20.01.1947
Efri deild: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (3734)

130. mál, almannatryggingar

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Mér kemur það ekki ókunnuglega fyrir sjónir, þótt hv. þm. Barð. sé mér ekki sammála um þetta frv. Eins og hv. þm. gat um, átti hann sæti í heilbr.- og félmn., þegar 1. um almannatryggingar voru afgr. Ég átti sæti í henni líka. Kom þá í ljós, að við höfðum í ýmsum atriðum mjög mismunandi sjónarmið varðandi þetta mál. Og ég geri ekki ráð fyrir, þótt við héldum áfram að kappræða um þessi mál, að við kæmumst að sameiginlegri niðurstöðu. Í þeim tilgangi mun ég ekki halda uppi löngum umr. um þetta mál.

Það voru samt nokkur atriði í ræðu hv. þm., sem ég tel þess eðlis, að ekki sé rétt að láta þau fram hjá sér fara án þess að andmæla þeim. Í fyrsta lagi hélt hv. þm. því fram, og studdi sig við upplýsingar, er hann hefði fengið úti um land, að kosningafyrirkomulag tryggingan. væri of þunglamalegt, þannig að sveitarstjórnir kæmu á sameiginlegan fund til þess að kjósa þessar n. Þetta eru veigalítil rök gegn tryggingan., því að samkv. fyrirmælum 1. þarf að kjósa tryggingan. á sama hátt. Munurinn á mínu frv. og 1. hvað þetta snertir er sá, að ég legg til, að tryggingan. hafi með framkvæmd trygginganna að gera í héruðunum, en verði ekki valdalausar, eins og þær eru samkv. lögunum. En í þeim er ætlazt til, að tryggingastofnunin setji upp skrifstofur og umboðsmenn, þar sem hún telur þörf á því. Þessar skrifstofur og umboðsmenn hafa með allar framkvæmdir að gera, en tryggingan. gera ekki neitt nema hafa á hendi eftirlit með framkvæmdum hjá þessum skrifstofum og umboðsmönnum. Með þessu móti er þetta kerfi tvöfalt: umboðsmenn og skrifstofur annars vegar en tryggingan. hins vegar. Ég legg til, að tryggingan. stjórni og reki þær skrifstofur, sem tryggingastofnunin telur sig þurfa að hafa í hinum ýmsu tryggingaumdæmum.

Þá sagði hv. þm. Barð., að það væri rangt, að um það hefði verið samkomulag á Alþ. að fela sjúkrasamlögunum framkvæmd trygginganna á yfirstandandi ári. Það má vel vera, að um þetta hafi ekki verið gert samkomulag, en það var þó að minnsta kosti samþ. af meiri hl. Alþ. að hafa þennan hátt á og setja í sjálf 1. ákvæði um það. Þetta er síðasta bráðabirgðaákvæðið í 1. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til ársloka 1947 skulu stjórnir sjúkrasamlaga í kaupstöðum utan Reykjavíkur annast störf trygginganefnda samkv. 11. gr. og jafnframt annast skrifstofuhald og umboðsstörf fyrir Tryggingastofnunina samkv. samningum, er tryggingaráð samþykkir.“

Hér er sem sagt skýlaust sagt fyrir um þetta af hv. Alþ. Og hvort hér er um samkomulag eða samþykkt að ræða, skiptir ekki máli.

