11.11.1946
Efri deild: 12. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (3524)

58. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af fjhn. eftir beiðni hæstv. fjmrh. Það skal tekið fram, að nm. hafa óbundnar hendur um afgreiðslu málsins. Einn nm., Ásmundur Sigurðsson, var ekki viðstaddur, er n. ákvað að flytja málið, en hefur tjáð sig samþykkan því, að málið væri flutt af n. Það virðist sem breyt. á skattslögunum með l. frá 20. maí 1942 hafi, um leið og nokkrar breyt. voru gerðar, gengið fram hjá einum lið í l. frá 1941, ákvæðum 2. málsgr., c-liðar, sem undanskildi hlutafélög, sem ættu varasjóði, ráðstöfunartakmörkunum til að kaupa opinber verðbréf. Þetta ákvæði var í l. frá 1941, en hefur fallið niður í l. frá 1942. Þetta gerir það að verkum, að hlutafélög, sem eiga varasjóði, eru ekki frjáls að kaupa opinber verðbréf án þess að falla undir refsiákvæði skattalaganna. Þetta dregur mjög úr vilja manna til að kaupa opinber verðbréf og er síður en svo heppilegt nú, þegar brýn nauðsyn ber til, að opinber verðbréf séu keypt. Þetta frv. er því borið fram til þess að bæta inn í skattal. því ákvæði, sem féll niður við gildistöku l. frá 1942, en var hins vegar í l. frá 1941. Ég mun svo ekki orðlengja þetta miklu meir.

Fjhn. sér ekki, að sú breyt., sem gerð var 1942, sé á nokkurn hátt rökstudd. Við nm. leituðum í frv. frá 1942, en fundum engin rök fyrir niðurfellingu fyrrnefnds ákvæðis. Þar sem málið er borið fram af fjhn., álít ég ekki þörf að vísa því aftur til n., enda skal ég sjá til, að málið verði rætt í n. fyrir næstu umr. Að svo mæltu óska ég, að málinu verði vísað til 2. umr.