22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (3467)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það mun flestum kunnugt, sem sæti eiga í þessari d., að ég hef alltaf verið á móti sérréttindum fyrir Eimskipafélagið og tel í hæsta máta frekju að fara fram á slíkt nú. Því er borið við, að félagið hafi svo mikinn kostnað í sambandi við strandferðir hér, en þó munu börn 6 til 7 ára, sem eiga heima meðfram ströndum eða á fjörðunum fyrir austan, alls ekki hafa séð skip frá Eimskipafélaginu. Og hafi það komið fyrir, að það hefur látið flytja eitthvað að austan, þá hefur flutningskostnaðurinn verið svo mikill, að t. d. kartöflur hafa étið upp verðið sitt í flutningsgjald. Sömuleiðis flutti það kjöt að austan, og flutningsgjaldið á því var 40 aurar á kg. Svona er nú starfsemi þessa góðgerðarfélags, sem sumir kalla. Nei, það eru til margs konar öfugmæli. Eimskipafélagið er fyrst og fremst gróðafélag, sem lætur sér litlu skipta hag þjóðarinnar. Það sást bezt, þegar það notaði aðstöðu sína eftir mætti til þess að auka dýrtíðina bæði með leyfilegum og óleyfilegum ráðum. Nei, það er svo fjarlægt, sem það getur verið, að þetta félag beri hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. Það geta aðrir en ég kropið að gullkálfinum, en það gera þeir, sem vilja Eimskipafélagið ríkara en það nú er.