23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal gera grein fyrir því, hvers vegna ég er andvígur þessu frv. og legg til, að það verði fellt. Ég tel, að hér sé um embættismenn að ræða, sem munu yfirleitt hafa það háar tekjur, að það væri ástæða til þess að byggja fremur yfir ýmsa aðra en þá, og í öðru lagi það, að þótt að vísu hafi verið gengið dálítið inn á þá braut að byggja yfir embættismenn, þá hefur fyrst og fremst verið gengið inn á þá braut vegna embættismanna úti á landi, þar sem búast má við, að þeir verði ekki nema um tíma í embætti þar. Og þess vegna er ástæða til þess, að bústaðir fyrir embættismenn séu byggðir þar.

Hins vegar álít ég, að allt öðru máli gegni um embættismenn hér í Reykjavík, þar sem ekki er um slíkt að ræða og húsin eru jafnmikils virði fyrir manninn, sem á þau, hvort sem hann skiptir um starf eða ekki. En það er ekki hægt að segja það sama um presta, lækna eða aðra embættismenn úti á landsbyggðinni.