23.05.1947
Efri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

127. mál, afgreiðslustöðvar fyrir áætlunarbifreiðar

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið rætt á mörgum fundum n., og hefur orðið langur dráttur á afgreiðslu þess, sem ekki mun vera afsakanlegur, en þó samt að vissu leyti. Það hefur verið nokkur ágreiningur af og til innan n., og er það þá sérstaklega út frá því, að sérleyfishafarnir komu til okkar á fund og óskuðu mjög eindregið eftir því, að málið yrði afgr. á nokkurn annan veg en gert er ráð fyrir í frv., sem hér liggur fyrir. Þá hefur einnig hæstv. samgmrh. átt tal við n. um þetta. Þetta allt hefur leitt til þess dráttar, sem orðið hefur á þessu máli, og einnig til þeirra breyt., sem fram koma í nál. samgmn.

Ég vil strax taka það fram, að ég held, að innan n. hafi enginn ágreiningur orðið um það, að nauðsyn sé á því að koma öllum þessum afgreiðslum áætlunarbifreiða á einn stað, en aftur munu hv. þm. ekki vera á einu máli um það, hvernig eigi að ráða fram úr þessu og hvernig fyrirkomulag eigi að hafa, t. d. hvort ríkið eigi að taka þetta að sér, eins og gert er ráð fyrir í frv., eða hvort eigi að taka tillit til óska sérleyfishafanna sjálfra eða formanna þeirra félaga, sem hafa mætt á fundum n. og mæltust til þess, að þeim yrði gefinn kostur á því að reisa sjálfir afgreiðslubyggingu og reka það fyrirtæki, sem vitanlega yrði að heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Það er margt, sem mælir með þessum óskum þeirra, ef það brýtur ekki í bág við eðlilega afgreiðslu þessara mála. Og miðað við þær óskir, hefur n. gert brtt., þar sem umorðuð er 1. gr. frv., en það er ef til vill að ræða um meginatriði í meðferð þessa máls, að í stað þess, að ríkið fái heimild til að reka þessar stöðvar, þá skuli eftir till. n. sérleyfishöfum fyrst verða gefinn kostur á því að taka byggingu þeirra að sér á sinn kostnað og reka þær, en heyri samt undir samgmrn. Þetta er mergurinn málsins. En það er látið skína í það, að ef þetta er þeirra heita áhugamál og sérleyfishafarnir byggi þetta sjálfir, þá verði þeir styrktir úr ríkissjóði, og yrði það þá að vera ákveðið á fjárl. En þeim er gefinn eins árs frestur til þess að sýna, hvað þeir geta. En verði aftur ekki neitt úr þessum framkvæmdum hjá þeim, þá er gert ráð fyrir því, að ríkið taki við sama þræðinum, sem frv. er spunnið úr, og fái heimild til þess að byggja stöðvarnar og reka þær.

Þá vil ég geta þess, að í frv. er gert ráð fyrir að verja 4/5 af sérleyfisgjaldinu til niðurgreiðslu byggingarkostnaðar, en við höfum í samráði við samgmrh. fært þennan lið nokkuð niður og gerum ráð fyrir, að samin verði af ráðuneytinu reglugerð um gjaldskrá og afgreiðslu bíla, og hafi það alveg yfirumsjón með þessu, hvort sem það verður ríkið sjálft, sem tekur þetta að sér, eða sérleyfishafar.

Þó að allir nm. hafi skrifað undir nál. með fyrirvara, þá eru nú samt ekki allir jafnánægðir með þessa afgreiðslu, en þó vona ég, að sá skoðanamunur sé ekki svo mikill, að hann geti orðið til þess að hindra það, að þetta mál nái fram að ganga, því að það er mikið nauðsynjamál, sem þarf að fá afgreiðslu nú, svo að á einhvern hátt verði bætt úr þeirri neyð, sem ríkir í þessum efnum.

Ég get svo látið máli mínu lokið og óska, að málið nái fram að ganga með þeirri breyt., sem er á þskj. 972.