11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (3622)

148. mál, vatnsveitur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég þakka hv. frsm. n. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf varðandi frv. um vatnsveitu Reykjavíkur. Ég hafði ekki látið mér koma til hugar þessa afgreiðslu málsins og hef þess vegna ekki borið saman Reykjavíkurfrv. og þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er sjálfsagt að gera það. En ég efast um, að mér veitist næði til þess undir umr. En ég tek strax eftir því í síðustu gr. þessa frv., að þar eru ekki felld niður þau sérákvæði, sem gilda um vatnsskatt í Reykjavík. En þannig stendur á, að þegar vatnal. voru sett 1923, voru látin halda sér sérlög um vatnsskatt í Reykjavík, sem mig minnir, að séu frá árinu 1907. Nú er að vísu ráðgert, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, komi í stað þess ákvæðis vatnal., sem hér á við, og þar er reyndar almennt ákvæði. Fljótt á litið virðist mér vera ástæðulaust að halda þessum sérákvæðum fyrir Reykjavík. En meðan þau eru látin vera í gildi og ekki felld formlega niður með þessum l., þá öðlast Reykjavík ekki rýmri heimild, samkvæmt því, sem talið er, heldur en er í sérlögunum fyrir Reykjavík. Þess vegna er nauðsynlegt, ef hv. n. ætlar að stöðva Reykjavíkurfrv., að fella sérákvæðin niður með þessu frv. Ég vildi, að gengið yrði úr skugga um, hvort ekki sé óþarfi að hafa Reykjavíkurfrv. sem sérmál, en ef svo er, þurfa sérákvæðin að falla niður með þessu frv. Ég vildi því skjóta því til hv. frsm. n., hvort ekki væri hægt að fresta 3. umr., svo að tóm gæfist til að athuga þessa möguleika.