21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (3564)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Frv. þetta flutti allshn. Nd. samkvæmt beiðni minni, en ég hafði látið semja það með tilliti til hæstaréttardómaranna eða sumra þeirra. Efni frv. er að láta embættisdómara í Reykjavík, bæði héraðsdómara og hæstaréttardómara njóta sömu hlunninda og héraðsdómara úti á landi. Í lögum um embættisbústaði er ekki varðandi aðra embættismenn gerður munur á embættismönnum hér í Reykjavík og annars staðar. Ég held, að það sé t. d. jafnt með skólastjóra og presta. Það sýnist ekki vera meiri ástæða, nema síður sé, að gera þennan mun frekar um dómara, úr því að það hefur á annað borð þótt ástæða til að setja fyrirmæli um embættismannabústaði. En úr því að ákvæði þessi hafa verið sett, fyndist mér eðlilegra að láta þau jafnt ganga yfir alla dómara og láta þá ekki síður hæstaréttardómara njóta þessara hlunninda. Það á við um þá hið sama og á við nm. alla héraðsdómara í Reykjavík, að þrátt fyrir hærri krónutölu að nafninu til, sem þeir fá í föst laun, heldur en héraðsdómarar úti á landi, þá hafa þeir raunverulega lægri laun en a. m. k. bæjarfógetar í þeim kaupstöðum, sem mestar tekjur gefa. Eins og lögin eru nú, er lægra settum embættismönnum með hærri tekjur veitt meiri hlunnindi en æðstu dómurum landsins, og er ljóst, að slíkt ranglæti fær ekki staðizt til langframa. Þar við bætist svo, að ef hæstaréttardómarar, sem í húsnæðisvandræðum kunna að vera nú — og sumir þeirra eru það —, ætla að ráðast í að koma upp íbúð yfir sig, eins og sakir standa, mundu þeir binda sér slíka fjárhagslega bagga, að þeir yrðu fjárhagslega ósjálfstæðir menn. Það er áreiðanlega ekki heppilegt fyrir réttarvelsæmið í landinu, ef æðstu dómararnir hljóta að verða skuldum vafðir, ef þeir reyna að fá sér viðunanlegt húsnæði. Og þó að ekki væri önnur ástæða en það að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þessara manna, teldi ég vera þörf á að setja þessi lagafyrirmæli. Þau gengu tiltölulega ágreiningslítið gegnum Nd. á skömmum tíma, og þætti mér vænt um, að þessi d. sýndi málinu sama velvilja.