09.01.1947
Neðri deild: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (3722)

26. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Jörundur Brynjólfsson:

Ég ætla að leiða hjá mér að miklu leyti átökin milli frsm. meiri og minni hl., því að það snertir ekki svo mjög það, sem ég vildi segja um þetta mál.

Eins og fram kemur á þskj. 215, hef ég lagt á móti því, að þetta frv. verði samþykkt hér á þingi. Eins og þar greinir, tel ég það vera skerðingu á athafnafrelsi félaganna, ef Alþ. lögbýður hlutfallskosningar hjá þeim, og því fremur tel ég ekki rétt að gera þetta, þar sem fyrir liggur af hálfu þeirrar allsherjarsamkundu, sem sá félagsskapur hefur, eindregin yfirlýsing um að frábiðja slíka íhlutun. Að svo vöxnu máli tel ég ekki hyggilegt að lögbjóða hlutfallskosningu. Ég get viðurkennt það, að ef á að lögbjóða hlutfallskosningu, tel ég ákvæðum frv. í hóf stillt, þar sem gert er ráð fyrir að 1/5 félagsmanna verði að koma með áskorun um það, en það er svo mikill hluti í hinum fjölmennari félögum, að það réttlætir, að slík kosning sé viðhöfð, en í minni félögum horfir málið öðruvísi við, þó að hlutfallið sé það sama.

Nú vil ég ekki bera minn kunnugleika á þessum málum saman við þann kunnugleika, sem flm. kann að hafa, en frsm. meiri hl. hefur ekki síður kunnugleika á þeim, þar sem hann hefur í mörg ár verið í þeim félagsskap, og hann fullyrðir, að enginn vilji sé fyrir því, að Alþ. lögfesti slíkt fyrirkomulag, og sú ályktun, sem fyrir liggur, staðfestir það, sem frsm. meiri hl. segir, að á þeirri samkundu hafi ekki verið vilji fyrir þessu, heldur þvert á móti. Það er viðurkennt, að þetta væri skerðing á félagafrelsinu, ef það yrði að l., þar sem því yrðu með þessu takmörk sett. Að vísu hafa nokkrir menn látið í ljós, að þeir vilji, að slíkt kosningafyrirkomulag sé viðhaft, en að svo stöddu máli álít ég ekki rétt að fyrirskipa slíka kosningaaðferð, og þá álít ég, að Alþ. eigi að láta það vera.

Bæði hv. 11. landsk. (HermG) og hv. 5. landsk. (StJSt) hafa talað á móti þessu máli, og mig furðar það. En ég get ekki neitað því, að eftir því sem fram hefur komið af hálfu þeirra, sem telja sig vera hér fulltrúa verkalýðsfélaganna í landi, sjómanna o. fl., þá finnst mér lítill skilningur hafa komið fram í garð annarra, sem hafa átt í sams konar málum, eftir því sem mér er kunnugt um, að þeir hafa greitt atkv. Það má segja um þá eins og sagt er um valinn, að þegar hann komi að hjarta rjúpunnar, þá reki hann upp skræk, því að þá sé honum ljóst, að það er systir hans, sem hann er að borða. Þetta er þjóðsögn, en vera má, að það sé eitthvað meira. Þeir haga sér eftir því, hvort þeir búast við, að fólkið muni kjósa sig. En það hefur ekki minnstu á hrif á mig, þó að atkv. þeirra hafi fallið svona áður, ég ætla ekki að gjalda líkum líkt í þessum efnum, því að ég veit, að þetta er gert í fullkominni óþökk umbjóðenda þessara manna, þó að segja megi, að þeir hafi helzt til lítið látið verða vart við vilja sinn, því að þeir hafa líka, þegar þeir eru komnir á kosningaaldur, skyldur að rækja gagnvart sínu þjóðfélagi, en til þess er ætlazt með þeirri stjórnskipun, sem við höfum á okkar málum, að þegar fulltrúarnir sýna rangsleitni, þá geti kjósendur svipt þá umboði eða kennt þeim að lifa. En þótt þetta mál liggi nú þannig fyrir, mun ég ekki láta það hafa áhrif á mig gagnvart aðstöðunni til þessa máls, og þannig er einnig ástatt um minn flokk. Við teljum, að það sé hvorki hyggilegt né réttlátt að innleiða þetta að svo vöxnu máli. En þrátt fyrir það skal ég ekki segja um það, ef þannig verður forystan um málefni verkalýðsins, að sá minni hl., sem þar kann að vera einhvern tíma, ef hann verður beittur þeim tökum, sem eru óviðurkvæmileg og hann leitar svo til Alþ. með leiðrétting sinna mála, þá þykir mér ekki nema eðlilegt, að ég eða hver, sem með umboð færi á Alþ., tæki þetta til íhugunar, hvort hægt væri að slá á frest að liðsinna þeim mönnum, sem ofríki væru beittir. En það er þess tíma, þegar það sýnir sig, og þeirra manna að ákveða um það, sem um það eiga að fjalla, og ég sé ekki ástæðu til þess nú, að það þurfi að hafa áhrif á afgreiðslu þessa máls.

