20.01.1947
Efri deild: 53. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (3735)

130. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Í sambandi við 11. tölulið undir ákvæðum til bráðabirgða vil ég benda á, að ég veit ekki til, að orðið hafi nokkurt samkomulag um það, eins og hv. flm. talaði um. Þetta var af eðlilegum ástæðum sett inn í 1. og kom ekki neinu samkomulagi við. Þau rök, að þessu skuli breyta vegna þessa samkomulags, tel ég ekki rétt.

Viðvíkjandi því, að hingað hafi komið mótmæli gegn breytingunni, sem gerð var á gr. um ekknabæturnar, þá var mér ekki kunnugt um það. En hins vegar kom eitthvað af mótmælum, sem pöntuð voru af vissum flokki. En þau mótmæli hef ég ekki tekið alvarlega, þar sem ég veit, að þau voru pöntuð af sósíalistum í þeim félagssköpum, sem þeir ráða yfir, til þess að geta gert málið að æsingamáli fyrir kosningarnar. Hins vegar leyndu þeir fyrir kjósendum þeim kjörum, sem aðrar gr. frv. fólu í sér og ég hef bent á. Ég skal ekki deila um það, hvort kjör ekkna séu lakari en annarra þegna í þessu þjóðfélagi. Ég hygg, að það mál sé ekki að fullu rannsakað. Ég hef ekki séð nein sérstök gögn um það. En því er ekki hægt að neita, að kjör þeirra eru stórum betri en þau voru. Ég álít, að rétt sé, að reynslan sýni, hvernig þetta reynist, áður en farið er að breyta 1. Það er rétt, að breyta þyrfti ýmsu, t. d. hækkun bóta og að gera landið að einu verðlagssvæði. En í sambandi við þetta vil ég benda á, að í 116. gr. voru sett ákaflega sterk takmörk við þessu. Það var sjáanlegt, að ef þessi takmörk yrðu ekki sett, hefði svo getað farið, að tryggingamálin riðu ríkissjóðnum að fullu. Ég tel ekki rétt að hækka bæturnar nú um 25%, meðan ekki liggur fyrir reynsla um áhrif trygginganna á þjóðfélagið. Ég sé ekki, að mikið vit sé í því að hækka nú bæturnar um 25% og beita svo ákvæði 116. gr. og skera þær niður. Það yrði að beita ákvæði 116. gr., ef þessi breyting yrði samþ.

Það er ekki rétt hjá hv. flm., að það hafi ekki verið komið frá sósíalistum inn í frv., að ógiftum konum, sem ættu fleiri en 2 börn, ætti að greiða eins og ekkjum. Það var mikið rætt um þetta. En það samkomulag, sem náðist, tel ég þannig, að bæði giftar og ógiftar konur megi betur við það una en ákvæðið eins og það upphaflega var í frv. Ég er því fylgjandi, að frv. fari til n., en ekki út úr þessari hv. d. eins og það nú er.