10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja við hv. þm. Siglf. Hann hefur löngum verið nokkuð einsýnn í málflutningi, og hefði ég vænzt þess, að hann leitaðist við að byggja rökstuðning sinn á sterkari stoðum, en raun bar vitni um. Ég býst við, að í flestum menningarlöndum sé viðurkennt, að kaupsýslumannastéttin sé ein af hinum nauðsynlegri stéttum þjóðfélagsins. Þessi stétt hefur hér verið undir opinberri umsjá ríkisins um verðlagningu og verðlagseftirlit síðan 1932, og það má vera mikið vald og dugnaður. sem kemur fram hjá henni, ef ekki væri með því eftirliti unnt að sjá, hvernig hún stendur í sínu starfi. Og öll stríðsárin var sú kvöð sett á hana að liggja með birgðir af nauðsynlegum vörum til 6-8 mánaða. Ég veit, að það var gert með sameiginlegu átaki kaupmanna og samvinnufélaga, og ég held, að landið væri illa statt, ef það hefði ekki notið hinna mörgu verzlunarsambanda erlendis, sem mega sin mikils þar, sem verzlunarstéttin nýtur meiri skilnings, en hér. Við skulum því ganga hreint til verks, það er hreinna að koma beint að kjarna málsins. Þið sósíalistar viljið allt annað fyrirkomulag í verzlunarmálum, en frjálsa verzlunarstefnu, eins og t.d. í Vesturálfu. Það hefur bersýnilega komið fram í ræðum sósíalista hér. Þeir hafa sagt, að eina ráðið væri að taka á svartan markað þær vörur, sem ekki er hægt að flytja svo mikið inn af, að þær njóti sín sem frjálsar vörur. Við vitum, að í Rússlandi er þessu skipt í tvennt af ríkisvaldinu. Á svörtum markaði er hægt að fá allt, sem maður vill, ef nægir peningar eru til að kaupa fyrir. En að öðru leyti er þar skammtað. Það er miklu réttara að ganga þannig hreint til verks en að ráðast persónulega á eina stétt, og ég staðhæfi, að ef tekjur verzlunarmanna eða verzlunarstéttarinnar frá 1929 væru prósentvís bornar saman við tekjur annarra stétta. þá mundi koma í ljós, að þetta héldist nokkurn veginn í hendur. Verzlunarstéttin hefur jafnan skyldum að gegna er verðfall kemur. Eftir fyrri heimsstyrjöldina varð hún t.d. að bera þúsunda og jafnvel milljóna halla, og margir verzlunarmenn voru skuldugir í marga áratugi á eftir. Þetta þarf reyndar ekki að segja mönnum, þeir vita það, en það er hörmulegt að vita til þess, að fyrrv. atvmrh. skuli bera verzlunarstéttina þeim óhróðri, sem hann hefur gert, og væri slíkum manni trúandi til að taka aðra stétt þannig fyrir næsta dag. Eltingarleikur sósíalista er sá að taka eitthvað fyrir og endurtaka það nógu oft með fullyrðingum og án nokkurra raka. Ég leyfði mér hér að vitna í skýrslu nefndar þeirrar, sem hefur reiknað út dreifingarkostnað vara. og því hefur ekki verið kollvarpað. Nei, stóru orðin duga ekki. Það má alveg segja það, sem játað hefur verið, að verzlunarstéttin sé of fjölmenn, en það er hins vegar ekki hægt að taka alla óvita í útgerð, það er engin trygging fyrir því. að þeir sæju þeim atvinnurekstri farborða eins og vera bæri.

Hv. þm. Siglf. fór að blanda blaðakostinum inn í þessi mál. Við höfum heyrt, að flokkur hans hafi stofnað hlutafélag, sem e.t.v. styðst við útgerð, til að gefa út blað.

Ég vil halda því fram, að við leysum ekki þessi mál með svona fullyrðingum út í loftið. Það þarf að taka þeim fastara tak. Og þó að hv. þm. Siglf. segi, að verzlunin hafi féflett útgerðina, þá eru það helber ósannindi. Ég bendi t.d. á árið 1939, er styrjöldin brauzt út. Þá var ástandið einmitt orðið þannig, að svo langt var frá því, að verzlunin væri að taka rekstrarfé frá útgerðinni, að hún var beinlínis milliliður milli hennar og bankanna til að reyna að bjarga framleiðslunni af veikum mætti. Og þannig hindraði verzlunin tap einstakra fyrirtækja með því að vera bundin við hreina útgerðarvíxla. Það kemur því úr hörðustu átt, er hv. þm. Siglf. segir. Hann vill ekki sjá þær staðreyndir, að verzlun er stóráhættusamur atvinnuvegur að, að því rekur alltaf öðru hverju, sérstaklega hér, þar sem verzlun er ekki jafntrygg og í öðrum löndum. Upp úr fyrri heimsstyrjöldinni gáfu t.d. kaupmenn og kaupfélög of hátt verð fyrir vörur, og upp úr því sköpuðust erfiðleikar. Hvað bindur annað, og allar atvinnugreinar verða að haldast í hendur. En hv. þm. Siglf. er hér beinlínis að reka skemmdarstarfsemi í ræðum sínum. Alls staðar skín í gegn, hvað þar er af lítilli þekkingu mælt, og um velvild er nú ekki að ræða úr því horni. Hið eina markmið þessara manna er að koma verzluninni í það horf, sem fyrirheitna landið hefur boðið, að allt sé rekið af ríkinu og planökonomi. Og ekkert gerir til, þó að þar sé bæði svartur markaður og skömmtun. Hér fer ekki mikið fyrir umhyggjunni fyrir öðrum, og metorðagirnd og margendurtekin ósannindi þessara manna leiða fólkið í villutrúarkenningu.