22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (3469)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð út af ræðu þm. N-M. Hann sagði, að S. Í. S. hefði stofnað útgerðarfélag og ætti í erfiðleikum vegna þess, en hann gætti þess að geta þess ekki, að útgerð af þessu tagi væri ekki arðvænleg nú. En varðandi skipakaup S. Í. S. og skattfrelsi þess þá tel ég að það hafi enga sérstaka þýðingu nú, því að eftir núgildandi l. er heimilt að draga 20% af skipsverðinu frá tekjunum, áður en þær koma til skatts, og má hagurinn verða góður á árinu, ef nettótekjur verða meiri en því nemur. Þetta er aftur á móti allt öðru máli að gegna með Eimskipafélagið. Það er að kaupa skip og það skip, sem enginn neitar, að séu nauðsynleg, en til þessara kaupa þarf það á öllum sínum tekjum að halda. Það ætti að vera og er raunar okkar metnaðarmál að geta í framtíðinni flutt allar okkar vörur og þær vörur, sem við þurfum að fá erlendis, með eigin skipum, en því marki náum við fyrst með því að tryggja hag Eimskipafélags Íslands. Annað í ræðu þm. N-M. er ekki svaravert. Hann er stundum að stilla sér upp og vera sérstaklega „original“, en vegur hans vex ekki með því að ráðast að þessari þörfu stofnun, sem hefur verið landi og lýð til farsældar.