22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

120. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. Hvað viðvíkur ræðu hv. 1. þm. N-M., fannst mér hann ganga fram hjá aðalatriðinu. Eimskip rekur enga aðra starfsemi. Sambandið rekur aðra starfsemi líka. Það selur t. d. bíla og er skattskylt á þeim rekstri. Félagið, sem á þetta nýja skip, er skattskylt fyrir aðra starfsemi. Þetta getur ekki átt sér stað hjá Eimskip. Við skulum hugsa okkur, að þetta félag, sem á þetta nýja skip, þéni ekki á því nema 100 þúsund, en þá getur það bara þénað á annarri starfsemi, svo að það verði ein milljón. Þetta er atriði, sem miklu varðar um það, hvort þetta félag á að fá sama skattfrelsi og Eimskip. Ég vil benda á, að þetta félag hefur skattfrelsi um 33% í nýbyggingarsjóði, og er það meira en önnur félög hafa.

Hvað viðkemur siglingum Eimskips, vil ég segja það, að mþn. í strandferðamálum ræddi þetta mál, og kom þá fram ósk forstjóra Skipaútgerðar ríkisins um það, að skipaútgerðin hefði þetta hlutverk í framtíðinni, og það er fyrir þetta, að Eimskip hefur nú ekki tekið að sér þetta hlutverk.

Það ætti því ekki að vera hægt að ófrægja Eimskip áfram, eins og gert hefur verið, því að það er fyrir aðgerðir stjórnarinnar eða skipaútgerðarinnar, að félagið hefur ekki gert þetta. Það má ekki blanda saman verkefni Eimskip og strandferðaskipanna, því að það þurfti að koma vörum milli landa, og án þess hefði hin íslenzka þjóð ekki lifað neinu menningarlífi. Þess vegna undrar mig sá hugsanagangur, sem kom fram í ræðu hv. þm. N-M., því að hér er um að ræða eitt af aðalatriðunum til þess að íslenzka þjóðin geti verið sjálfstæð. Það var öllum kunnugt, að það var hægara að flytja vörur milli hafna landsins en að ná þeim til landsins.

Hv. þm. N-M. hélt því fram, að Eimskip hefði átt sök á því, að kostnaður við að flytja vörur utan af landi til Reykjavíkur var 40 aurar á kg., og síðan nær 400 þús. kr. í Reykjavík. En samkv. upplýsingum frá búnaðarráði til landbrh. var allur kostnaður við flutning, geymslu og annað, alls kr. 348.868.16, og hygg ég, að þessar upplýsingar hafi við meiri rök að styðjast en þau orð, sem féllu um þetta áðan.