Hv. frsm. minni hl., 7. þm. Reykv., furðaði sig á því, að Framsfl. skyldi taka þessa afstöðu til málsins, og vitnaði til blaðsins og ummæla þess. Ég hef nú víst ekki séð það blað, ég hef ekki haft tækifæri til þess að lesa öll blöð, frá því ég fór í jólafrí og þangað til ég kom aftur, það skiptir heldur ekki máli. En hvað það áhrærir, þá þarf hv. frsm. minni hl. ekki að undra svo mjög á því, þó að flokkurinn vilji ekki á þetta fallast, því að yfirleitt hefur Framsfl. tamið sér það að skerða sem minnst félagafrelsi og að menn hafi frjálsræði til athafna, bæði þar og annars staðar. Það, sem hv. frsm. vitnar svo til, að Framsfl. hafi sumpart beitt sér fyrir eða verið með í að innleiða hlutfallskosningar, þá er það ekki sambærilegt við þetta mál, þau dæmi, sem hann nefndi. Framsfl. hefur á engan hátt beitt sér fyrir því að innleiða hlutfallskosningar í sveitarfélögum, en hann var með í því. En það er allt annar félagsskapur en sá, sem hér um ræðir, og á ekkert skylt við það, hann er einn þáttur af okkar stjórnskipan. Ef minni hl. óskar, getur hann komið því við í sveitarstjórnarmálum, sem takmarkast þá við það, og eins er um bæjarstjórnarkosningar. Við sýslunefndarkosningar er ekki nema einn maður kosinn í hverri sveit, svo að það kemur þess vegna ekki til greina með hlutfallskosningar þar. En svo vitnaði hv. frsm. einnig til jarðræktarlaganna. Í fljótu bragði mætti kannske finna nokkurn skyldleika á milli þessa frv. og þess, sem þar ræðir um — ég segi í fljótu bragði, en ég hygg, að hv. frsm. hafi ekki kynnt sér það eða honum hafi yfirsézt um það, hvernig fyrirkomulaginu var áður háttað um kosningar til búnaðarþings. Það var á þá lund, að innan hvers sveitarfélags voru kjörnir fulltrúar til búnaðarsambandsfundanna, þeir fulltrúar kusu svo til búnaðarþings, en bændur höfðu ekki bein áhrif á það, hvernig búnaðarþing var skipað. Búnaðarþing gat þess vegna í ýmsum efnum verið í mjög mikilli andstöðu við bændastéttina. Þegar svo breytt er til svona gersamlega eins og gert er með jarðræktarl. 1936, að bændur sjálfir eiga að velja búnaðarþing að öllu leyti, þá þótti það viðurhlutamikið að hafa það útilokað, að hlutfallskosningar væru viðhafðar, ef menn óskuðu þess. Ef við, framsóknarmenn, sem stóðum að þessari breyt., hefðum haft sérstaklega í huga að ná meiri hl. á búnaðarþingi og ná sem mestu af búnaðarþingi í okkar hendur, hefðum við ekki þurft að hafa ákvæðið svona, því að kosningar undanfarið hafa sýnt það, að Framsfl. er þarna víðast á landinu alls ráðandi. Þetta datt okkur ekki í hug. Okkur fannst réttlátt, eins og á stóð með þennan félagsskap, að það var verið að byggja upp þennan félagsskap fyrir bændur, að hafa það opið, ef bændur kysu það, að innan hvers búnaðarsambands væru viðhafðar hlutfallskosningar, svo að minni hl. gæti í þeim efnum notið sín. Annars lá nokkuð nærri að túlka þetta svo, að þetta væri pólitískt herbragð af okkar hálfu, þegar breyt. var gerð á skipan búnaðarþings, en slíkt vakti ekki fyrir okkur, heldur vildum við fá sterka stofnun fyrir bændastéttina til að vinna að málefnum hennar, það var aðalatriðið, og þess vegna höfðum við löggjöfina að þessu leyti þannig úr garði gerða sem hún er. Nú má vel vera, að síðar meir komi það fram af hálfu bændastéttarinnar, að hún sjái ekki ástæðu til þess að viðhafa áfram hlutfallskosningar og þær verði afnumdar í þeim félagsskap, en það álít ég, að eigi að bíða, þangað til raddir heyrast um bað. Komi fram áberandi óskir um það, álít ég, að það eigi að fallast á slíkar óskir. Þetta er þess vegna að þessu leyti til á engan hátt sambærilegt við þetta frv. Ég sé svo ekki ástæðu til að blanda mér frekar í þetta mál, en ég vil vona að lokum, að af hálfu þeirra manna, sem með mér eru í því að greiða atkv. á móti þessu frv., sé það vottur þess, að þeir muni í þessum efnum verða betur á verði en verið hefur fyrir því, að menn fái að njóta síns félagafrelsis, hvar í stétt sem þeir eru, og að það endurtaki sig ekki, sem átt hefur sér stað hér á Alþ., að menn séu sviptir mannréttindum með lagaákvæðum og það að óþörfu.

Það eitt vil ég segja út af ræðu hv. frsm. meiri hl., að þó að, eins og hann segir, verkamenn hafi það sterkan félagsskap, að það muni verða tekið fullt tillit til þeirra óska, sem þeir láta í ljós, þá er það í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, en ég vil segja hv. frsm. meiri hl. það, að það getur engu að síður verið rétt að taka fullt tillit til þess, þó að félagsskapurinn sé ekki sterkur. Það er ekki réttlætanlegt, þó að félagsskapurinn sé veikur, ef hann er vaxandi og starfar vel, að ekki sé tekið tillit til hans eins og þess, sem er sterkur. Til beggja aðilanna á að taka tillit eftir því, sem réttlátt er og mögulegt, — það á ekki að fara eftir kraftahlutföllum, sem félagsskapurinn getur haft í þjóðlífinu til að knýja sín mál fram — það er engin réttlætiskennd, og eftir því lögmáli eigum við ekki að lifa, heldur hinu, hvað rétt er og sanngjarnt í hverju máli. Vil ég vona, að hv. frsm. meiri hl. reyni að fullnægja slíku af sinni hálfu um afskipti hér og annars staðar af málefnum þjóðarinnar.