19.05.1947
Neðri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (3550)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Jón Pálmason:

Út af því, sem hæstv. dómsmrh. tók fram varðandi tekjur manna utan Reykjavíkur og í Reykjavík, þá skal ég ekki fara beint inn á samanburð um það, af því að ég hef ekki þá reikninga við höndina, en ég geng að því sem sjálfsögðu varðandi prestana, að Reykjavíkurprestarnir séu þeir tekjuhæstu á landinu, og ég hygg, að það sé alls ekki sanngjarnt, þó að það hafi verið sett í l., að taka þá fram yfir og byggja yfir þá á undan þeim prestum, sem eru úti á landi, því að við þekkjum það, að mörg prestaköll úti á landi eru auð og gengur illa að fá presta þangað vegna þess, hve húsakynni eru þar léleg. Það hefði því verið fullkomin þörf að láta þá sitja fyrir og byggja yfir þá, áður en farið var að byggja yfir presta í Reykjavík.

Varðandi dómarana er sama máli að gegna. L. voru samþ. fyrst og fremst vegna sýslumanna, og það var talið spursmál, hvort bæjarfógetar, sem margir eru vel launaðir menn, ættu að vera með. En það er alveg víst, að sýslumenn í héruðum landsins eru verr launaðir en flestir embættismenn í Reykjavík, sem á að taka hér með, og ég fyrir mitt leyti efast um, að bæjarfógetar úti á landi séu hærra launaðir en hæstaréttardómarar, þegar allar þeirra aukatekjur eru taldar með. A. m. k. sér maður nokkuð háa reikninga fyrir matsgerðir, sem hæstaréttardómarar hafa verið með að vinna að. Þess vegna finnst mér ekki rétt rök mæla með því að gera þessa breyt. á l., meðan þau eru ekki ársgömul og lítt eða ekki komin til framkvæmda varðandi sýslumenn landsins.