23.05.1947
Neðri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (3647)

148. mál, vatnsveitur

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins á þessu stigi málsins geta þess, að mér er það mjög mikið áhugamál, að hér á þessu þingi, áður en því er lokið, verði samþ. frv. um aðstoð við hreppsfélög í svipuðum anda og það frv. er, sem í fyrstu var lagt hér fram á Alþ. fyrir atbeina hæstv. samgmrh. Og ég skal gjarnan fallast á, að það sé vissulega bezt, að frv. sé í því formi, sem það var upphaflega, að um beinan styrk sé að ræða til vatnsveitnanna, en ekki lán á þeim grundvelli, sem hv. Ed. hefur lagt til og orðið hefur að deilumáli milli d. En fyrir mér er þetta mál þannig, að ég vil miklu heldur fá málið fram í því formi, eins og hv. Ed. hefur gengið frá því, en það dagi nú uppi á þingi, og því vildi ég leyfa mér, af því að það kom ekki ljóst fram, að spyrja hæstv. samgmrh., hvort hann telur víst, ef frv. verður nú breytt í það horf, sem það var upphaflega, að það nái þá fram að ganga, áður en þessu þingi er slitið, og skal ég þegar geta þess, að stuðningur minn við brtt. er mjög bundinn við það, hvað ráðh. segir um þetta. Ég vil heldur fylgja frv. eins og því var breytt í d. en eiga á hættu, að það dagi uppi, ef það verður enn rekið á milli deilda.