22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (3468)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ræða síðasta, ræðumanns rak mig til þess að biðja um orðið. Það er margt, sem hægt er að bera á borð fyrir þm., en þegar maður heyrir aðrar eins fjarstæður eins og þær, sem síðasti ræðumaður bar fram, þá verður maður að kveðja sér hljóðs. Það er svo í þessu máli sem öðru, að bezt er að segja sannleikann. Síðasti ræðumaður sagði, að börn, sem ættu heima á fjörðunum fyrir austan og orðin væru 6 til ? ára, hefðu ekki séð skip Eimskipafélagsins. Það, sem hann á við, er auðvitað það, að á styrjaldarárunum sigldu skip Eimskipafélagsins til Ameríku og Bretlands og gátu þess vegna ekki haldið uppi siglingum með ströndum fram, en þau fluttu vörur bæði til okkar hér í Reykjavík og til þeirra, sem búa úti á landi, þó að það yrði að fá smærri skip til þess að koma þeim á hinar ýmsu hafnir. Þá varð félagið líka fyrir því óláni að missa tvö af sínum beztu skipum. Það er því ómaklegt að kasta því fram, þó að ekki hafi sézt skip í strandferðum á þessum tíma. En varðandi flutningsgjaldið, þá veit ég ekki betur en að það hafi verið alveg eins og hjá Skipaútgerð ríkisins, en öllum er kunnugt um, að hún hefur tapað, enda er það vitað mál, þó að flutningsgjöld séu há meðfram ströndunum, þá er tap á slíkum flutningum. Það hefur mikið verið hamrað á því, bæði fyrr og síðar af sumum mönnum, að Eimskipafélagið sé gróðafélag, en hvernig hefur þeim gróða verið varið. Honum hefur verið varið í ný skip, og það á að verja honum í ný skip, en það eru einmitt ný skip, sem við þurfum, bæði til fólks- og vöruflutninga. Ég tel mig því ekki krjúpa að neinum gullkálfi, þó að ég greiði atkv. með skattfrelsi fyrir Eimskipafélagið.