14.11.1946
Efri deild: 14. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

58. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Mér skildist, að hv. 1. þm. N-M. hefði gert fyrirspurn um það, hvort n. hefði verið skipuð til að endurskoða útsvarsl. og skattal. Ég skal upplýsa, að af hálfu fjmrn. hefur engin slík nefndarskipun átt sér stað. Hins vegar hef ég heyrt, að félmrn., hafi falið einhverjum mönnum að samræma alþýðutryggingalöggjöfina við skattalöggjöfina eða gera einhverjar athuganir um samræmingu milli þessara tveggja l. En því miður hef ég ekki fengið neina tilkynningu og get ekki gefið frekari upplýsingar um það. Hitt er víst, að af hálfu fjmrn. hefur ekkert slíkt átt sér stað.

Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta frv., sem hér liggur fyrir, að umræðuefni að svo stöddu. Frsm. hefur gert grein fyrir því. Það mun vera fyrir vangá eina, að svo er tekið til, að l. samkv. er hlutafélögum ekki heimilt að verja varasjóðum sínum til þess að kaupa ríkistryggð skuldabréf. Þetta er á alla lund óeðlilegt. Það er ekki hægt að sjá, að skynsamlegar ástæður mæli með því, að varasjóðir séu geymdir öðrum sjóðum fremur, og ég álit, hvað sem þessu líður, að það sé sjálfsagt að gera þessa lagfæringu á skattalöggjöfinni nú. Má segja, að það hafi dregizt of lengi, en skiptir einkum máli nú vegna þess, hve aðkallandi er að afla fjár til stofnlánadeildarinnar, en erfitt mun reynast að fá hlutafélögin til að taka þátt í því án þessarar breyt. á skattalöggjöfinni.