26.03.1947
Efri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (3606)

148. mál, vatnsveitur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að ég vil aðeins minnast á eitt atriði, sem þm. Barð. kom inn á. Samkv. þessu frv. er aðstoð við vatnsveitur bundin við sveitarfélög, en ég held, að það geti komið þau tilfelli, að ástæða sé að veita styrk til vatnsveitu, þó að ekki standi að henni heilt sveitarfélag. Ég veit um eitt dæmi um þetta, það er Glerárþorp. Það þurfti að koma upp vatnsveitu, en hafði hins vegar ekki það sterka aðstöðu í sveitarstjórninni, að hún tæki málið að sér. Þess vegna var stofnað félag í þorpinu til þess að koma þessu í framkvæmd. Verkið var hafið nú á stríðsárunum, og vegna dýrtíðar og óhappa varð verkið óeðlilega dýrt, t. d. voru skurðir grafnir að hausti í von um, að vatnsrörin kæmu þá þegar, en sú von brást með þeim afleiðingum, að skurðirnir féllu saman um veturinn, og varð að grafa þá að nýju um vorið. Þessa vatnsveitu er því rík þörf að styrkja. Eftir frv. virðist mér, að sveitarstjórnin verði að hafa forgöngu um að fá slíkan styrk, en ef til vill gerir hún það alls ekki. Ég tel því nauðsynlegt, að skýr ákvæði séu um, að þessi l. nái líka til vatnsveitufélaga.

Það má vera, að eftir að búið er að setja í l., hvaða skilyrði viðkomandi einstaklingar og héruð þurfi að uppfylla til að geta notið þessa stuðnings, þá sé hægt að koma því þannig fyrir, að hluti úr sveitarfélagi yrði þess aðnjótandi, án þess að slík breyt. sé sett í l., en a. m. k. varðandi framkvæmdir, sem gerðar hafa verið og eðlilegt er, að séu styrktar samkv. tilgangi frv., þá held ég, að sé eðlilegt að gera þá breyt., sem ég hef talað um. Ég ætla samt ekki að flytja brtt. við 2. umr., vegna þess að það þyrfti kannske að orða hana inn í fleiri gr. og mundi verða ýmist við frv., eins og það er flutt, eða brtt. n., og mun ég því geyma til 3. umr. að flytja brtt., en vil þó minnast á það þegar við þessa umr. Ég veit ekki, hvort n. sér ástæðu til þess, en þó mundi mér þykja það til bóta, ef hún vildi athuga þetta nánar en hún hefur gert, áður en málið kemur aftur til meðferðar við 3. umr.