19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Jón Pálmason :

Herra forseti. Svo sem hæstv. forseti hefur lýst, hef ég leyft mér að bera fram litla brtt. við þetta frv. Ég sá það hér í dag, að mikill meiri hl. þm. var með því að samþykkja þessa breyt. á l., sem upphaflega voru ætluð til að tryggja hag sýslumanna landsins, sem eru af þessari stétt manna lakast settir. Brtt. mín er um það, að taka hæstaréttardómara út, en láta sakadómara, lögreglustjóra og borgardómara vera undir ákvæðum l. og er það náttúrlega sanni nær. En ég tel, að ef á að ganga svo langt, að ríkið byggi á sinn kostnað yfir hæstaréttardómara landsins, sem eru einhverjir hæst launuðu embættismenn á landinu, hljóti það að boða, að ríkið eigi samkv. þeirra áliti, sem þetta samþykkja, að byggja yfir alla embættismenn á landinu. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa brtt. málið liggur ljóst fyrir, og ættu menn að geta gert sér grein fyrir því, án þess að frekar sé um það rætt.