22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

8. mál, fiskimálasjóður

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja afgreiðslu þessa frv. með löngu máli, en aðeins gera grein fyrir, hvers vegna ég hef þá afstöðu til málsins, sem nál. á þskj. 976 ber með sér, að óska eftir, að afgreiðslu málsins verði frestað og það látið fá frekari undirbúning. Er það fyrst og fremst af því, að mér er kunnugt, að núverandi sjútvmrh. hefur fyrir nokkru skipað n. manna til þess að athuga alveg sérstaklega og gera till. um, á hvern hátt yrði haganlegast fyrir komið stjórn þeirra mála, sem frv. þetta fjallar um. Og þar sem þessi n. hefur enn ekki lokið störfum, tel ég æskilegt að bíða með afgreiðslu málsins, þar til till. n. lægju fyrir. Nú var upplýst í sjútvn., að vera mundi nokkur ágreiningur meðal nm. um það, á hvern hátt ætti að skipa þessum málum. Einmitt vegna þessa ágreinings meðal þeirra, sem eru kunnugir málinu, tel ég enn frekari ástæðu til að hraða málinu ekki svo mjög sem hér á að gera. Ég sé ekki heldur neina hættu fyrir þann atvinnuveg, sem þetta varðar sérstaklega, þótt skipulagsbreyt. yrði frestað til næsta þings, en stjórninni falið að halda í sama horfi og verið hefur. En ekki hefur orðið neitt samkomulag um þetta, heldur er því haldið fast fram af stuðningsflokkum stjórnarinnar, að málið fengi þegar afgreiðslu á þann hátt, sem hér er lagt til.

Ég vil einnig taka fram, að ég er sömu skoðunar og hv. þm. N-Þ., að sú breyt., sem lagt er til að gera á 2. gr. frv., sé til hins lakara. Ég hefði talið miklu ákjósanlegra, að þeirri starfsemi, sem hér um ræðir, að fiskimálasjóður standi straum af, væri algerlega tryggð lágmarksupphæð sú, sem í frv. stendur. Ég tel lakara að eiga undir geðþótta fjárveitingavaldsins hverju sinni, að hve miklu leyti heimildin fyrir einni milljón, sem nefnd er; sé notuð. Ef þetta ákvæði er sett í frv., er kannske engin skylda að leggja neitt fé, a. m. k. getur það verið svo lítið sem verkast vill. Ég mun því greiða atkv. móti þessari brtt., þó að ég hafi ekki séð ástæðu til að vera að flytja frávísunartill. um málið í heild sinni, eins og því er komið.