19.05.1947
Neðri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Eins og ég tók fram við 1. umr., þá er það misskilningur, að hæstaréttardómarar séu þeir bezt launuðu dómarar í landinu, og ef ætti að undanþiggja menn eftir þeim embættistekjum, sem þeir fá, þá væri langtum nær að taka undan ýmsa utan Reykjavíkur. Það má endalaust deila um tekjur manna og aðstöðu, en það er staðreynd, sem ég skýri frá, að sumir embættisdómarar eru hærra launaðir en hæstaréttardómarar, og af þeim sökum er engin ástæða til að undanþiggja dómara hæstaréttar, en ekki hina. Auk þess verður að líta á eðli og vanda hvers starfs út af fyrir sig, og þá þori ég að fullyrða, eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr., að það er sízt minni ástæða til þess að styðja hæstaréttardómara í þessu efni en ýmsa aðra í þessari stétt, auk þess sem það er þannig varðandi suma hæstaréttardómara, þó að það sé ekki geðfellt að gera persónulegan efnahag manna að umræðuefni, þá stendur svo á, að rík ástæða er til að breyta l. í þessu efni. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til að láta þessa Reykjavíkurdómara sitja á hakanum í þessu efni gagnstætt því, sem gert hefur verið með prestastéttina, þó að vitað sé, að prestar í Reykjavík séu tekjuhæstu prestar á öllu landinu, gagnstætt því sem er um þessa embættisdómara hér. Allir embættisdómarar hér að undanteknum borgardómara eru í raun og veru tekjulægri en þeir, sem eru í beztu bæjarfógetaembættunum úti á landi og njóta þessara hlunninda. Ef það er ætlunin að láta eitt yfir menn ganga um byggingu embættisbústaða og ef ekki á frekar að mismuna dómurum en prestum, þá er það fullkomið ranglæti að láta hæstaréttardómara og dómara í Reykjavík sitja á hakanum.