19.05.1947
Neðri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (3551)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég er ekki að halda þessu máli til streitu. Ætlunin var aðeins að breyta l. setja nýjar reglur, af því að þær, sem nú gilda, þóttu ekki sanngjarnar, og það er ekkert sérstakt við það, þótt svo sé gert.

Ég vil aðeins ítreka það, og ég er alveg hissa á því, að hv. þm. A-Húnv., sem hefur verið yfirskoðunarmaður landsreikninga, skuli ekki vita, að hæstaréttardómarar hafa minni tekjur en sumir þeirra manna, sem eru bæjarfógetar úti á landi, en það er enginn vafi, að svo er, og það var í raun og veru upplýst við meðferð launal. á sínum tíma. Mín vitneskja um þetta stafar að mestu frá þeim tíma, svo að þar kemst enginn vafi að. Hitt er annað mál, að sumir dómarar hæstaréttar hafa stundum aukatekjur, eins og sumir bæjarfógetar hafa aukatekjur fyrir utan sitt embætti. Þær ganga misjafnt yfir, og sumir hafa ekki slíkar aukatekjur. Ef hv. þm. vill útiloka þá, sem hafa betri laun, frá þessum hlunnindum, þá lægi nær fyrir hann að flytja brtt. um að fella bæjarfógetana niður, svo að þessi lagasetning nái þá eingöngu til sýslumannanna.

Það, sem gerði að verkum, að ég ákvað að flytja þetta frv., var það, að ég hafði kynnt mér, að sumir hæstaréttardómararnir voru ákaflega illa stæðir í þessum efnum. Hitt er vitað, að það kostar gífurlega mikið fé, ef menn ráðast í að koma upp íbúð yfir sig á þessum tímum, eins og ég tel þessum mönnum nauðsynlegt. Ég tel, að það sé ákaflega óviðeigandi fyrir ríkisvaldið, að þannig sé búið að æðstu dómurunum, að þeir séu illa staddir, í fjárhagsvandræðum og skuldugir upp fyrir eyru. Þetta frv. er því flutt til að stuðla að því, að þeir geti verið óháðir fjárhagslega. Aðalatriðið er sú nauðsyn, sem er á, að þessir menn séu fjárhagslega óháðir, og ég fullyrði, að það er bein þjóðfélagsleg nauðsyn, að þannig sé að dómurunum búið.