10.04.1947
Efri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

148. mál, vatnsveitur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur tekið til athugunar brtt. á þskj. 593 frá hv. 6. landsk. og hefur ekki getað fallizt á að leggja til, að brtt. verði samþ. En í tilefni af þessari fram komnu brtt. vil ég leyfa mér að benda á, að í 2. gr. frv., eins og það nú liggur fyrir á þskj. 577, stendur: „Nú vill sveitarfélag koma upp vatnsveitu og fá til þess fjárhagslega aðstoð úr ríkissjóði“ : Og það er að minnsta kosti meining n., að þegar hér er talað um að koma upp vatnsveitu, þá sé einnig átt við, að sveitarfélagið geti komið upp hluta af vatnsveitu, sem sveitarfélagið þarf, þó að það þurfi ekki að koma upp vatnsveitu fyrir allt sveitarfélagið. Í 7. gr. frv. stendur: „Nú óskar sveitarfélagið að kaupa vatnsveitu einstaklinga eða félaga“. Með þessu er átt alveg eins við hluta úr sveitarfélagi, sem þarf vatnsveitu, þannig að það verður veittur alveg eins styrkur til þeirra framkvæmda, þó að það sé ekki allt sveitarfélagið. En hvort sem um hluta úr sveitarfélagi er að ræða eða allt, þá þarf sveitarstj. að senda ráðh. um þetta beiðni samkv. 7. gr. frv.

Nefndin sér ekki annað en að þetta sé nægilega tryggt á þennan hátt, t. d. fyrir Glerárþorp, en það mun hv. 6. landsk. bera þarna sérstaklega fyrir brjósti, að ef hluti sveitarfélagsins vill kaupa vatnsveitu, og það sjálfsagt sveitarfélaginu að skaðlausu, þá getur sá hluti fengið sveitarstj. til þess að mæla með því að gera slík kaup fyrir hönd sveitarfélagsins eða hluta úr sveitarfélaginu. Og vegna þess að n. vill ekki stuðla að því, að einstaklingar eða félög séu eigendur að slíkum fyrirtækjum innan sveitarfélaga, þá getur hún ekki mælt með, að till. hv. 6. landsk. verði samþ., eins og hún liggur fyrir. N. álítur, að það geti haft óheppilegar afleiðingar að stuðla að því, að einstaklingum eða félögum sé veittur styrkur til slíkra fyrirtækja. Það getur staðið í vegi fyrir því, að fullkomin vatnsveita komi í þorp eða sveitarfélag, ef t. d. einstaklingur eða félag væri búið að leggja slíka vatnsveitu, og svo stækkað þorpið, þá er ekki víst, að slíkir aðilar teldu sér nokkurn hag í því að leiða vatnið í þau úthverfi, því að slík félög mundu ef til vill ekki telja sér skylt að leggja í kostnað vegna borgaranna í þeim hluta þorpsins, sem þeir sæju sér ekki hag í að gera. Aftur á móti mundi sveitarfélag vilja leggja í slíkt til hagsbóta fyrir borgarana. N. getur ekki skilið, að það sé neinum erfiðleikum bundið fyrir þetta þorp eða önnur að komast að samkomulagi við sveitarstj. um að gera þetta vatnsveitufyrirtæki. Einstakir nm. eru frjálsir um sín atkv. í málinu. En n. sem heild leggur á móti því, að brtt. á þskj. 593 verði samþ., með þeim rökum, sem ég þegar hef lýst.