22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (3465)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Ég varð fyrir vonbrigðum, þegar ég sá þetta nál., því að fjhn. leggur til, að till. sú, sem samþ. var í Nd., yrði felld niður. Eins og kunnugt er, er skipaútgerð samvinnufélaganna nýstofnuð og á því við ýmsa byrjunarörðugleika að stríða. Hún hefur keypt dýrt skip, og nú á tímum er allur kostnaður við skipakaupin miklu hærri en áður. Þess vegna hlýtur þetta félag að eiga við mikla byrjunarörðugleika að etja og því nauðsynlegt að fá ívilnanir frá skatt- og útsvarsgreiðslu. Hér er því um sanngirniskröfu að ræða, ekki síður en með Eimskipafélag Íslands, og þær ástæður, sem færðar eru fram fyrir Eimskipafélag Íslands, að rétt sé að láta það njóta ívilnana, eru ekki síður fyrir hendi um þetta félag. Eimskipafélag Íslands var stofnað með óvenjulegri þátttöku og áhuga almennings, og landsmenn lögðu fram til þess ríflegt fé miðað við þá tíma. En þetta sama gildir um þetta nýja félag samvinnufélaganna. Í samvinnufélögunum er mikill hluti þjóðarinnar, og þeir, sem skipta við kaupfélögin, skipta tugum þúsunda, þeir eru í öllum héruðum, kauptúnum og kaupstöðum landsins, og allt þetta fólk hefur tekið þátt í þeirri áhættu, sem þessum skipakaupum var samfara. Þar sem um svona mikið fjölmenni er að ræða, má segja um þetta félag eins og Eimskipafélag Íslands, að það sé félag landsmanna. Það er ekki félag neinna stétta eða manna, heldur eign manna úr flestum stéttum víðs vegar á landinu. Þetta liti allt öðruvísi út, ef félagið væri stofnað í gróðaskyni, en því fer svo fjarri, þetta félag er eingöngu stofnað til þess að greiða fyrir flutningum til hinna dreifðu byggða á landinu. En á því er mikill misbrestur, að Eimskipafélag Íslands sjái fyrir því sem skyldi eða sjái á nokkurn hátt svo fyrir flutningaþörf landsmanna, sem nauðsyn er til. Er það varla ofmæli, að mjög strjál sigling sé á margar hafnir hinar smærri, og má kalla gott, ef komið er á hinar beztu hafnir einu sinni í mánuði. Þegar komið var til Reykjavíkur á stríðsárunum, mátti sjá skip Eimskipafélags Íslands, bæði leiguskipin og Fossana, liggja hér í höfninni, jafnvel vikum saman, vegna þess, hve herinn tók mikið pláss í höfninni. Þá hefði óneitanlega verið hagur að því að láta a. m. k. Fossana sigla til annarra hafna úti á landi, þar sem þeir hefðu fengið fljóta afgreiðslu. Því þótti öðrum landshlutum það ekki gera nægilega mikið til þess að greiða fyrir flutningum út á landið, og ekki hvað sízt af því, að Eimskipafélag Íslands var nú einmitt stofnað til þess að greiða fyrir flutningum út um landið. En ég neita því ekki, að Eimskipafélag Íslands hefur margar afsakanir, og ég er mjög vinveittur því og átti hlut í því, þó að lítill væri, og veit vel, hversu mikla þýðingu það hefur haft fyrir landið, að þetta félag var til í báðum styrjöldunum, og þó að ég sé óánægður með till. n., mun ég greiða frv. atkvæði, þó að till. n. verði samþ., svo að það er ekki af óvild í garð Eimskipafélags Íslands, að ég felli mig ekki við þessa till. n. í máli skipaútgerðar samvinnufélaganna.