25.11.1946
Efri deild: 19. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (3680)

80. mál, sóknargjöld

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Út af því, sem hv. 3. landsk. sagði í ræðu sinni, að nm. í menntmn. hefðu óbundnar hendur um afstöðu til þessa máls, vil ég aftur taka fram, að n. hefur enga afstöðu tekið til málsins, þó að hún yrði við þeirri ósk ráðh. að koma því hér á framfæri. Ég ætla ekki að fara út í efnishlið málsins við 1. umr. þess hér, en lýsi því yfir, að ég hef óbundnar hendur um það eins og aðrir nm. Ég gat þess áðan, að þetta væri frekast skattamál, en ekki kirkju- eða menntamál og ef til vill ætti að vísa því til annarrar n. en þeirrar, er flutti það, og tek ég því undir till. hv. þm. Barð. um, að því verði vísað til fjhn., því að þar á það í sjálfu sér heima. Mig skiptir þetta persónulega engu, því að ég fjalla um málið í hvorri n. sem það hafnar, þótt ég kynni að vilja komast hjá því.

Varðandi ummæli hv. 1. þm. N-M. get ég ekki séð, ef horfið yrði að ráði þessa frv., að ástæða væri til að undanskilja bændakirkjurnar eða leysi þær undan þessu gjaldi til kirkjuþarfa, því ef löggjafarvaldið eða ríkisvaldið þrefaldar tekjur þeirra, get ég ekki séð, að neitt væri á móti því að taka af þeim til almennra kirkjulegra þarfa, og einmitt þetta atriði álít ég, að sé nú í raun og veru meginatriði í þessu frv. Þar er virkilega gengið inn á nýja leið, sem ég held, að ekki sé hægt að komast hjá. Ef þjóðfélagið ætlar á annað borð að styðja þjóðkirkju í landinu, þá er það vitanlega mjög óeðlilegt, að þessi stofnun sem slík hafi engan einasta eyri til umráða til sinnar allsherjar starfsemi.