13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

8. mál, fiskimálasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fara fram á það, ef hæstv. forseti sæi sér það fært, að fresta umr. þessa máls nú um einn dag eða svo. Eins og fram kemur í nál., þá var ég ekki viðstaddur við afgreiðslu málsins í n., þegar endanlega var gengið frá því, og mér hefur ekki unnizt tími til þess að fara svo í gegnum brtt. sem skyldi, en þó þykist ég sjá það strax, að þær séu þannig, að óhjákvæmilegt sé að breyta þeim nokkuð, því að þær breyt. gera ráð fyrir að fella niður svo og svo mikið af gildandi lagaákvæðum, sem ég álít, að ekki hafi vakað fyrir meiri hl. n. að fella niður, án þess að nokkuð komi í staðinn.

Ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti fresti umr. þessa frv. í það minnsta til morguns til þess m. a., að mér gefist kostur á að athuga málið betur. Í trausti þess ætla ég ekki að ræða nál. frekar að sinni.