16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (3631)

148. mál, vatnsveitur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér síðast til umr., kom til nokkurra orðaskipta milli mín og hv. þm. Barð. út af mismuninum á skuldbindingum sveitarfélagsins eftir því, hvort sveitarfélagið á vatnsveituna eða hún er í eign sérstaks vatnsveitufélags. Hv. þm. hélt því þá fram, að munurinn á þessu væri lítill eða enginn. En ég tel, að þessi munur sé mikill, af því að ef sveitarfélagið á vatnsveituna, ber það allar fjárhagslegar skuldbindingar, en ef um vatnsveitufélag er að ræða, þá á sveitarfélagið að vísu að ábyrgjast það lán, er vatnsveitufélagið fengi úr ríkissjóði, en eins og frv. ber með sér, þá er það lán aðeins helmingurinn af kostnaði við stofnæðar, boranir og geyma. Í nál., sem ég hygg að hv. þm. Barð. hafi skrifað, segir, að þetta sé aðeins hluti kostnaðarins og geti verið mjög lítill hluti. Á þessu er því mikill munur. Í síðustu ræðu hv. þm. Barð. taldi hann skoðanir mínar byggjast á misskilningi og vitnaði í það, að ég læsi upp af því þskj., sem útbýtt var eftir 3. umr. í Nd. Það vildi nú svo til, að ég las upp úr því þskj., en þessi aths. hv. þm. var þó óþörf, því að niðurstaðan var sú sama eftir 2. umr. hér og þegar málið kom frá Nd. um það atriði, að lán til vatnsveitna er aðeins 50% út á höfuðæðar, geyma og því um líkt. Í 5. gr. er svo ákveðið, að til viðbótar sé ríkissjóði heimilt að lána vegna kostnaðar við dreifingu innanbæjar, þannig að stofnlán megi vera allt að 85% kostnaðarins. En ef mín till. yrði samþ., þá er það vatnsveitufélagið, en ekki sveitarfélagið, sem bæri að fá þessa ábyrgð ríkissjóðs, þannig að kvaðir sveitarfélagsins yrðu aldrei aðrar en að ábyrgjast þessi 50%. Röksemdir hv. þm. Barð. og orð hans um misskilning minn eru því alveg staðlaus. Ég taldi rétt að leiðrétta þetta af því að í sambandi við afgreiðslu þessa máls taldi ég þetta geta haft nokkra þýðingu, enn fremur af því, að hv. þm. Barð. notaði það sem röksemd í öðru máli, að ég læsi upp af öðrum þskj. en við ættum og vissi því yfirleitt ekki, um hvað ég væri að ræða við afgreiðslu þingmála, svo að það væri ekki mikið mark takandi á því, sem ég segði. Ég viðurkenni takmörkun á þekkingu minni, og ef til vill hefur hann betri þekkingu á þessu máli en ég, en þó fullyrði ég, að þm. Barð. veit ekki alla hluti og segir stundum meira en hann veit, að því þykist ég hafa fært rök, auk þess sem brtt. hans ber þess vitni. — Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar.