28.10.1946
Neðri deild: 6. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (3711)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Með því að mál þetta er í grg. og líka af hálfu hv. frsm. rakið nokkuð til þeirrar rótar, að á Alþ. 1939 hafi komið fram till. í sömu átt og verið afgr. með ákveðnu móti, sem bendi til þess, að samkomulag hafi átt að verða um framkvæmd málsins síðar, og þar sem ég átti nokkurn þátt í því, að málið var tekið til meðferðar á Alþ. og lét í ljós skoðun mína á því þá, þá þykir mér rétt að fara um þetta mál nokkrum orðum nú í upphafi.

Eins og rakið er í grg. frv. og hv. frsm. benti á, þá lauk því frv., er Bjarni Snæbjörnsson, þm. Hafnf., flutti 1939 um svipað efni, á þann veg, að málið var afgr. með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er upp í grg. frv., og hefur hv. flm. og frsm. bæði í ræðu sinni og grg. dregið af henni ályktanir, sumar réttar, en aðrar ekki réttar. Eins og allir vita, sem þekkja til sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, þá var það þannig fram til ársins 1940, að Alþýðusamband Íslands og Alþfl. var ein skipulagsbundin heild, og svo hafði víða verið á frumbýlingsárum verkalýðshreyfingarinnar annars staðar, t. d. í Svíþjóð og Bretlandi, og er að nokkru leyti enn í dag. En þegar fram liðu stundir og komið var að þessum tíma, 1939, þá heyrðust raddir um það innan verkalýðssamtakanna og einnig meðal stjórnmálaflokkanna, að ástæða væri til þess að gera skipulagsbundinn greinarmun á Alþfl. og Alþýðusambandinu, og þess vegna var flutt sú till., sem þáverandi þm. Hafnf., Bjarni Snæbjörnsson, flutti á Alþ. 1939. Eins og allir vita, þá lauk því þannig eftir frjálsa ákvörðun Alþýðusambandsins og Alþfl. 1940, að gerður var skipulagsbundinn skilnaður á milli þessara tveggja samtaka, og eftir það hefur Alþýðusambandið starfað eftir 1. sínum og samkvæmt yfirlýsingum, óháð stjórnmálaflokkum, og hefur Alþfl. eftir þann tíma ekki haft rétt til að hafa þar á hendi íhlutun mála öðruvísi en efni gáfust til eftir skoðunum manna innan verkalýðshreyfingarinnar. Þessu var þess vegna breytt 1940 og einnig því, sem að var fundið þá, að leyft hafði verið að hafa tvö verkalýðsfélög sams konar á sama félagssvæði, en þá störfuðu í Hafnarfirði, eins og menn muna, tvö verkalýðsfélög. Meðan Alþýðusambandið var skipulagslega tengt Alþfl., frá 1930 til 1940, voru 1. Alþýðusambandsins og flokkslög Alþfl. sameiginleg, og enginn mátti mæta á Alþýðusambandsþingi, nema hann væri skipulagsbundinn alþýðuflokksmaður. Þetta ákvæði hafði ekki gilt, frá því að Alþýðusambandið var stofnað 1916 og fram til 1930, en raun bar vitni um það, að á meiri hl. þessa tímabils voru fulltrúarnir á Alþýðusambandsþingi svo að segja allir alþýðuflokksmenn, og var svo allt til þeirrar stundar, er kommúnistar klufu sig út úr og stofnuðu Kommúnistafl. 1930, en þá var þetta ákvæði um sameiginleg lög Alþfl. og Alþýðusambandsins sett inn. Nú skal ég ekkert deila um það, hversu eðlilegt það hafi verið að halda þessum skipulagsbundnu tengslum milli Alþfl. og Alþýðusambandsins, en ég vil minna á það í þessu sambandi, að það var í rauninni Alþfl., jafnaðarmenn, sem stofnaði Alþýðusambandið á sínum tíma, og það var ekki hægt að greina á milli þess á þeim tíma, hvort menn voru í verkalýðsfélagi eða Alþýðuflokksfélagi, því að verkalýðsfélögin voru framan af ekkert annað en flokksfélög alþýðuflokksmanna. Þessi tengsl komu því af sjálfu sér allt frá stofnun Alþýðusambandsins og Alþfl. 