25.11.1946
Efri deild: 19. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (3681)

80. mál, sóknargjöld

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég kippi mér ekkert upp við það, þótt hv. þm. Barð. telji allt það rökvillur og hugsanavillur, sem ekki á upptök sín í hans heilabúi. Ég hef áður orðið þess var hér í hv. þd., að það er yfirleitt skoðun hans í hverju máli, að ef einhver maður annar hefur aðrar skoðanir en hann á máli, þá finnst honum það vera hugsanavillur og rökvillur. Hins vegar gerði sá hv. þm. ekki grein fyrir því, í hverju það lægi, að það væri hugsanavilla, að þeir efnaðri og þeir, sem bezta greiðslugetu hafa yfirleitt, af hvaða ástæðum sem er, greiði eitthvað meira til prests og kirkju en sjúkir menn og snauðir. En það fólst í minni till.

En viðvíkjandi hinu, sem hv. þm. Barð, sagði, að sums staðar vildi fólkið í sóknunum heldur standa undir fjárhagslegum safnaðarþörfum en að þetta félli undir ríkið, þá felst á engan hátt í minni till., að fólkið megi það ekki. Þó að valdið til að innheimta í hverju héraði gjöldin, sem til þess þarf að greiða, sé hjá viðkomandi sveitarstjórn á hverjum stað, en ekki sóknarnefnd, þá mundi fólkið í hverri sókn bera byrðar kirkjunnar eins og eftir eldra fyrirkomulaginu. Aðeins væri munurinn sá, að það deildist öðruvísi niður á herðar gjaldendanna. — En það er vitanlega eðlilegt, að á milli mín og hv. þm. Barð. sé skoðanamunur um þetta, að ég vil láta byrðar kirkjunnar, eins og annarra stofnana þjóðfélagsins, hvíla misþungt á herðum borgaranna eftir getu þeirra og aðstöðu í þjóðfélaginu til að greiða gjöld.

Ég tók það fram áðan, að ég tel ekkert óeðlilegt við það, þótt útgjöld þjóðfélagsins til kirkjunnar hækki eitthvað. Ég tel það ekki vansalaust fyrir þjóðfélagið, að yfirleitt skuli kirkjur og kirkjugarðar vera þannig útlits, sennilega mest fyrir fjárskort, meir en fyrir beint hirðuleysi, að kirkjuhúsin eru þau hús og kirkjugarðarnir þeir blettir, sem þjóðfélagið hefði mesta ástæðu til að blygðast sín fyrir. Kirkjugarðarnir eru margir óræktanlegustu blettirnir á Íslandi, og mest vanræktu húsin á þessu landi víðast hvar eru kirkjurnar.

Ég held, að ef það er sú ríka sparnaðarhneigð hv. þm. Barð., sem fyrst og fremst skapar andstöðu hans gegn brtt. þeirri, sem ég ympraði á hér, þá ætti hann að stilla sparnaðarhneigð sinni í hóf, að því er þetta snertir, því að hér þarf að gera betur fyrir kirkjurnar, ef það ástand, sem er í þessu efni, á ekki að vera áfram til skammar, eins og verið hefur. Og þeir ríku eru ekkert of góðir til þess að bera ofurlítið af þeim byrðum, sem af því mundi stafa.