07.02.1947
Efri deild: 66. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

148. mál, vatnsveitur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég þarf ekki að taka til máls út af því, sem hv. þm. Str. sagði, því að það má svo heita, að við séum í aðalatriðum sammála. Ég fyrir mitt leyti get fallizt á, að þetta verði látið eitthvað ná til þeirra vatnsveitna, sem búið er að ljúka við og er nýlokið, ef þessu yrði haldið innan þröngra marka og það verður ekki til þess að taka það fé, sem fyrir hendi er, til þeirra framkvæmda, sem búið er að gera fyrir nokkru síðan.

Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um brtt. hv. þm. Barð., sem hann boðaði hér áðan og voru fjórar að tölu. Fyrsta brtt., sem hann nefndi, var sú, að hann vildi leggja til, að auk þess sem styrktar væru aðalæðar til bæjar og sveitar og boranir í sambandi við þær, þá yrði einnig styrkhæf ein aðalæð gegnum þorp. Út af fyrir sig má vitanlega deila um það, hvar eigi að setja mörkin í þessu, en ef farið verður út í það að styrkja eitthvað af bæjarkerfinu, þá fer fyrst fyrir alvöru að verða erfitt að setja mörkin, því að stundum er það svo, eins og hv. þm. veit og lýsti, að það er ein ákveðin aðalæð, sem liggur gegnum þorpið og hefur þann eiginleika, sem aðalæð hefur. En eins oft, þegar ein aðalæð er komin til þorpsins eða bæjarins, kvíslast hún í margar æðar, sem eru svo jafnar, að það er mjög erfitt að setja þar mörkin. Mér virðast aðalrök hv. þm. Barð. fyrir þessu vera þau, að það gæti verið um tilfelli að ræða, þar sem stutt væri í vatnsbólið og aðalkostnaðurinn lægi þess vegna í þessari aðalæð. En um slík tilfelli vil ég þá segja það, að þeir staðir, sem þannig eru settir, eru svo vel settir samanborið við hina, að þeir ættu ekki að þurfa á miklum styrk að halda. Ég vil, í það minnsta á þessu stigi, ekki slá því föstu, hvort hægt væri endanlega að gera þetta upp vegna teknískra örðugleika, hvað er aðalæð og hvað er aukaæð, og af því tel ég, að dæmi það, sem hv. þm. tók, sanni ekki, að það beri skilyrðislaust út í þetta að fara.

Þá minntist hv. þm. Barð. á það, að hann mundi bera fram brtt. um að heimila einstaklingum að leggja á vatnsskatt, þar sem þeir stæðu undir eða hefðu með þennan rekstur að gera og sveitarfélög hefðu ekki haft með málið að gera, eins og sveitarfélögum mundi vera heimilt, ef þau hefðu þann rekstur með höndum. Ég fyrir mitt leyti vildi mega vænta þess, að þessi vatnsveitumál væru yfirleitt í höndum sveitarfélaga, og það er áreiðanlega sú eðlilegasta lausn málsins (GJ: Ég sagði, að ég vildi leggja til, að sveitarfélögin gætu keypt), en þar sem málið væri ekki komið á þann rekspöl, skildist mér hv. þm. vilja leyfa einstaklingum að leggja á vatnsskatt, ef þeir rækju vatnsveitu. Það má út af fyrir sig greiða þeim einstaklingum og náttúrlega sjálfsagt, að þeir þurfa að fá sinn kostnað endurgreiddan, en ég held, að það væri rétt að miða þessa lagasetningu við það, að sveitarfélögin væru þeir aðilar, sem rækju þessi fyrirtæki, en síður hitt, að það væru einstaklingar. Og væru l. miðuð við sveitarfélög, yrði það til þess að færa veiturnar úr höndum einstaklinga til sveitarfélaganna og þá hygg ég að sé rétt stefnt.

Þá sagði hv. þm. Barð., að hann mundi flytja brtt. um það, að þar sem einn eða fleiri sveitabæir legðu í vatnsveituframkvæmdir, yrðu þær vatnsveitur jafnt styrkhæfar og þær veitur, sem styrktar væru í þorpum og sveitarfélögum, og hv. þm. sagði, að það væri ekki síður nauðsynlegt og jafnmikið heilbrigðisatriði fyrir bæina eins og þorpin. Það kann nú að vera, að þetta sé svo. En ég vildi segja, að í þorpum væri margfalt meiri sýkingarhætta en á sveitabæjum, og þá sérstaklega í þeim þorpum og þéttbýli yfirleitt, þar sem frárennsli er kannske ekki í bezta lagi. Þar er miklu meiri hætta, sem stafar af ófullnægjandi drykkjarvatni, t. d. yfirborðsvatni, heldur en á sveitabæjum, þar sem jarðvegurinn er yfirleitt hreinni og ósýktari. En um það má líka deila, hvort ekki á líka að hjálpa á einhvern hátt sveitabæjum í þessum efnum, en ég er ekki viss um, að rétt sé að bæta því hér inn í frv. og hvort það á að vera vaxtalaust lánað er í sjálfu sér styrkur, og hvort heldur verður gert, verður hv. d. að meta. En ég held, eða styrkur. Vaxtalaust lán eins og þetta er orðað hér, yrði styrkurinn ekki meiri en svo, að vatnsveitur gætu orðið fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki og gætu staðið undir kostnaði. Tel ég það þó mjög vafasamt með núverandi verðlagi, að þær gætu það, nema afskrifað sé svo og svo mikið af stofnkostnaðinum.

Annars er ekki gott að taka afstöðu til brtt., nema maður viti, hvernig þær eru formaðar. Og ég áskil mér rétt til þess að taka ákvörðun um þær, þegar þær liggja fyrir.