09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (3692)

80. mál, sóknargjöld

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru ekki fáar brtt., sem hér liggja fyrir, og bendir til, að hv. d. sé ekki sammála. Það er þá fyrst brtt. frá hv. 3. landsk. þm. (HV), að hann vill hverfa frá því að innheimta gjald þetta sem nefskatt, en láta miða það við útsvörin, en aðrir vilja, að það sé miðað við tekjur. Enn aðrir hv. þm. vilja áfram halda sér við nefskattinn.

Ég vil hætta við nefskattinn. Það mælir ekkert réttlæti með því að hafa hann og hefur aldrei mælt. Ég er því sammála brtt. á þskj. 170, fyrri hluta hennar, en ég er ekki sammála því, að farið verði að aura saman í einhvern sjóð, sem hv. 1. landsk. þm. vildi, að varið yrði til að skreyta með kirkjur. Ég geri ráð fyrir, að það yrði dálítið skrítin útkoma á sjóðnum þeim. Því er ég algerlega á móti því að fara að aura í sjóð, sem enginn veit. til hvers á að verja. Viðvíkjandi því, að kirkjuráðið fái eitthvert fé til umráða, þá hefur það komið áður til Alþ. og fengið góðar undirtektir, en ég er á móti því að láta það fá fé, sem tekið er með nefskatti af landsmönnum. Ég ber því fram brtt. við brtt. á þskj. 170. Ég vil jafnframt benda flm.brtt. á þskj. 170 á það, að ef ekki innheimtust öll útsvör, þá bæri hreppnum eða bæjarfélaginu ekki skylda til að láta í sóknargjöld nema hlutfallslega við það sem innheimtist. Árlega innheimtast ekki öll útsvör, og ekkert réttlæti er í því að láta hreppsfélagið borga af þeim peningum, sem það fær aldrei, en nauðsynlegt að setja inn ákvæði til að fyrirbyggja það.

Fari svo, að brtt. á þskj. 190 verði samþ., held ég, að nauðsynlegt sé að hafa ákvæði um það, við hvaða vísitölu á að miða. Það koma nefnilega 2 ár til greina, árið, sem innheimtan fer fram, og árið áður, og er nauðsynlegt að taka fram, hvort árið það er, sem við á að miða.

Ef svo færi, að nefskatturinn fengi meiri hluta hér í hv. d., og má vel vera, að svo fari, þar sem flestir, sem hér eru, mundu annars fá hærri skatt, vona ég, að menn geti orðið sammála um að láta ekki þá menn, sem engin not hafa af kirkjulegri þjónustu, borga. Ég vil benda flm. brtt. á þskj. 190 á, að nú munu vera ákvæði í 1., sem heimila þeim, sem ekki vilja vera í þjóðkirkjunni eða fríkirkjusöfnuði, að greiða gjaldið til háskólans, en mér skilst, að ef þessi brtt. verði samþ., þá sé þetta ákvæði fellt niður, að menn geti greitt til háskólans, ef þeir vilja.

Mér er ekki alveg ljóst, hvernig atkvgr. ber að, mundi vilja fylgja brtt. hv. þm. Dal., ef hann ríghéldi ekki í nefskattinn, en helzt vil ég brtt. á þskj. 170, ef hún fengi þá breyt., sem ég leyfi mér að bera fram og afhenda hæstv. forseta, en brtt. mín hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta. Hún er við brtt. á þskj. 170 og hljóðar svo:

„Síðasta málsgr. falli niður.“