1916 og fram til ársins 1930, að kommúnistar klufu sig úr samtökunum og stofnuðu Kommúnistafl. Íslands, þá kom þetta ákvæði inn í l. Alþfl. og Alþýðusambandsins. En svo gerðist breyting á verkalýðsfélögunum, því að í raun og veru voru, eins og ég sagði, engir menn í þeim framan af nema alþýðuflokksmenn, og lítill greinarmunur var gerður á verkalýðsfélögunum og flokksfélögum Alþfl. En þegar verkalýðsfélögin tóku að treysta samtök sín og stofna félög víða um landið og reyna að fá sem flestan verkalýð inn í þessi samtök, breyttist þetta, og kom fljótt að því, að inn í þessi samtök komu aðrir en þeir, sem voru alþýðuflokksmenn. Það var þess vegna eðlileg rás viðburðanna hér á landi, að þegar inn í verkalýðsfélögin voru komnir menn, sem ekki voru alþýðuflokksmenn, þá mundi til þess draga, að skilnaður mundi gerður milli Alþýðusambandsins og Alþfl. Þetta var gert á sameiginlegu þingi Alþfl. og Alþýðusambandsins 1940, og ég skal lýsa því yfir, að ég var þessu ákveðið fylgjandi og átti þátt í því, að þessi skipulagslegu tengsl, sem áttu þá að baki nokkuð mörg ár, voru rofin, og það var vegna þess, að þetta skipulag passaði ekki lengur fyrir þessi samtök, þótt það passaði fyrir þau lengi fram eftir hér á landi eins og víða annars staðar. Þetta gerðist af frjálsum vilja og með frjálsu samþykki Alþýðusambandsins og Alþfl. Sömuleiðis var alþýðusambandsl. breytt þannig, að ekki mætti nema eitt félag sömu tegundar á sama félagssvæði vera í Alþýðusambandinu. Samþykkt hinnar rökstuddu dagskrár frá 1939 var því að öllu leyti fullnægt á Alþýðusambandsþinginu 1940, og ég held, að það sé misskilningur hjá hv. flm. þessa frv., að það skorti enn á, að öllum meðlimum verkalýðsfélaganna sé tryggður sami réttur til allra trúnaðarstarfa án tillits til stjórnmálaskoðana. Þetta hefur einmitt verið framkvæmt og framkvæmt með því að nema úr gildi ákvæði Alþýðusambandsl. frá 1930 um það, að enginn mætti mæta á þingi Alþýðusambandsins, nema hann væri skipulagsbundinn alþýðuflokksmaður. Þetta var afnumið, og með því var í rauninni orðin greið gatan fyrir hvern mann án tillits til stjórnmálaskoðana að eiga sæti á þingi Alþýðusambandsins. Rökstuddu dagskránni frá 1939 hefur því verið framfylgt út í yztu æsar, enda hafði ég viljað, að svo yrði, og var því máli fylgjandi hér á Alþ. 1939, og þetta var framkvæmt á alþýðusambandsþingi 1940.

Ég vil þess vegna fyrst og fremst leiðrétta þann misskilning, sem kemur þarna fram hjá hv. flm. málsins, að enn skorti á, að fullnægt sé þessu skilyrði hinnar rökstuddu dagskrár. En þegar þetta er athugað, þá kemur að hinu: Er rétt að setja á Alþ. löggjöf, sem fyrirskipar með vissu móti, að hlutfallskosningar skuli viðhafðar innan verkalýðsfélaganna? Ég lýsti því yfir á Alþ. 1939, að ég álíti þetta rangt. Ég áleit það óeðlileg afskipti löggjafarvaldsins af verkalýðssamtökunum, afskipti, sem ég veit ekki til, að framkvæmd hafi verið nokkurs staðar meðal lýðræðisþjóða. Hitt er svo annað mál, hvort verkalýðsfélögin sjálf, samtakaheild þeirra, ættu að ákveða að hafa hlutfallskosningar hjá sér til trúnaðarstarfa og fulltrúavals, það eru þau sjálfráð um og eiga að vera sjálfráð um.

