hefur gefið heimild til slíks. Ákvæðin, sem gilda um fiskimálan., eru þess vegna, að því er þetta snertir, og hafa verið síðan 1940 eiginlega dauður bókstafur. Nú má vel vera að þetta breytist og ríkisstj. afsali sér eða löggjafarvaldið taki af ríkisstj. þetta vald, sem hún hefur gagnvart þessum útflutningi. En þá er sjálfsagt að setja nýjar reglur ef þess þykir þörf. Þessar breytingar eru nú að lokum ákveðnar á frv. frá hendi n. Að vísu voru tveir hv. nm. ekki viðstaddir, þeir hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. S-M., þegar gengið var frá því, en þeir hafa unnið mikið með n. að þessu máli, og þeir geta þá gert sínar aths. við þær, ef þær eru einhverjar. Hins vegar átti n. samstarf við flm., hæstv. menntmrh., og sagði hann sig vera eftir atvikum samþykkan þeim breyt., sem meiri hl. n. leggur hér til, að gerðar verði á frv. Ég vænti þess, að hv. meðnm. mínir, hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. S-M., muni ekki taka það neitt illa upp, þó að það standi á nál. að það sé frá sjútvn. Nd., vegna þess að þeir voru með í öllum undirbúningi n. um brtt. En samt sem áður var það kannske ekki rétt að hafa þetta ekki aðeins frá meiri hl. n., og ég bið afsökunar á því, ef þeir eru óánægðir með þetta.

Ég held, að þessar breyt. þurfi ekki mikilla skýringa víð. Í frv. er svo til ætlazt, að ríkissjóður leggi fiskimálasjóði til eina og hálfa millj. kr. á ári í 10 ár. N. hefur nú fært þetta niður í hálfa millj. kr. á ári í 10 ár, og skal ég taka það fram, að mér persónulega, og ef til vill fleirum í n., þótti það kannske fullmikið, þegar það aftur er athugað, að mikil útgjöld hlaðast alltaf á ríkissjóð, og í öðru lagi af því að n. hefur áætlað tekjuvonir sjóðsins verulegar að öðru leyti, m. a. ná nú útgjöldin, sem renna til sjóðsins, til síldarafurðanna, en það hafa þau ekki gert áður, og þessi breyt. er gerð nú, af því að talið er, að ekki sé óarðvænlegra að afla síldar en annarra sjávarafurða. Það er líka meiningin, að fiskimálasjóður standi undir þörf síldveiðanna, ekki síður en annarra greina sjávarútvegsins, bæði hvað snertir síldarleit og markaðsleit. Það er auðvitað ekki síður sjálfsagt að standa undir þörf þeirra, sem gera út skip á síldveiðar, en hinna. En ástæðan til þess, að fram hjá síldveiðum var gengið fram að þessu, þegar sjóðnum voru ákveðnar tekjur, var það, að þá var svo lélegur markaður fyrir síldarafurðir og lítil sala síldar, og þótti því ekki ástæða til þess að taka tillit til síldarinnar. Þetta hefur nú snúizt við, og ekki er meiri eftirsókn á erlendum markaði eftir öðrum vörum okkar en síldarafurðum.

N. hefur raðað hér niður og tilgreint verkefni sjóðsins, og ég vænti þess, að hv. þdm. hafi kynnt sér það. Því er raðað niður þannig, til hafrannsókna, rannsókna á fiskigöngum og fiskistofnum, tilrauna til að veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum, tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða, markaðsleita fyrir sjávarafurðir og til annarra rannsókna og nýjunga í þarfir sjávarútvegsins. Markaðsleitin mun ef til vill verða þarna fjárfrekasta verkefnið.

Það skal tekið fram, að 4. brtt. er ekki nýmæli, þó að hún kunni að koma hv. þdm. nýstárlega fyrir sjónir. Þar er gert ráð fyrir, að úr fiskimálasjóði megi veita lán. Lán þessi eru viðbótarlán, eins og fram kemur í gr., og fiskimálasjóður hefur einmitt veitt þessi lán hingað til. Hann hefur veitt þessi viðbótarlán gegn síðari veðrétti. Okkur nm. sýndist rétt að láta þetta haldast áfram, og það má kannske segja, að það sé ekki óeðlilegt um sjóð, sem er ætlaður til styrktarstarfsemi eins og þessi sjóður er í raun og veru. Þessi sjóður er eingöngu ætlaður til að styrkja rannsóknir og markaðsöflun, þó að hann veiti lán, sem með nokkrum sanni má segja, að séu styrktarlán, sem aðallega eru þó oftast gegn heldur lélegum tryggingum. En þetta hefur verið gert, og mér vitanlega hefur sjóðurinn ekki tapað neinu á þessum viðbótarlánum, og hefur hann þó veitt þau gegn 2. veðrétti allt upp í 80% af kostnaðarverði þess, sem hann hefur lánað til. Hér er nú talað um að fara upp í 85%, sem er nokkru hærra, og liggur það vitanlega undir mati hv. þm., hvort þeir fallast á það. En sá ljóður er að sjálfsögðu á þessu, að það, sem lánað er til, er nú sem stendur í ákaflega háu verði, og mundi kannske með nokkrum sanni mega segja, að hér sé lánað upp í allt að 100%, ef skynsamleg afskrift kæmi til greina. En eins og ég tók fram áðan, þá hefur sjóðurinn oft lánað, en þau lán hafa verið endurgreidd og hafa oft orðið til þess að hjálpa mönnum mikið og heilum byggðarlögum og hafa því í raun og veru verið til hagsbóta fyrir þjóðfélagið í heild. Og ég vil taka það fram hér, að þessi starfsemi sjóðsins hefur á engan hátt komið að sök hingað til, því að það hefur aldrei orðið tap á þessum lánum.

Samkvæmt frv. þessu sjá menn, að það er ætlazt til þess, að fiskimálan. verði nú stjórn fiskimálasjóðs og í þeirri stjórn verði fjölgað úr 3 mönnum í 5 menn og enn fremur að breytt verði þannig til, að Alþ. kjósi nm., en áður hefur ríkisstj. skipað þá. Ég skal taka það fram, að mér hefur verið bent á, að í frv. þessu er ekki talað um varamenn í stjórn sjóðsins, og ég held, að það sé rétt og sjálfsagt sé að gera það. En það verður hægt að koma þeirri breyt. inn í gr. fyrir 3. umr.

Ég vildi svo að lokum, um leið og ég óska, að málinu verði vísað til 3. umr., bera fram þá ósk við hæstv. forseta, að hann taki málið eins fljótt og hægt er á dagskrá aftur, því að það er ætlazt til þess, að málið fái fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Sú ákvörðun er tekin af n. í samráði við hæstv. ríkisstj.