10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Áki Jakobsson:

Hv. 3. þm. Reykv. segist vera á móti því að einoka útflutningsverzlunina. Hann hefur þó, ásamt fleiri stéttarbræðrum sínum. ákaflega mikið grætt á því. að það verzlunarfyrirkomulag er haft í útflutningsverzluninni. sem nú er. En þetta, hversu útflutningsverzlunin hefur dregizt á fáar hendur og hvað ríkið hefur blandað sér þar í, er ein af afleiðingum þess, að útgerðin hefur verið féflett, þannig að útgerðarmenn hafa bókstaflega ekki fjármuni til þess að liggja með afurðir sínar. Og það er það, sem hefur átt verulegan þátt í því, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar. Og einkaframtakið hefur svo alltaf verið að fara meir og meir úr sjávarútveginum og í verzlunina. Þannig að ef ekki væri haft þetta ágæta kerfi, sem haft hefur verið, þá væri heildsalastéttin komin í strand með allt saman.

Hv. 3. þm. Reykv. fannst mótsetning vera í því hjá mér, er ég sagði, að heildsalarnir hefðu einokunaraðstöðu og hins vegar, að þeim hefði fjölgað. Einokunaraðstaða þessara manna er í því fólgin, að ein stofnun er sett á stofn til þess að afhenda gjaldeyri til þeirra manna, sem löggiltir eru til að vera heildsalar. Og það eru nokkrir útvaldir menn, sem fá meginið af þessum gjaldeyri. En það er ekki aðeins það, sem gerzt hefur, að heildsölum hafi fjölgað, heldur hafa þeir dregið of mikið vinnuafl í sína þjónustu, frá nauðsynlegum framleiðslustörfum til fánýtra hluta, vegna þess hve óeðlilega gróðamöguleika þeir hafa haft vegna þessa viðskiptakerfis, sem stofnað hefur verið í landinu.

Þá sagði þessi hv. þm., að útgerðin hefði alltaf fengið nógan gjaldeyri fyrir nauðsynjum sínum. Þetta er hrein fjarstæða, ég vil nefna í því sambandi eitt dæmi. Landssamband íslenzkra útvegsmanna, sem langflestir útvegsmenn á landinu eru í hefur innkaupadeild til þess að kaupa inn nauðsynjar sjávarútvegsins og verzla með þær fyrir meðlimi sína á innkaupsverði, til þess að þeir losni við verðhækkun á þeim vegna heildsalagróðans. L.Í.Ú. var búið að fá ágætt tilboð um að geta fengið fiskilínur. En vegna skömmtunar í Englandi var ekki hægt að fá að kaupa þessar línur, af því að annað fyrirtæki í Englandi sagði við þá, sem umboðsmenn voru fyrir það hér: Þið fáið ekki öngultauma hjá mér, nema þið kaupið linur hjá mér líka — enda þótt þessar línur væru dýrari en þær, sem L.Í.Ú. átti kost á að hafa til sölu, samkv. því sem ég tók fram. Þetta er það, sem hv. 3. þm. Reykv. kallar frjálsa verzlun, en einokunaraðstaða er það samt sem áður, sem heildsalarnir hafa þannig. Og framkvæmd þessa kerfis, sem áratugum saman hefur verið hér, er skipulögð af hæstv. núv. menntmrh., Eysteini Jónssyni. og var fært í fast kerfi 1934. en var komið á að nokkru leyti fyrir þann tíma. En í gegnum þann langa feril í þessu kerfi hefur heildsalastéttin fengið þá aðstöðu að geta skákað útgerðinni, þegar samtök útgerðarmanna ætla að kaupa inn sjálf. Það er þannig verið að borga skatt til heildsalanna. Mun slík „frjáls verzlun“ vera til þjóðþrifa? Nei, svona „frjáls verzlun“ er eingöngu til þess að græða á henni. Og heildsalarnir eru með „frjálsri verzlun“, ef þeir geta grætt á henni. En svo eru þeir hins vegar með einokun, ef þeir geta grætt á henni.

Hv. 3. þm. Reykv. neitaði líka. að heildsalarnir ættu Morgunblaðið og Vísi, en sagði, að miðstjórn Sjálfstfl. réði þar. En hverjir eru í miðstjórn Sjálfstfl.? A.m.k. þegar stillt er upp í Rvík fyrir kosningar, er þeirri uppstillingu hagað mjög heildsölunum í vil. Og það var miðstjórnin, sem eitthvað fjallaði um það. — Nei, þegar heildsalarnir halda því fram. að þeir á þegnlegan hátt taki þátt í opinberum útgjöldum, þá er sannleikurinn hins vegar sá, að þeir hafa fengið þá sérstöðu að mega fleyta rjómann ofan af okkar atvinnulífi — og eru komnir langt með að kaffæra það. Öruggasta ráðið til þess að vinna bug á verðbólgunni er að stöðva heildsalagróðann. Og það er ekki hægt öðruvísi. En heildsalarnir vilja halda við verðbólgunni, af því að þeir sem stendur græða mest á henni.