09.05.1947
Efri deild: 129. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (3757)

81. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við gildandi l. Ef þetta frv. verður að 1., þá er gert tvennt í senn, annars vegar rýrðar þær kröfur, sem gerðar eru til skipstjórnar á skipum, eins og þær eru í dag með 1. nr. 66 frá 1946, og hins vegar breytt lagaákvæðum um tölu yfirmanna á skipum samkv. sömu l. Það er tekið fram í grg., að þetta sé gert vegna þess, að ekki sé ástæða til þess að hafa skipstjórnarmenn með þeirri þekkingu, sem l. ákveða, til að sigla ferju yfir Hvalfjörð. Í fyrsta lagi er ekkert kveðið á um það nú, hvers konar för hér sé um að ræða, þó að gengið sé út frá því, þegar frv. er samið, að hér séu notaðar ákveðnar ferjur, sem þegar hafa verið keyptar til Akraness og hafa verið keyptar í því skyni að halda uppi ferju yfir Hvalfjörð.

Þessar ferjur munu vera um 200 tonn að stærð, eftir því sem fram kemur í þskj. frá fyrra aðalþingi. Ef svo skyldi vera, að um þessi för sé að ræða, þá ber að krefjast miklu meira náms af skipstjórum, sem fara með slíkar ferjur, en gert er, ef þetta frv. yrði að 1., því að þetta frv. ákveður þá, að ekki sé krafizt annarrar og meiri þekkingar hjá slíkum skipstjórnarmönnum en krafizt er á mótorbótum frá 6–30 tonn.

Nú vil ég benda á, að það er ætlazt til þess og gerð áætlun um það, að slík ferja, eins og hér ræðir um, muni flytja ekki minna en 20 þús. manns yfir fjörðinn á ári. Og þegar tekið er tillit til þess, að einmitt á þessari leið er verið að koma upp væntanlega mjög stóru hvaliðjuveri og auk þess búið að koma upp stórkostlegum olíugeymum, svoleiðis að umferð um þennan stað verður margfalt meiri en nú er, þá er alveg sýnilegt, að það er ekki rétt að minnka kröfurnar til skipstjórnarmanna, sem eiga að hafa ábyrgð á lífi þúsunda manna á þessari leið, þó að ekki sé hún löng. Ég held líka, að það séu ekki nein rök til fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt, því að sannleikurinn er sá, að tugir manna af eldri skipstjórum munu óska eftir þessu starfi til þess að mega vera seinni ár sín í svo rólegu starfi sem hér um ræðir, svoleiðis að það er ekki af þeirri ástæðu, að það sé ekki hægt að fá nægilegt framboð af slíkum mönnum, að óskað er eftir að gera þessa breyt. á l., nema síður sé. Ég vil einnig benda á í sambandi við þetta, þó að það væri að vísu nokkru lengri leið, en þó ekki til neinna muna, benda á það, er Laxfoss fór á sínum tíma frá Akranesi, hlaðinn fólki, og það óhapp vildi til, að hann strandaði hér við hafnarmynnið. Það er ekki heppilegt í slíkum tilfellum, ef menn með lægstu prófum til skipstjórnar á mótorbátum væru hafðir sem skipstjórar. Ég vil einnig í þessu sambandi benda á, að í öðrum löndum er það algild regla, að skipstjórar á ferjum, — þó að um styttri leið sé að ræða en hér, t. d. yfir Temsá — eru valdir úr hópi hinna prýðilegustu skipstjóra, þar eð þeir flytja svo gífurlega marga, þótt leiðin sé stutt, og eru ekki gerðar minni kröfur til þeirra en hafnsögumanna. Því sér n. ekki ástæðu til að leggja til að gera þá lagabreyt., sem lögð er til í 1. gr. þessa frv., að draga úr kröfum til skipstjórnar á hinni fyrirhuguðu Hvalfjarðarferju.

Um hitt atriðið er farið hér inn á nýja leið, ef viðkomandi ráðh. er falið það vald að ákveða tölu yfirmanna á þessum bílferjum, og getur n. ekki fallizt á það heldur að mæla með því, að hafður verði einn stýrimaður og einn skipstjóri. Ef ferjan gengur daga og nætur, sem öll líkindi eru til, þá verður ekki komizt af með færri yfirmenn en venjulegt er að hafa á skipum. Yrði þetta frv. að lögum, þá nær þetta ekki eingöngu til yfirmanna ofan þilja, heldur einnig til vélamanna. En það eru 1000 ha. vélar í þessum ferjum, hvorki meira né minna. Og við teljum ekki rétt að ráðherrar, sem hafa ekki að jafnaði eins mikla þekkingu á þessum hlutum og þeir, sem réðu núgildandi lagaákvæðum um þetta, fari með þetta vald, og við sjáum heldur engan fjárhagslegan sparnað í því að samþykkja þetta, því að tala yfirmanna á þilfari yrði í reyndinni að verða lík og hún er nú, og tala yfirmanna í vélarrúmi verður að sjálfsögðu að fara eftir stærð þeirrar vélar, sem fyrir hendi er. Við sjáum því enga ástæðu til að draga úr þessum ákvæðum, eins og gert er í frv. þessu, og n. er sammála um að leggja til, að frv. verði fellt í heild. Ég skal þó geta þess, að hv. 1. þm. Reykv. var ekki á fundi, er n. afgreiddi þetta mál, og tók því ekki afstöðu til þess.