16.04.1947
Efri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (3636)

148. mál, vatnsveitur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef heyrt um þetta mál frá þm. Barð., þó að ég geti ekki fallizt á það sem rök í málinu. Ég skal ekkert um það atriði segja, nema Glæsibæjarhreppur sé fús til þess að kaupa vatnsveituna í Glerárþorpi, en ég geri ráð fyrir, að skilnaður verði í náinni framtíð milli þessara aðila, og þess vegna tel ég ekki heppilegt, að hreppurinn eignist þessa vatnsveitu. (GJ: Það er þá bezt að binda þetta atriði við Glerárþorp) . Þm. Barð. var að tala um, að farið væri inn á hála braut með því að samþ. till. á þskj. 593, en mér virðist hún takmarkast mjög, ef till. á þskj. 625 verður samþ., þar sem áskilið er, að helmingur af íbúum svæðisins skuli vera stofnendur. Þess vegna tel ég þessa afstöðu þm. Barð. aðeins meinbægni eins og nú stendur.