Hv. flm. þessa máls nefndi nokkur dæmi, þar sem hlutfallskosningar hefðu verið innleiddar á seinustu tímum, og nefndi hann meðal annars stéttarfélög bænda. Það er rétt, að það var ákveðið við stofnun stéttarfélags bænda að hafa hlutfallskosningar, en það voru samtökin sjálf, sem þar stofnuðu til samtakanna, sem komu sér saman um þessa skipulagsháttu í sínum eigin félagsskap. Við þekkjum önnur stór samtök hér á landi, og um þau gildir sérstök löggjöf, það er samvinnufélagsskapurinn. Um þann félagsskap gildir samvinnulöggjöfin, og í þeim félagsskap eru hlutfallskosningar viðhafðar, og í þeirri löggjöf er ákveðið, að félagið eigi að vera opið öllum mönnum, sem fullnægja skilyrðum til þess vegna búsetu á félagssvæðinu — opið öllum án tillits til stjórnmálaskoðana, alveg eins og verkalýðsfélagsskapurinn á að vera opinn öllum verkalýð, konum jafnt sem körlum, á félagssvæðinu, þar sem félög starfa. Ég veit ekki, hvort verkalýðsfélögin telja það réttan hátt á starfsemi sinni að taka upp hlutfallskosningar, en ég vil láta þau ákveða um það sjálf, en alls ekki, að löggjafarvaldið gangi inn á þá braut að fyrirskipa þessum frjálsu samtökum í landinu að fara inn á þessa braut, ef þau ekki ákveða það sjálf fyrir sitt leyti. Ég á lítinn þátt nú orðið í starfsemi verkalýðsfélaganna, en ég þekki vel sögu þeirra og starfsemi í 20–30 ár, og ég álít eftir þeirri reynslu, sem ég hef fengið af þeim samtökum, að þessir aðilar séu bezt bærir til þess að ákveða um þetta sjálfir. Ég er þess vegna fyrir mitt leyti andvígur þessu frv., sem fyrir liggur. En ég vil fyrst og fremst leiðrétta þann misskilning og þá hæpnu ályktun, sem dregin hefur verið af rökstuddu dagskránni frá 1939 um framkvæmd á samkomulagi. Í annan stað vil ég lýsa því yfir, að ég hef sömu skoðun um þessi málefni eins og ég hafði 1939 og hef alltaf haft; að það sé ekki svið löggjafarvaldsins að fara inn á að ákveða slíka skipulagsháttu fyrir verkalýðsfélögin frekar en samvinnufélögin, íþróttafélögin og önnur allsherjarsamtök, sem starfa um land allt. Og ég er hræddur um, að ef farið yrði inn á þessa leið með verkalýðssamtökin, þá gæti verið hætt við því, að það kæmu upp sams konar kvaðir snertandi samvinnufélögin og íþróttafélögin, kvenfélögin o. s. frv., en þetta eru samtakaheildir, sem ná yfir allt landið, og ég álít, að löggjafarvaldið eigi ekki að grípa fram fyrir hendur þeirra, heldur eigi að láta þessar félagsheildir um það, hvað þau vilja vera láta í sínum skipulagsháttum. Þess vegna vil ég óska þess, að menn athugi mjög vel það, sem hér er farið fram á, og athugi, hvaða dilk það mundi draga á eftir sér, ef farið yrði inn á þessa vafasömu braut í löggjöf, hvað snertir almenn samtök og félagsskap manna í landinu.