11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Mér þykir rétt að láta það koma fram, hvaða afstöðu ég hef til þeirra brtt., sem fram hafa komið í þessu máli.

Það er þá fyrst brtt. frá 2. þm. Reykv., þar sem um er að ræða lista yfir allmargar vörutegundir, sem hann vill ekki láta tollhækkunina koma fram á. Um þessar till. get ég sagt það, að ég hefði viljað vera í þeim sporum, að ég gæti fallizt á þær. En ég sé mér það ekki fært, vegna þess að það mundi rýra svo mjög þær tekjur, sem verða að nást til þess að fá eitthvert vit í þau fjárl., sem Alþ. er nú í þann veginn að samþykkja.

Viðvíkjandi till. þm. V-Húnv. um að fella niður 5. gr., um undanþáguheimild, vil ég segja það, að þetta ákvæði er sett til varnaðar. Það er hugsanlegt, að einhverjar ástæður gætu legið til þess, að brýn nauðsyn væri að losa einhverjar vörur undan þessu gjaldi. Hins vegar er víst, að slík heimild bakar þeim, sem fer með fjármálin, mikil óþægindi. Ég vil því fallast á, að þetta ákvæði verði fellt niður úr frv., því að það munu þá vera til einhverjar aðrar leiðir til að bæta úr ágöllum. ef nauðsyn krefur.

Hvað snertir brtt. meiri hl. n. við 6. gr., þá er hún aðallega orðalagsbreyt.. og vil ég nota tækifærið, úr því að ég minnist á 6. gr., að mótmæla algerlega þeirri staðhæfingu, að þessi gr. sé eingöngu til að sýnast. Mér er vel kunnugt um þetta atriði, því að ég átti hlut að því, að þetta ákvæði var sett inn, en það var ekki til að sýnast, heldur til þess að koma í veg fyrir, að verzlunarálagning yrði sett á þá tolla, sem hér er um að ræða.

Ég skal ekki að öðru leyti gera þetta að umtalsefni, en þótt út á þessa braut væri farið, kæmi það ekki að neinu gagni til þess að jafna hallann á fjárl. 1947. og það er það verkefni, sem við eigum að koma í kring, að þessum halla sé mætt, og sannast að segja er ekki víst, að með þessu frv. sé það tryggt, nema enn betur sé tekið í taumana, en gert hefur verið, og er ekki af miklu að státa í því efni. — Ég vildi aðeins drepa á þetta. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það er búið að tala mjög mikið um það og raunar mörg önnur mál því litið skyld.

Hv. þm. Siglf. flutti hér mikinn fyrirlestur um verzlunarmál yfirleitt og útgerðarmál í sambandi við þau. Verð ég að segja, að að mínum dómi var öll framsetning hans of áróðurskennd og sýnist meira flutt fyrir þingpalla, en þingheim. En látum það gott heita, menn hafa gaman af því að láta til sin heyra um mál. og þegar áróðurinn á að sitja í fyrirrúmi. er ekki eins mikið um það hugsað, hvort full rök eru færð fyrir öllu, sem sagt er. Hv. þm. sagði að loku,. að þessari stjórn hefði verið mætt af fullkominni tortryggni af hálfu útgerðarmanna, og í sömu andránni sagði hann, að útgerðarmenn hefðu nú fengið skilning á stöðu sinni í ríkinu fyrir atbeina hans flokks. Ef sá skilningur er frá þeim kominn, er ekki undarlegt, þó að sá hluti af útgerðarmönnum, sem fær lífsnæringu fyrir andann úr flokki hv. þm. Siglf., liti á þessa stjórn með tortryggni og sé ekki á móti því, að öll varúð sé viðhöfð og öll tortryggni í garð stj., því að við, sem í þessari ríkisstj. sitjum, höfum ekki sótzt eftir að lofa útgerðinni né öðrum gulli eða grænum skógum. Við vitum, að þessi stj. tekur við á þeim tíma, þegar sýnilega er farið að halla niður á við í mörgum efnum að því er snertir útlit með afkomu atvinnuveganna. Við vonum, að það verði ekki til stórs skaða, og vonum, að þetta batni frá því, sem horfir, en það verður þó ekki sagt, að stj. hafi tekið við á sérlega björtum tíma í atvinnumálunum, og af því, þegar verr hefur gengið í ýmsum efnum og menn sjá fram á frekari vandræði, hafa menn jafnan tilhneigingu til að vera tortryggnir, bæði gagnvart stjórnarvöldunum og öðrum. En tortryggni útvegsmanna beinist nú stundum í fleiri áttir en eina á þessum tímum, og er það nú svo, að þótt hv. þm. Siglf. tali mikið um sina umhyggju fyrir útgerðarmönnum, sleppur hann ekki heldur frí við það, sem kannske mætti kalla tortryggni frá einmitt þessari stétt. Hann hefur haft með höndum framkvæmd stórvirkja í þágu útgerðarmálanna á sinni stjórnartíð, en það eru byggingar hinna nýju síldarverksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Og mér er sagt, að í gær hafi Landssamband íslenzkra útvegsmanna samþ. áskorun til ríkisstj. um það að láta fram fara rannsókn á því ófremdarástandi, sem talið er, að ríkt hafi í byggingum þessara verksmiðja. Mér er ekki þetta mál svo kunnugt, að ég leggi dóm á það, hvort þar hafi skeð eitthvað, en ég vil benda hv. þm. Siglf. á það, að jafnvel ekki hann er laus við tortryggni útgerðarmanna nú á tímum samkv. þessari fundarályktun. Þeir rökstuddu þetta með því, að það ofbyði bæði þeim og öðrum, hvað kostnaðurinn er orðinn mikill við þessi mannvirki. Svona gengur það. Það er þess vegna í sjálfu sér ekkert við það að athuga, þótt hv. þm. fullyrði, að ríkisstj. sé tekið með tortryggni, þegar jafnvel yfir hann sjálfan getur gengið svona ályktun frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, svona samþykkt.

