09.01.1947
Neðri deild: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (3719)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. meiri hl. (Hermann Guðmundsson) :

Mörg verkalýðsfélög í landinu hafa mótmælt frv., og að þeim mótmælum hafa staðið menn úr öllum flokkum, og sýnir það greinilega, hver vilji verkalýðsins er, að hann er andstæður þessari kúgun, sem hér er ætlunin að beita. Það breytir engu, þótt frsm. minni hlutans haldi því fram, að ég hafi barizt fyrir þessu sama áður. Ég var með hlutfallskosningu, en ekki með valdbeitingu og valdboði frá Alþingi. Samþykkt þessa óheillafrv. væri árás á frelsi verkalýðsfélaganna, og ég vil biðja þá menn, sem eru forsvarsmenn annarra félaga í landinu, að athuga það, að þetta er aðeins byrjunin, önnur félög mundu koma á eftir. Samþykkt þessa óheillafrv. væri ósamboðin Alþ. og frekleg árás á lýðræðið í landinu. Ég vona svo, að Alþ. felli þetta frv.