11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Skúli Guðmundsson:

Ég vil gera hér nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Siglf. Hv. þm. Siglf. sagði, að við hæstv. menntmrh. hefðum skapað það kerfi í viðskiptamálum, sem nú væri notað, og að það væri undirrót alls hins illa. Hann hóf ræðu sina á þessu og spjallaði um það í tvær stundir. Þetta ferðalag í hugarheimi þessa hv. þm. minnti mig á söguna um manninn, sem ók á mótorhjóli, en kunni ekki að stöðva það og varð þess vegna að aka unz benzínið var þrotið.

Hv. þm. talaði um, að ég og hæstv. menntmrh. hefðum stjórnað þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru vegna kreppunnar, til þess að draga úr innflutningnum. Þetta er rangt, því að þessar ráðstafanir voru fyrst gerðar 1932 vegna markaðstapa á Spáni, en þá var stjórn hv. þm. V-Ísf. við völd, en hvorki ég né núv. menntmrh. Það var fyrst tveimur árum síðar, sem núv. menntmrh. tók við yfirstjórn þessara mála. Ég var í gjaldeyrisnefnd í tvö ár, 1936 og 1937, og svo segir þessi þm., að ég og menntmrh. höfum skapað þetta kerfi, byggt þessa borg, sem honum virðist hafa staðið óvinnandi. Í gjaldeyrisnefnd voru fimm menn, en samt á ég að hafa ráðið þar öllu. Ég vissi ekki fyrr, að nafn mitt væri svo stórt og ég svona mikið stórmenni. Það væri ástæða til þess, að ég yrði feiminn og roðnaði eins og jómfrú, þegar ég heyri, að ég hafi verið svo mikill maður.

Hv. þm. Siglf. sagði, að til 1932 hefði verið sameiginlegur út- og innflutningur, en með þessu nýja kerfi, sem hann talaði um, hefði þessu verið breytt. Þetta gefur tilefni til að spyrja, hvort þm. telji heppilegra, að heildsalarnir hefðu líka útflutninginn, hvort hann leggi til, að sölufélagssamtökin verði lögð niður. Ég veit ekki, hvað fyrir honum vakir, en manni dettur sitthvað í hug.

Þessi þm. talar um, að straumurinn liggi allur til Rvíkur, og kennir það þessu umrædda kerfi. Það er rétt, að það er mikill fólksstraumur til Rvíkur, en á því á þessi þm. sjálfur mesta sök. Það má benda á, að áður fluttu fyrirtæki í Rvík inn 2/3 af innflutningsvörumagninu, en síðustu ár, þegar þm. Siglf. var í ráðherrastól, flutti Rvík inn 9/10 hluta.

Til marks um það, hvað þm. Siglf. komst langt frá réttu máli, má nefna það, að hann sagði, að ég og menntmrh. hefðum skapað heildsalastéttina, og einu sinni sagði hann, að við hefðum ætlað þessa stétt sem baráttulið Framsfl. Það þarf ekki að ræða þetta nánar, það má öllum vera ljóst, hvað þetta er langt frá því að vera veruleiki.

Þá sagði þessi þm., að ekkert hefði verið hugsað um atvinnulífið á þessum árum, en staðreyndin er, að vegna takmörkunar á innflutningi þess, sem síður var nauðsynlegt, var hægt að flytja inn meira af nýjum vélum en nokkurn tíma hafði verið gert áður á svo skömmum tíma, og með þeim var skapaður grundvöllur fyrir auknar tekjur.

Það væri ástæða til þess að spyrja þm. Siglf., hvort hann ætlast til, að hann sé tekinn alvarlega, þegar hann er að lýsa þessu háskalega kerfi, því að allir vita, að hann hefur átt sæti í ríkisstj. án þess að breyta fyrirkomulaginu, nema síður sé. Hann getur ekki neitað því, að í hans ráðherratíð fengu heildsalarnir aukinn innflutning á kostnað neytendasamtakanna, en þessi verk sýna, að þáv. ríkisstj. taldi hlut heildsalanna of rýran. Það er auðvitað alveg sama, þó að þm. Siglf. tali illa um heildsalana nú og telji hlut þeirra of stóran, því að ég er viss um, að þeir meta verk hans sem fyrrv. ráðh. meira, en orð hans í kvöld. Ég er ekki í vafa um, ef heildsalarnir væru spurðir um, hvort þeim hafi vegnað betur, þegar ég átti sæti í gjaldeyrisnefnd eða árin, sem þm. Siglf. var í ráðherrastól, hverju þeir mundu svara, en það mundi vera á þá leið, að fyrr hefðu þeir lapið dauðann úr skel, en í ráðherratíð þm. Siglf. hefðu þeir lifað í allsnægtum auðs. — Ég vona, að núv. ríkisstj. lagfæri þetta og geri hlut samvinnufélaganna réttari.

Að öðru leyti eyði ég ekki tíma í að svara þm. Siglf.. en vil þó að lokum minnast á ákvæði 6. gr. Hv. þm. Siglf. segir, að hún sé óframkvæmanleg. Hins vegar sé ég ekki annað, en það sé auðvelt að haga verðlaginu þannig, að verzlanir auki ekki álagningu á vörur vegna tollhækkana, og það er vissulega auðvelt.