09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (3690)

80. mál, sóknargjöld

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Ég get nú tekið undir það með háttv. frsm. að hér er ekki um neitt stórmál að ræða, en ég er honum ekki sammála um leiðir í þessu máli.

Ég tel að þetta gjaldkerfi nefskattsins ætti að hverfa sem fyrst. Því er nú búið að breyta á flestum sviðum, og mín skoðun er, að einnig ætti að breyta um kirkjugjöld, svo að þau yrðu hundraðshluti af tekjum manna. Ég er því í prinsipinu samþykkur brtt. á þskj. 170, en þar er lagt til, að sóknargjöldin séu miðuð við útsvar manna. en ekki sem hundraðshluti af tekjum, sem ég hefði frekar kosið, en ég mun greiða þessari brtt. atkv. og tel það framför, ef að því ráði yrði horfið.

En ef sú till. nær ekki fram að ganga, hef ég hugsað mér að bera fram brtt. Ætlaði ég að geyma það til 3. umr., en tel rétt að hún komi nú þegar, þar sem umr. eru það miklar. Mín till. er að efni samhljóða brtt. á þskj. 190, en sú till. gengur skemmra. þar sem miðað er við gamalmenni með aldurstakmarkið 67 ára, sem sé undanþegið. Mér finnst rangt, að menn greiði strax við 15 ára aldur, ef þeir hafa engar tekjur. Upphaflega var þetta hugsað svo að þeir einir, sem einhverjar tekjur hefðu, greiddu þetta gjald, en það er ranglátt, að allir greiði það. Mér þykir því brtt. á þskj. 190 ganga of skammt.

Ég mun og ekki fylgja því að lækka sóknargjöldin. Þau má ekki lækka, eins og nú er háttað verðlagi í landinu, ef þau eiga að koma að nokkrum notum. Ég skal taka það fram að gefnu tilefni, úr því að hv. þm. Dal. vill lækka gjöldin um 50 aura vegna hins nýja kirkjusjóðs, að ég sé enga hættu á, að hann verði misnotaður. Hann gæti ekki orðið stór, en gæti þó komið sveitakirkjum að verulegum notum og gott að hafa slíkan sjóð til að grípa til til þess að skreyta með afskekktar sveitakirkjur. Einn þm. brosir, en ég skal taka það fram, að ég legg ekki lítið upp úr, að guðshús séu falleg.

Ég skal þá lesa brtt. mína, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Upphaf greinarinnar orðist svo:

Hver maður, karl eða kona, sem orðinn er fullra 16 ára um nýár næst á undan gjalddaga og gert er að greiða skatt til ríkisins eða útsvar til bæjar- eða sveitarfélags, skal greiða“ o. s. frv.

Ég skal taka það fram, að ég tel réttara að miða við 16 ára aldur. Skattgreiðslur eru miðaðar við 16 ára aldur, en ekki 15, og eru mörg rök, sem undir það hníga. Gjaldið er yfirleitt greitt af foreldrunum, ef börnin eru yngri, og þau hafa ekki fjárráð fyrri en 16 ára.

Ég vænti svo, að hæstv. forseti vilji leita afbrigða fyrir þessa brtt. mína.