10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins í nokkrum atriðum koma að ræðu hv. þm. Siglf. Hann kemur hér með endurteknar staðhæfingar um það, að verzlunarstéttin sérstaklega leitist við að koma peningum út úr landinu. En ég býst nú við, að þegar farið er að athuga þessar fullyrðingar þessa hv. þm., þá komi í ljós, að það eru vissir taktar, sem hann og flokksmenn hans temja sér í sambandi við þessar fullyrðingar. Fyrir nokkrum árum var það útgerðin, sem var hundelt á svipaðan hátt. Þá átti hún að áliti þessara manna að hafa fengið of mikinn hagnað af atvinnu. Og allt er þetta málróf í þessum efnum nokkuð yfirborðslegt.

Þá minntist þessi hv. þm. á, að við í verzlunarstéttinni værum lausir við þá áhættu að annast sölu á íslenzkum afurðum. Ég hef oft tekið fram, og ég hygg, að hv. 2. þm. Reykv. sé mér sammála um það, að það eigi ekki að meina innflytjendum að reyna að finna markað fyrir útflutningsvörur. Því að þess má vænta, að þessir aðilar gætu fengið miklu hærra verð fyrir útflutningsvörurnar gegnum sina innflutningsstarfsemi. Þessu mætti haga þannig, eins og ég sagði nýlega hér, að setja mætti lágmarksverð á útflutningsvörurnar, sem fyrir minnst mætti selja þær út úr landinu, og leyfa svo innflytjendum að selja útflutningsvörur skv. þeim verðákvörðunum, og láta menn spreyta sig á því að ná því verði fyrir vörurnar. Það er því út í hött, sem hv. þm. Siglf. sagði í þessu efni hér.

Mér finnst það annars skjóta nokkuð skökku við, sem hv. Sósflþm. segja hér um þessi mál, að það þurfi t.d. að afnema einhverja einokun, sem þeir tala um í sambandi við verzlunina hér á landi. Um einokun er venjulega talað, að ég held, í þeim skilningi, að verzlunin sé á einni hendi eða því sem næst. En þó er því haldið jafnframt fram af þessum sömu mönnum, sem tala hér um þessa einokun, að það séu allt of margir menn, sem hafi á hendi heildsöluverzlun. Aukning á tölu heildsalanna og einokun getur aldrei farið saman. Þarna kemur því fram ein af rökvillum þessa hv. þm.

Þessum hv. þm. má líka vera ljóst, að útgerðin situr sérstaklega fyrir um allan þann gjaldeyri, sem hún þarf til innkaupa til síns atvinnurekstrar. Þetta má honum sem fyrrv. atvmrh. vera fullkunnugt. að svona hefur þetta verið. En þessi hv. þm. vill í þessu sniðganga það, sem er satt og rétt, en halda fram afbökunum og afvegaleiddri málsmeðferð.

Þá vildi þessi hv. þm. snúa út úr orðum mínum í sambandi við það eftirlit. sem ég minntist á. Fyrst minntist ég á, að sú gamla gjaldeyris- og verðlagsn. frá 1939 var áður en viðskiptaráð tók til starfa og var á skömmtunartímabilinu frá 1932 til 1939. Og hafi þá komið hagnaður fram hjá kaupsýslustéttinni. þá var skattafyrirkomulagið þannig í þessu landi, að einmitt fyrir þá háu skatta, sem greiddir voru, heldur kannske hv. þm. Siglf., að ágóðinn hafi verið óeðlilega mikill þá af verzluninni. En ef hann kynnir sér það skattafyrirkomulag, sem nú er, þá mun hann komast að raun um, að meginið er tekið af tekjunum í skatta.

Þá vildi hv. þm. Siglf. halda fram, að Sjálfstfl. væri útgerð heildsalanna og að þeir ættu blöðin. Ég vil í eitt skipti fyrir öll taka fram, að þó að þetta sé vel mælt í garð stéttarinnar, þannig að hún sé álitin dugmikill kraftur í þjóðfélaginu, þá held ég nú, að Sjálfstfl. sé það fjölmennur í landinu, að heildsalastéttin sem slík ráði þar litlu. Og það er vitað, að a.m.k. Morgunblaðið hefur algerlega fylgt stefnu miðstjórnar Sjálfstfl, í einu og öllu. — Ég veit hins vegar ekki, hvernig samkomulagið er á milli útgefenda Þjóðviljans, og það er mál, sem mig langar ekkert til að vita um. En það virðist mér einkennilegt að blanda þessum atriðum inn í þessar umr. Ég held, sem betur fer, að það hafi komið fram, að yfirleitt allar stéttir hafi búið við góðæri undanfarið í þessu landi. Og við megum allir fagna því, að svo er, og það ætla ég að vona, að megi haldast. En þó að hv. þm. Siglf. haldi því fram, að verzlunarstéttin eigi höfuðsök á dýrtíðinni, þá læt ég mér það í léttu rúmi liggja, þótt hann kasti fram órökstuddum staðhæfingum í því sambandi.