11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (3621)

148. mál, vatnsveitur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Ég skal með ánægju svara hæstv. dómsmrh. um þetta. Heilbr.- og félmn. hefur þetta mál til meðferðar og lítur svo á, að ef þetta mál, sem hér liggur fyrir, nær fram að ganga, sé hitt frv. óþarft. Það er álitið, að það frv., sem spurt var um, sé óþarft, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samþ. til viðbótar ákvæðum vatnalaga, sem í gildi eru. Og það er ekki af tilhneigingu til að tefja málið, sem spurt var um, að það hefur ekki komið fram, heldur af þessari ástæðu, sem ég hef greint.

Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta mál, sem hér liggur fyrir, og ég sé ekki ástæðu til að biðja um, að málið fari til n. aftur vegna skrifl. brtt., sem fram kom. Ég tel, að sú brtt. sé til bóta, ef á annað borð brtt. á þskj. nr. 593 nær fram að ganga. Ég mun því greiða atkv. með skrifl. brtt., en á móti brtt. á þskj. nr. 593 á eftir. Ég skil ekki rök hv. 6. landsk. þm. í þessu máli, sem flytur þessar brtt. Hann segir, að viðkomandi sveitarfélag hafi ekki viljað byggja vatnsveitu í Glerárþorpi, og þetta er staðreynd. Hitt er byggt á getgátum, að sveitarfélagið vilji ekki taka að sér og kaupa vatnsveituna nú, þegar fyrir liggja lagafyrirmæli um, að það geti fengið hagkvæmt lán til 10 ára vaxtalaust, sem síðan endurgreiðist á 20 árum með jöfnum afborgunum og 4% ársvöxtum.

Ég veit ekki, hvaðan hv. 6. landsk. þm. kemur heimild til þess að fullyrða það, að þegar sveitarfélag á að velja um að taka á sig alla fjárhagslega ábyrgð, en fær þá fyrirgreiðslu, sem þessi l. veita, þá vilji það ekki einnig taka á sig það, sem því fylgir að eignast vatnsveituna. Ég skil ekki þann fjandskap, sem ríkir hjá þessu sveitarfélagi þarna nyrðra, ef það vill neita þessum íbúum sínum, sem í þorpinu eru, um þetta. Ég hygg, að hv. 6. landsk. þm. mæli ekki fyrir munn þessara manna, heldur séu þetta getgátur. Komi það hins vegar fram, að þessi fjandskapur ríki hjá þessari sveitarstjórn, að hún vilji ekki hjálpa meðlimum síns sveitarfélags, þó að í minni hluta séu, til þess að verða aðnjótandi þessara kjara, sem þessi l. veita, ef frv. verður samþ., þá þarf að taka málið til athugunar. En mér dettur ekki í hug, að svo fari hér eða í nokkru sveitarfélagi. Ég vil, í sambandi við fullyrðingu hv. 6. landsk, þm. um, að slíkt mundi koma fyrir hjá mörgum öðrum sveitarfélögum, alveg mótmæla því. Í langflestum tilfellum eru þorpin, þar sem þau eru hluti af sveitarfélagi, meiri hl. viðkomandi sveitarfélags. Og í flestum tilfellum er svo mikil samvinna milli íbúa í sveitarfélögum, að slíkur fjandskapur er ekki til, sem hér er lýst. Það er hins vegar ekkert nýtt, að menn hafi yfir að ráða hluta úr vatnsveitu, sem væri miklu betur komin í höndum sveitarfélagsins sjálfs. Og frv. er allt byggt upp á þeim forsendum, að sveitarfélögin eigi þessi fyrirtæki sjálf sem heild, en ekki hluti úr viðkomandi sveitarfélagi á hverjum stað.