05.02.1947
Neðri deild: 67. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (3586)

148. mál, vatnsveitur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Samgmrh. var ekki viðstaddur hér í d., þegar mál þetta var síðast á dagskrá, en umr. ekki lokið vegna þess, að ég hafði óskað að gera fyrirspurn til ráðh. áður. Nú er ráðh. viðstaddur, og vil ég því leyfa mér að bera fram þá fyrirspurn, hvort ráðh. telur, að 4. gr. frv. nái til þeirra vatnsveitna, sem nú eru ónógar og þurfa skjótra endurbóta við, eða hvort hún eigi aðeins við nýjar veitur. Þetta atriði getur skipt verulegu máli, því að það mun nú allvíða í þorpum og kauptúnum, að brýn nauðsyn er að endurbæta vatnsveitur og endurbyggja, og er kostnaður við slíkar endurbætur oft ekki fjarri því, sem um nýjar veitur væri að ræða.

Ég vil nú þegar láta í ljós þá skoðun mína, að ég tel nauðsynlegt, að slíkar vatnsveitur, sem hér um ræðir, falli undir þessa gr., því að víða mun þörfin fyrir endurbætur vera eins mikil og fyrir nýjar vatnsveitur á öðrum stöðum. Vegna þess taldi ég rétt að fá yfirlýsingu ráðh. um þetta.