Þá andmælti hv. þm. hækkun lífeyrissjóðsgjaldanna með þeim rökum, sem ég get skilið af hans hálfu, sem sagt að útgjöldin yrðu of há, ef frv. yrði samþ. Það er gefið mál, að útgjöld trygginganna yrðu meiri, ef þessi hækkun lífeyrisgreiðslnanna yrði samþ. En aðalatriðið er það, hvort þjóðfélagið sé fært um að veita þegnunum þær tryggingar, sem koma að fullu gagni í þeim tilfellum, sem þeir þurfa á þeim að halda. Og þær ná ekki tilgangi sínum, nema lífeyrisgreiðslurnar séu þegnunum fullnægjandi, þannig að þeir þurfa ekki að leita annarrar opinberrar aðstoðar sér til framdráttar. Að svo komnu máli er ekki hægt að fullyrða nokkuð um það, hvort þær tekjur, sem tryggingastofnuninni eru ætlaðar 1. samkv., hrökkvi eða muni ekki hrökkva, þótt lífeyrisgreiðslurnar yrðu hækkaðar um þetta. Á þetta er engin reynsla komin enn sem komið er. Um þetta er aðeins til áætlun, sem er undirbúin af tryggingastofnuninni eða mönnum, sem hún hefur falið framkvæmd verksins. Ég geri ráð fyrir, að þeirra sjónarmið sé að gera tryggingastofnunina sem stofnun sem öruggasta. Það er því ekki útilokað, að sú áætlun geri meira en standa undir þeim útgjöldum, sem henni er nú ætlað samkv. 1. En um þetta fæst reynsla, og þá er nógur tími til að tala um það, að hve miklu leyti og á hvern hátt tryggingastofnuninni yrði aflað meiri tekna til þess að standa undir nauðsynlegum útgjöldum.

Þá sagði hv. þm., að það væri rangt hjá mér, er ég segi í grg. frv., að niðurfelling ekknabótanna hefði valdið gremju utan þings: Ég held ég megi fullyrða, að til þingsins hafi komið erindi úr fleiri en einni átt, þar sem látin var í ljós megn óánægja með ráðstafanir þingsins í þessu máli. Og ég býst varla við, að annað, sem um þetta hefur verið rætt síðan, hafi farið með öllu fram hjá hv. þm. Barð., svo athugull sem hann er og fylgist vel með þingmálum og því, sem um þau sést á prenti.

Þá var hv. þm. að spyrja, hvernig aðstaða ekkna hefði verið áður en þessi 1. voru sett. Það er vitað mál, að aðstaða ekkna hefur ekki versnað, heldur batnað, en hún hefur ekki batnað að sama skapi og aðstaða annarra þjóðfélagsþegna, sem fá fullan elli- og örorkulífeyri. Það er þetta misræmi, sem ég ætlast til, að leiðrétt sé með þessari breyt. á l. Hv. þm. talaði mikið um þau feikna útgjöld, sem það gæti bakað ríkissjóði, ef samþ. væri 4. gr. þessa frv. varðandi ekknabætur og greiðslur til ógiftra kvenna og ekkna, sem giftust. Þm. taldi, að það hefði verið okkur sósíalistum að kenna, að þetta ákvæði hefði verið í frv., þegar það var lagt fyrir þingið, eins og önnur ákvæði þessarar gr. En þetta er nokkur misskilningur hjá hv. þm. Mér er ekki kunnugt um þetta. Það kom aldrei fram við meðferð málsins, að við berðumst sérstaklega fyrir þessu ákvæði. Við lögðum aðeins áherzlu á, að ekkjur fengju greiddan lífeyri, meðan þær hefðu fyrir börnum að sjá, og sama gilti um ógiftar konur, sem hefðu börn á framfæri. Þetta er fyrir mér mergurinn málsins. Hins vegar hef ég tekið þetta upp óbreytt eins og það var í frv.; þegar það kom fyrir þingið, og hafði ég vænzt þess, að það gæti orðið til þess, að samkomulag gæti orðið um málið. Ég er reiðubúinn að ræða um það við hv. þm. Barð. eða aðra, sem samkomulags vildu leita um þetta atriði, að breyta þessu atriði eða fella það niður. Fyrir mér var og er þetta atriði, sem hv. þm. ræddi svo mjög um, ekkert aðalatriði.

Það síðasta, sem hv. þm. sagði um þetta mál, var, að frv. væri flutt í auglýsingaskyni. Þessi ummæli skipta auðvitað ekki nokkru máli, og get ég því látið mér þau í léttu rúmi liggja. En sé það raunverulega þannig, að þessar breyt. á 1. séu veigalitlar og að mestu leyti teknar upp úr 1. eins og þau eru nú og séu því fluttar í auglýsingaskyni, þá ætti að vera auðvelt að ná samkomulagi um framgang þeirra.