Hv. 8. þm. Reykv. lýsti yfir skoðun sinni á frv., og gekk hún frekar í þá átt, að honum líkaði ekki alls kostar þessi útgjöld og það, sem hér er á ferð, og skal ég ekki lá honum það. Mér líkar það ekki heldur, því fer fjarri. En það er hins vegar þessi nauðsyn fyrir hendi að afla, tekna til þess að mæta rekstrarhalla fjárl. Ég er viss um, að hv. þm. er mér sammála um það, að kominn er tími til þess að fara nú að afgreiða þessi fjárl., og hefðu ekki alveg sérstakar ástæður legið fyrir, út af stjórnarskiptum, hefðu þau átt að vera afgreidd fyrir löngu, og fyrir hendi liggur annaðhvort að afgreiða fjárl. með stórmiklum tekjuhalla eða sjá fyrir tekjum til þess að mæta þeim halla, og þykist ég vita, að þm. muni viðurkenna, að það verði að reyna að gera hið síðara, að afla tekna til að mæta hallanum, frekar en að afgreiða fjárl. á þann veg, sem mundi verða þ. allteins mikil vansæmd að, að afgreiða þau með stórkostlegum rekstrarhalla. Við erum að vissu leyti allir á sama bát að því er þetta snertir, og má segja, að þm. hafi yfir höfuð verið of bjartsýnir í því að gera kröfur til ríkissjóðs, og skal ég ekki ræða um ástæðurnar til þess. Það er margt, sem eftir talar, t.d. kjördæmamálið o.fl. En þegar svo er komið, að menn eru búnir að gera þessar kröfur og vilja standa við þær, um útgjöld, er nauðsynlegt að afla tekna til þess að uppfylla þær kröfur, því að það er gagnslaust að krefjast þeirra aðeins á fjárlfrv., ef ekki er reynt að sjá svo fyrir, að hægt verði að standa við fjárútlátin. Það er nú svo, að þrátt fyrir það að enginn mun vera ánægður með að leggja á þessi gjöld, þá er engan veginn víst, að ríkissjóði sé séð fyrir nægilegu fjármagni á þessu yfirstandandi ári. Það er vandséð, hvernig ábyrgð ríkissjóðs á útgerðinni reiðir af. Það getur svo farið. að ríkissjóður verði fyrir stórútlátum í sambandi við fiskábyrgðina. en svo er þó ekki ráð fyrir gert í fjárl. og ekkert tillit tekið til áfalla, sem upp á kynnu að koma af þeim ástæðum. Þegar þessa er gætt, væri í þeim mun ríkari mæli óverjandi, ef ekki væri reynt að sinna eftir megni því hlutverki, sem verður að vinna að eftir þessari löggjöf.