22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal fyllilega játa, að Eimskipafélagið hefur innt af hendi gagnlegt hlutverk fyrir þessa þjóð, síðan það fyrst var stofnað, en hins vegar má benda á, að því hlutverki hefur nú á síðari árum verið þannig fyrir komið milli þess og ríkisins, að raunverulega hefur það aðeins annazt þann hluta samgangnanna, sem arðbærastar hafa verið, þ. e. a. s. milli útlanda og Íslands og á stóru hafnirnar. Hins vegar hefur Skipaútgerð ríkisins tekið að sér hitt, sem ekki er eins arðvænlegt, og annazt vörudreifinguna til hinna smærri hafna. Skipaútgerðin er svo rekin með tapi, en Eimskip græðir. Ríkið hefur þrátt fyrir þetta litið til með Eimskipafélaginu og veitt því skattfrelsi frá 1928.

En ríkið hefur gert meira. Á þeim árum, sem Eimskip græddi mest, útvegaði ríkið með sinni milligöngu stór leiguskip, sem önnuðust að miklu leyti flutningana milli Íslands og Ameríku, og hefði verið miklu eðlilegra, að ríkið hefði sjálft tekið að sér reksturinn á stóru leiguskipunum og notað gróðann af þeim til þess að standa undir tapinu á skipaútgerðinni, sem heldur uppi samgöngum við smáhafnirnar. Raunverulega hefur ríkið veitt Eimskip stórkostlega hjálp með þessu og hefur félagið grætt milljónir kr. á þessari aðstoð. Þetta nemur meiru en þeirri skattaupphæð, sem hér er um að ræða. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram, því að ekki þarf Eimskip að kvarta um, að það sé olnbogabarn íslenzka ríkisins. En ég hefði talið réttast, að ríkið hefði sjálft haft rekstur leiguskipanna, því að þau eru útveguð fyrir milligöngu íslenzka ríkisins, og ætti ríkið enn að hafa þennan rekstur.

Ég gæti þó fallizt á, að Eimskip væri veitt skattfrelsi, ef það tæki á sig að annast flutninga á smærri hafnirnar, en hitt skil ég ekki, þegar þörf Eimskip er rökstudd með því, að það sé búið að leggja í kostnað með rándýr skip, þó að það séu á sama tíma aðilar, sem hafa tekið upp þann hátt að láta skip sín sigla — ekki aðeins á stóru hafnirnar heldur einnig á smáu hafnirnar. Það mun vera ætlun Sambands íslenzkra samvinnufélaga með sitt stóra skip. Ég held, að við verðum að unna þessum tveim aðilum sams konar aðstoðar fyrir sams konar þjónustu. Kannske væri ríkisvaldið til með að hjálpa sambandinu um leiguskip og sýna þannig, að það bæri sama hug til þessara aðila. Ég tel víst, að þetta verði gert, og tel þess vegna rétt, að fríðindin gangi til beggja aðila eða til hvorugs.

Ég vil taka það fram, að þó ég greiði kannske í þetta sinn atkv. með því, að Eimskip verði leyst undan skattgreiðslu, þá geri ég það í því trausti, að sambandið fái þau sömu fríðindi, því þótt Eimskip kaupi skip, þá gerir Samband íslenzkra samvinnufélaga það líka.

Ég sé ekki, að í þessu verði samræmi, nema hið sama verði veitt fyrir sams konar þjónustu, og þannig haga ég atkvæði mínu.